132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Umferðaröryggi á Kjalarnesi.

680. mál
[14:19]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það var einu sinni maður í vandræðum. Það var um miðja nótt um páskaleytið. Hann var í þeim vandræðum að hann var staddur í Jerúsalem og þurfti að þjóna tveimur herrum, annars vegar sjálfum sér og lífi sínu og hins vegar þeim málstað sem hann hafði lagt trúnað á. Um þennan mann orti Hallgrímur Pétursson þá línu að þá væri „Pétur með sturlan stærsta“ sem hann fór um garðinn þegar galað var þrisvar.

Mér sýnist að hæstv. samgönguráðherra Sturla Böðvarsson sé í svipuðum vanda og „Pétur með sturlan stærsta“. Kerlingin var spurð hvað sturli þýddi og hún taldi, af því að þetta var um miðja nótt og Pétur var að þvælast í borginni, að hann væri með koppinn með sér. Um það má lesa í þjóðsögum Jóns Árnasonar.

Annars vegar hefur samgönguráðherra einlægan áhuga á verki sínu en hins vegar er hann í þjónustu Sjálfstæðisflokksins, barinn áfram af borgarstjórnarminnihlutanum í Reykjavík til að standa í eilífri styrjöld og skærum við réttkjörinn meiri hluta Reykvíkinga og koma í veg fyrir (Forseti hringir.) að Reykvíkingar og nærsveitamenn fái þær samgöngubætur (Forseti hringir.) sem þeir eiga rétt á.