132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Hjúkrunarheimili og öldrunarþjónusta.

765. mál
[15:06]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr í fyrsta lagi um kostnað við að mæta þörfinni á dvöl á hjúkrunarheimilum í landinu öllu. Því er til að svara að það er frekar erfitt að reikna það út en ég ætla að gera tilraun til þess.

Staðan er sú núna að búið er að byggja um það bil 3.470 hjúkrunarrými og þau hjúkrunarrými eru á svokölluðum daggjaldastofnunum, sem eru meginfjöldinn af rýmum, yfir 2.000 rými eru þar. Það eru hjúkrunarrými sem eru á heilbrigðisstofnunum og sjúkrahúsum, það eru tæplega 500 rými sem eru þar og síðan eru það svokölluð sérrými, þau eru í kringum 65. Þetta eru gróflega áætlaðar tölur um það sem búið er að byggja af stofnunum ef dvalarrými eru líka tekin inn.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um hjúkrunarrýmin. Þau eru í kringum 2.700, þ.e. þau rými sem við getum algerlega flokkað sem hjúkrunarrými. Þessi rými er sem sagt búið að byggja. Gróft áætlað kostar 15 millj. kr. að byggja eitt rými, að byggja það sem sagt, steypan og það sem tilheyrir, þannig að það er þá búið að byggja fyrir í kringum 52 milljarða í landinu. En hvað kostar að reka þessi rými? Það kostar gróft áætlað 5,5 millj. kr. á ári að reka eitt rými þannig að það kostar þá um það bil 16 milljarða á ári að reka þau hjúkrunarrými sem nú þegar eru byggð og eru í notkun.

En hvað vantar upp á? Það er mjög flókið að reikna það út nákvæmlega hvað vantar upp á en ég hef verið að láta skoða það í heilbrigðisráðuneytinu upp á síðkastið hvað brýnast sé að gera, að reyna að forgangsraða. Það vilja allir fá hjúkrunarrými. Það er alveg með ólíkindum hve mörg sveitarfélög eru nú í aðdraganda kosninga að biðja um hjúkrunarrými, sveitarfélög þar sem staðan er kannski ágæt. En allt í lagi, menn hafa metnað og það er ósköp eðlilegt. En gróflega áætlað tel ég að það vanti 370–380 rými til að þörfinni verði mætt með eðlilegum hætti og það eru rými sem þyrfti að fara í að byggja á næstunni. Það er kannski erfitt að segja nákvæmlega á hvaða árabili en þetta yrði að gerast á allra næstu árum.

Hvað kostar að byggja þessi rými? Jú, miðað við sömu formúlu, þ.e. að það kosti 15 millj. kr. að byggja hvert rými, þá kostar það 5,6 milljarða nú á næstu árum og það kostar um 2 milljarða á ári að reka þau, þessi nýju rými. Segjum að þetta væri allt búið — við værum þá komin með rými sem fullnægja þörfinni í stórum dráttum — en þá værum við búin að byggja fyrir 57,6 milljarða alls og værum að reka hjúkrunarrými fyrir 18 milljarða á ári fyrir okkar öldruðu Íslendinga. Ég vil sérstaklega draga fram að þessi rými sem ég tel að við þurfum að fara að byggja á næstu árum, þessi 370–380 rými, eru í kringum 12% af heildarrýmafjöldanum. Það má því segja að við séum búin að byggja núna í dag 88%. Það eru 12% eftir. Er það stór biti eða lítill biti? Þetta er kannski minni biti en margur ætlaði, þessi 12% sem á eftir að byggja.

Varðandi seinni spurningu hv. þingmanns, hvort flytja eigi öldrunarþjónustuna til sveitarfélaga, þá hefur það auðvitað oft komið fram að það væri æskilegt að hafa þjónustuna á einni hendi. Hæstv. félagsmálaráðherra, Jón Kristjánsson, fyrrv. heilbrigðisráðherra, var sérstaklega spurður að því í bréfi frá Reykjavíkurborg hvort það kæmi til greina að flytja þjónustuna þar yfir og því var svarað núna í lok janúar. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Það er mat heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að á meðan ekki verður frekari þróun í sameiningarmálum sveitarfélaga og í samskiptum ríkis og sveitarfélaga hvað varðar breytt verkaskipti þeirra á milli verði ekki farið í frekari þjónustusamninga á sviði heilbrigðis- og öldrunarmála við sveitarfélög.“

Það hefur ekki verið vilji til þess að fara í frekari þjónustusamninga meðan sveitarfélagastigið er eins óburðugt og það er.