132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Umferðaröryggi á Kjalarnesi.

680. mál
[14:15]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Allir vita hvernig samgönguráðherra Sjálfstæðisflokksins hefur varið skattfé því sem að mestu kemur af höfuðborgarsvæðinu fyrst og fremst til vegaframkvæmda úti á landi. Hann gengur trúlega frá samningi um Héðinsfjarðargöngin eftir helgi. Um leið gerir hann þá kröfu til Reykjavíkur að ef hér sé vandað betur til verka en ódýrast er eigi Reykvíkingar að greiða það sérstaklega og gildi þannig einhverjar sérstakar reglur um Reykvíkinga umfram aðra. Það er auðvitað fráleitt og hefur tafið verkið sem ráðherrann veit að var marga mánuði hjá umhverfisráðherra að bíða úrskurðar á síðasta ári.

Framtaksleysi hæstv. samgönguráðherra er með þeim hætti að Faxaflóahafnir sf. hafa lýst sig reiðubúnar til að leggja Sundabrautina fyrir hann, vegna þess að hann kemst aldrei af stað. Nú hefur Sjóvá boðist til að leggja Suðurlandsveginn fyrir hann yfir Hellisheiðina vegna þess að þar kemst hann heldur ekki spönn frá rassi. (Forseti hringir.) Hann kýs hins vegar (Forseti hringir.) að ráðast hér úr ræðustóli Alþingis að fjarstöddum mönnum (Forseti hringir.) með því að uppnefna þá og er honum réttur sómi sýndur með þeirri (Forseti hringir.) framgöngu sinni.

(Forseti (ÞBack): Ég vil biðja hv. þingmenn um að gæta að ræðutímanum, hann er knappur, ekki nema ein mínúta, og hlýða forseta þegar hringt er.)