132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Malarnáma í Esjubergi.

658. mál
[13:42]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem hér í ræðustól til að forvitnast aðeins um málefni malarnámu einnar í Esjubergi við Kollafjörð. Svo það fari ekki á milli mála við hvaða malarnámu er átt vil ég lýsa henni í örfáum orðum.

Þetta er malarnáma sem stendur við Kollafjörðinn við þjóðveg nr. 1 og hefur verið í rekstri í nokkra áratugi. Þar hefur verið reistur mikill veggur úr steinsteypu. Flestir kannast kannski við áletrun sem á þessum vegg stendur: „Flatus lifir.“ Fyrir nokkrum árum tóku nokkrir athafnamenn sig til, kannski Flatus sjálfur, ég veit það ekki, og bættu við: „Flatus lifir enn“. Þetta veggjakrot er á margan hátt orðið klassískt í sögu íslensks veggjakrots en hvað um það, virðulegi forseti, ég kom til að spyrja um þessa malarnámu.

Ég á leið þarna um á hverjum degi og mér þykir mikið lýti, á þeim annars fallega stað, að þetta sé þarna alveg við þjóðveginn. Ég tel líka nokkra slysahættu af þessari námu því að oft á tíðum þegar vindar blása hart úr ákveðnum áttum eru þar mjög miklir sviptivindar. Gárungarnir hafa oft sagt að á þessum stað sé hægt að verða sér úti um ókeypis sandblástur á bílum. En að öllu gamni slepptu hafa margir kvartað undan því að bílar þeirra hafi orðið fyrir skemmdum þegar þeim hefur verið ekið þar fram hjá, þegar veður hafa verið válynd.

Virðulegi forseti. Við sem eigum reglulega leið þarna fram hjá höfum orðið vör við að vinnsla í þessari námu hefur mjög dregist saman. Þarna voru áður stórvirk tæki til malarvinnslu og oft mikið um að vera en undanfarin missiri er ekki að sjá að þar sé mikil starfsemi. Hins vegar er svæðið algjörlega ófrágengið og þar er enn þá mikið af möl. Enn er þar sandfok, það hef ég sjálfur sannreynt bara núna í vetur, jafnvel litlir steinar sem fjúka þar yfir veginn. Ég tel að þetta skapi tvímælalaust enn slysahættu.

Ég hef fyrir framan mig grein úr DV frá því 31. maí árið 2003. Þar kemur fram, í viðtali við eigendur þessarar námu, að þeir hafi m.a. verið í viðræðum við samtökin Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs um það hvernig þeir ætli að ganga frá svæðinu eftir sig, hvernig uppfyllingu verði komið fyrir í þessu sári í fjallshlíðinni og svæðið grætt upp. Síðan eru liðin þrjú ár og hefur ekkert gerst. Þess vegna kem ég upp og forvitnast um það hjá hæstv. ráðherra hvernig málum er háttað varðandi þessa malarnámu, nú þegar tæki og tól hafa verið fjarlægð. Getur ráðherra geti fært okkur einhverjar fréttir af því hvort þessari námu verði lokað og svæðið grætt upp? Ég tel tvímælalaust að það (Forseti hringir.) sé á vissan hátt á ábyrgð stjórnvalda í þessu landi.