132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Innflutningur á erfðabreyttu fóðri.

697. mál
[14:45]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Í svörum hans kemur fram að mjög hátt hlutfall af innfluttu mjöli til dýrafóðurs er erfðabreytt. Það er 63% í sojamjölinu og 78% í maís og það eru aðallega svín og alifuglar sem eru fóðruð á þessu erfðabreytta fóðri.

Hæstv. landbúnaðarráðherra hefur mjög haldið á lofti hreinleika landsins og hreinleika íslensks landbúnaðar. Það er að minnsta kosti ljóst að ekki er hægt að flokka svínaræktina, alifuglaræktina og að stórum hluta mjólkur- og kjötframleiðslu úr kúm undir það að vera vistvæna og hreina ef það er — sem hér er — staðreynd að stór hluti innflutts fóðurs er erfðabreytt. Mér finnst það mjög alvarlegt að það skuli svo litla athygli hafa fengið, bæði hjá landbúnaðarráðuneytinu og ekki síður hjá bændum, sjálfri bændastéttinni, hve alvarlegt það er að heimila og í raun og veru hvetja til innflutnings á erfðabreyttu fóðri því að það er stöðug samkeppni við erlendan innflutning. Það er ljóst að erfðabreytta fóðrið hefur verið ódýrara og nú er verið að óska eftir niðurfellingu á tollum til þess að fá enn lægra verð á fóðri og ég tel að þetta verði að skoðast allt í samhengi. Við viljum efla íslenska landbúnaðarframleiðslu en við viljum líka geta staðið undir nafni og það sé matvælaöryggi, neytendavernd sem nái einnig til erfðabreyttrar framleiðslu. Það er það sem við viljum sjá hér á landi.