132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Sjúkraliðar.

661. mál
[15:00]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það er hárrétt, sem hér kemur fram, að launin skipta að sjálfsögðu máli í þessu eins og hjá öðrum starfsstéttum og aðstæður þeirra sem vinna í þessum störfum varðandi tengsl við fjölskyldu og önnur atriði sem lúta að kaupi og kjörum á vinnumarkaði.

Sjúkraliðastarfið er erfitt starf, ég þekki það úr eigin reynsluheimi í heilbrigðisþjónustunni, en það er geysilega mikilvægt. Þess vegna leyfði ég mér að segja um daginn að ég hefði áhyggjur af stöðunni í ljósi umræddrar mannaflaspár. Hún gefur vísbendingar um hver þróunin verður ef ekkert verður að gert. Ég mun fara í viðræður við hæstv. menntamálaráðherra og ég vil draga það sérstaklega fram hér að þær viðræður munu ekki einungis snúast um hjúkrunarfræðingana eins og sumir virðast halda. Ég vil líka taka málefni sjúkraliða upp við hæstv. menntamálaráðherra.

Varðandi starfssviðið er mér kunnugt um, m.a. í kjölfar hins ágæta fundar sem haldinn var fyrir stuttu með forsvarsmönnum Sjúkraliðafélagsins, að sjúkraliðar hafa áhuga á að skoða sérstaklega starfssviðið. Það er landlæknir sem fer með málefni er varða starfssvið heilbrigðisstétta. Mér er kunnugt um að sjúkraliðar hafa bent á að þeir vilji gjarnan sprauta sjúklinga í meðferðarskyni en landlæknir hefur gefið út bréf um að þeir eigi ekki gera það. Ef ég man rétt er sjúkraliðum heimilt að gefa insúlín með insúlínpenna en ekki að sprauta lyfjum í sjúklinga með hefðbundnum hætti. Þessi atriði hafa vissulega verið til skoðunar en landlæknir skilgreinir starfssvið sjúkraliða eins og annarra heilbrigðisstétta.