132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Malarnáma í Esjubergi.

658. mál
[13:49]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég tek undir tóninn í orðum síðasta hv. ræðumanns. Ég vil segja almennt um þetta að auðvitað er þessi starfsemi mikilvæg fyrir land og lýð, fyrir framkvæmdir við vegi og hús og fleira, en okkur hefur gengið furðu illa að taka upp einhver skynsamleg og hreinleg vinnubrögð í þessu efni. Það er sárara en bærilegt er að fara um landið og sjá allar þessar ófrágengnu námur. Enn eru menn að veltast um í gömlum námum vegna þess að okkur gengur illa að koma í gegnum þingið frumvarpi frá hæstv. umhverfisráðherra um gamlar námur og er illskiljanleg sú fyrirstaða sem við því er. Hins vegar er það auðvitað þannig að til eru reglur sem hreinlega á að fara eftir um frágang náma sem búið er að nýta. Það verður að (Forseti hringir.) ætla að sveitarfélögin fari betur eftir þeim og umhverfisráðherra ætti kannski að ganga betur eftir því.