132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Sjúkraliðar.

661. mál
[14:53]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hér er spurt í fyrsta lagi:

„Hvað hefur ráðuneytið gert til þess að stuðla að fjölgun í stétt sjúkraliða í ljósi vaxandi eftirspurnar eftir sjúkraliðum á heilbrigðisstofnunum og viðvarandi undirmönnunar?“

Því er til að svara að fyrir fjórum árum skipaði heilbrigðisráðherra nefnd sem ætlað var að meta ástæður vaxandi skorts á sjúkraliðum til starfa og gera tillögur um með hvaða hætti mætti bregðast við vandanum. Nefndin skilaði áfangaskýrslu til ráðherra með fimm megintillögum en skilaði ekki lokaskýrslu. Tillögurnar lúta að mati á þörf heilbrigðisþjónustunnar fyrir sjúkraliða, könnun á starfsframlagi þeirra, skilgreiningu á starfssviðinu, eflingu á framhaldsnámi fyrir sjúkraliða og kynningu á námi og starfi sjúkraliða, að það færi fram fyrir almenning og markhópa. Tekið hefur verið mið af ýmsum tillögum nefndarinnar og þær sumar komið til framkvæmda.

Þá er núna að störfum nefnd sem skipuð var til þess að fjalla um framtíðarstöðu sjúkraliðastarfsins og á ég von á því að sú nefnd skili mér áliti innan skamms. Mér er kunnugt um að í því nefndarstarfi er tekið mið af áfangaálitinu sem ég rakti hér áðan. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands er nú að þróa mannaflaspár fyrir sjúkraliða og aðrar stéttir og er skýrslan væntanleg í lok þessa mánaðar.

Það er rétt að það er skortur á sjúkraliðum til starfa fyrst og fremst á hjúkrunarheimilum en þó ber þess að geta að innritun í sjúkraliðanám hefur aukist á undanförnum árum þótt hún þyrfti að vera mun meiri. Framhaldsnámi fyrir sjúkraliða hefur verið komið á og hefur það sýnt sig og sannað. Launakjör sjúkraliða hafa verið bætt talsvert á undanförnum árum eins og þingmönnum er kunnugt. Allt eru þetta góðir áfangar en það er ljóst að betur má ef duga skal.

Í öðru lagi spyr þingmaðurinn hvort komið hafi til álita að breyta verksviði sjúkraliða til samræmis við sambærilegar stéttir annars staðar á Norðurlöndunum. Því er til að svara að verksvið sambærilegra stétta á Norðurlöndunum er mismunandi og sífelldum breytingum undirorpið. Við ákvarðanir um starfssvið heilbrigðisstétta er tekið mið af nágrannalöndum okkar en þó er ljóst að aldrei er hægt að taka líkan eða starfslýsingar frá einu landi og heimfæra það yfir í ólík kerfi annars lands. Þannig er eðlilegt og sjálfsagt að starfssvið sjúkraliða taki mið af þeim veruleika sem á við á heilbrigðisstofnunum hér á landi. Ég vil minna á að landlæknisembættið hefur farið með öll málefni er varða starfssvið heilbrigðisstétta og á það að sjálfsögðu einnig við um sjúkraliða. Málið er til skoðunar og að sjálfsögðu er brýnt að starfskraftar sjúkraliða verði nýttir með sem allra hagkvæmustum hætti. Ég tel að sjúkraliðar muni verða í lykilhlutverki í heilbrigðisþjónustunni á komandi árum og það er vegna þess að þörf okkar fyrir þjónustu þessa starfshóps mun aukast og mikilvægi þeirra við að veita þjónustuna fer sífellt vaxandi.

Varðandi mannaflaspána er alveg ljóst á þeim drögum sem við höfum séð nú þegar, endanleg skýrsla er ekki tilbúin, að við erum með nógu marga lækna í landinu, reyndar fleiri en nágrannaríki okkar. Við erum líka með fleiri tannlækna en nágrannaríki okkar en það vantar hjúkrunarfræðinga og það vantar sjúkraliða. Það er rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni, að ég sagði hér um daginn að ég hefði meiri áhyggjur af sjúkraliðunum þó að vissulega vantaði líka hjúkrunarfræðinga. Það er vegna þess að þegar maður skoðar mannaflaspána sér maður að stór hópur sjúkraliða fer út af vinnumarkaði eftir nokkur ár — samsetning hópsins er mjög athyglisverð. Það er því alveg ljóst að það þarf að efla þennan hóp, stækka hann og það þarf að fjölga sjúkraliðum.

Ég mun taka upp viðræður við hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, um þessar mannaflaspár og þörfina fyrir bæði hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða í framtíðinni og bind ég nokkrar vonir við þær.

Það hefur einnig komið til skoðunar að koma á svokallaðri brú, þ.e. hvort hægt er að bjóða upp á nám fyrir þá sem vinna núna inni á stofnunum, eru ekki sjúkraliðar en hafa mikla reynslu, eru ófaglærðir. Það fólk færi þá ekki í verklega hlutann þar sem það hefur að verulegu leyti þegar farið í hann á þeim stofnunum sem það hefur unnið á.

Það er líka rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni, að ég átti mjög góðan og uppbyggilegan fund með forsvarsmönnum sjúkraliðafélagsins fyrir stuttu og sá fundur sannfærði mig enn frekar um að það er brýnt að stækka hóp sjúkraliða í framtíðinni, (Forseti hringir.) sérstaklega í ljósi mannaflaspárinnar.