132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Innflutningur á erfðabreyttu fóðri.

697. mál
[14:44]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Afar hátt hlutfall af því fóðri sem hingað kemur er erfðabreytt og það veldur mér verulegum áhyggjum. Við ræddum fyrr í dag innleiðingu á reglugerð ESB um merkingar á erfðabreyttum matvælum og mikilvægi þeirra. Sú gloppa er í þeirri reglugerð að ekki eru gerðar kröfur um merkingar á afurðum af búfé sem alið hefur verið á erfðabreyttu fóðri. Ég tel að við ættum að gera það hér. Við stærum okkur af því að vera með hreinan landbúnað og flytjum til Bandaríkjanna og Evrópu afurðir sem við segjum lífrænar og þær bestu og hreinustu í heimi, og nefni ég þar lambakjötið sem dæmi. Við getum það ekki, við komumst ekki upp með það lengur, ef þau dýr sem afurðirnar eru unnar úr eru alin á erfðabreyttu fóðri. Það er því mín skoðun að við verðum að taka á þessu, grípa í taumana og í það minnsta setja reglur um merkingar og reyna á þann hátt að beita bændur aðhaldi.