132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Merkingar á erfðabreyttum matvælum.

606. mál
[13:37]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef þá skoðun að erfðabreytt matvæli geti verið mjög háskaleg heilsu manna. Ég held að það eigi eftir að koma á daginn þegar fram líða stundir og rannsóknir á erfðabreyttum matvælum fara að skila sér. Þau eru í mörgum tilfellum háskaleg heilsu manna og sérstaklega sumra manna, sem eru viðkvæmari fyrir þeim en aðrir, og af því að erfðabreytt matvæli eru notuð í margar grundvallarfæðutegundir eins og talið var upp hérna áðan sem mörg okkar neytum daglega eða oft í mánuði, oft í viku, eins og morgunkorn, brauðvörur og grundvallarfæðutegundir, m.a. sem börn neyta í miklum mæli. Ég held að þetta sé sérstaklega hættulegt fyrir mörg börn.

Ég held að það eigi eftir að koma á daginn að erfðabreytt matvæli hafi slæm áhrif á heilsu margra. Því hljótum við að harma sofandahátt stjórnvalda í þessum málum, að það þurfi að berja á þeim í þinginu til að bregðast almennilega við þessu máli. Ég er sannfærður um að þetta er háskaleg matvara í mörgum tilfellum.