132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Umferðaröryggi á Kjalarnesi.

680. mál
[14:13]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra opinberaði það hve vandræðalegt ástandið er. Hæstv. ráðherra hefur enga framkvæmdaáætlun fyrir allt þetta verkefni. Framkvæmdaáætlun þyrfti að liggja fyrir nú þegar, ekki bara fyrir Sundabraut heldur líka um veginn frá Kjalarnesi og upp að göngum, fyrir breikkun Hvalfjarðarganga og framhald þess verkefnis alla leið upp í Borgarnes. Slík framkvæmdaáætlun ætti að liggja fyrir.

Hæstv. samgönguráðherra hefur ekki sinnt þeirri vinnu og hefur ekki heldur enn þá komið fram með áætlun um hvernig eigi að fjármagna þann hluta verkefnisins sem mest er rifist um, sem er Sundabraut. Ég held að hæstv. ráðherra ætti að líta sér nær, fremur en að skjóta á aðra þegar hann hefur ekki staðið sig betur en þetta.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Er ekki að verða til framkvæmdaáætlun fyrir þetta verkefni sem allt saman hangir saman í raun og veru, eða hvað?