132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Hjúkrunarheimili og öldrunarþjónusta.

765. mál
[15:12]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir að hreyfa þessu brýna máli. Það er alveg ljóst að málefni aldraðra, bæði kjör og aðbúnaður, þurfa að vera í forgrunni hjá stjórnvöldum á næstu árum. Ekki síst er það uppbyggingin á hjúkrunarrýmunum sem er mjög brýn. Ástæðan fyrir því að við erum þó ekki komin lengra en raun ber vitni er sú að þessi ríkisstjórn hefur skert framkvæmdafé í Framkvæmdasjóð aldraðra með því að láta helminginn af því renna í rekstur. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún hafi hreyft því við hæstv. fjármálaráðherra að þessi skerðing á sjóðnum verði nú stöðvuð þannig að allt fé renni til uppbyggingar á næstu árum meðan við erum að grynnka á biðlistum.

Ég vil líka spyrja ráðherra að því hvort einhver áætlun eða aðgerðaplan liggi fyrir um það hvenær hægt verði að færa þessa 90–100 aldraða sem eru á sjúkrahúsum og teppa þar sjúkrahússpláss sem eru 3–4 sinnum dýrari en á hjúkrunarrýmunum. Það er mjög óhagkvæmt hvernig þetta er. Ég spyr ráðherra um það líka.