132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Innflutningur á erfðabreyttu fóðri.

697. mál
[14:40]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að það er mikilvægt að ræða þessi mál og fræða, fara yfir hvað er að gerast á vettvangi heimsins í þessum efnum. Þess vegna vil ég í upphafi máls míns segja að nú í vor verður fundur hér á Íslandi sem Landbúnaðarháskólinn, landbúnaðarráðuneytið og Bændasamtökin standa fyrir, fræðslufundur með innlendum og erlendum sérfræðingum um erfðabreyttar lífverur, erfðabreytt fóður, umhverfið, notkun þess og reglugerðir Evrópusambandsins. Það er mikilvægt að upplýsa og fara yfir þessa stöðu og ræða hana.

Hv. þingmaður spyr, með leyfi forseta:

„Hve mikið er flutt inn af erfðabreyttum maís og erfðabreyttu sojamjöli og hvert er hlutfallið af heildarinnflutningi þessara fóðurvara?“

Árið 2005 voru flutt inn 12.665 tonn af sojamjöli í dýrafóður. Hluti af innflutningnum var merktur erfðabreyttur eða 4.920 tonn, 39%. Reikna má með að það sojamjöl sem kemur frá Argentínu og er merkt sem argentínskt sojamjöl sé erfðabreytt og bætast þá við 3.015 tonn eða 24%. Alls nemur þetta 7.935 tonnum eða 63%. Annað soja kemur ómerkt frá Evrópu eða er merkt sem brasilískt soja og er reiknað með að það sé ekki erfðabreytt. Sá innflutningur nam 4.730 tonnum eða 37%.

Sama ár voru flutt inn 19.618 tonn af heilum maís. Þar af nam innflutningur frá Kanada, sem telja má víst að sé erfðabreyttur, um 15.296 tonnum eða 78%. Innflutningur á ómerktum maís frá Evrópusambandinu, sem að hluta er ræktaður þar, nam 4.322 tonnum eða 22%. Evrópusambandið hefur samþykkt hátt á annan tug yrkja í sínum löndum sem eru erfðabreytt.

Síðari spurningin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hvað líður innleiðingu reglugerða EB nr. 1829/2003, um rekjanleika og merkingar á erfðabreyttum lífverum og rekjanleika á matvæla- og fóðurvörum, og nr. 1830/2003, um rekjanleika efna sem innihalda erfðabreyttar lífverur, samanber fyrirspurn þessa efnis á 131. löggjafarþingi (404. mál)?“

Efni þessara reglugerða heyrir undir fleiri ráðuneyti og lýtur innleiðing þeirra að heildrænni upptöku á matvælalöggjöf Evrópu sem nú er til skoðunar. Evrópusambandið hefur verið að merkja fóður, hve hátt hlutfall sé erfðabreytt í því o.s.frv. þannig að það er búið að setja reglugerð hjá sér sem ekki hefur verið innleidd enn hér á Íslandi og hlýtur að koma til umfjöllunar á næstunni.

Í sjálfu sér er ekki meira um þetta að segja á þessu stigi.