132. löggjafarþing — 110. fundur,  26. apr. 2006.

Staða garðplöntuframleiðenda.

[15:37]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Fyrsta spurningin var: Hver er tilgangurinn með því að fella niður tollvernd af garðplöntum o.s.frv.?

Sá samningur sem um er að ræða varðar tvíhliða viðskipti Íslands og Evrópusambandsins með landbúnaðarvörur og var hann gerður í febrúar sl. á grundvelli 19. gr. EES-samningsins. Umrædd grein kveður á um reglulega endurskoðun á viðskiptum með landbúnaðarafurðir á milli EES-aðildarríkjanna og Evrópusambandsins og þessi samningur er sá fyrsti sem Ísland og Evrópusambandið hafa gert á grundvelli greinarinnar. Samningurinn skapar ný sóknarfæri fyrir útflutning ýmissa íslenskra landbúnaðarafurða, þar á meðal á íslenska hestinum, lambakjöti, smjöri, grænmeti, þess vegna blómum og plöntum. Samningar af þessu tagi fela, eðli máls samkvæmt, í sér bæði eftirgjöf og ávinning. Það eru tveir aðilar sem takast á og það sem samningsaðilar meta væntanlega sem ásættanlegt jafnvægi sóknar- og varnarhagsmuna er niðurstaða þessa samnings. Gert er ráð fyrir að samningurinn komi til framkvæmda þann 1. janúar 2007.

Næstu tvær fyrirspurnir voru: Hver var ástæða þess að ekki var haft samráð við garðyrkjuframleiðendur og hvaða skyldur hefur landbúnaðarráðuneytið o.s.frv.?

Landbúnaðarráðuneytið hefur um langt árabil haft náið samráð við Bændasamtök Íslands um þá breytingavalda sem felast í milliríkjasamningum um viðskipti með landbúnaðarvörur, hvort sem um er að ræða samninga Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, fríverslunarsamninga á vegum EFTA eða viðskipti Íslands við Evrópusambandið. Engum hefur dulist að tollvernd hefur dregist saman í kjölfar slíkra samninga eða að á vettvangi WTO séu aðildarríkin að vinna hörðum höndum að skuldbindingum um tollalækkanir sem geta haft umtalsverð áhrif á starfsumhverfi íslensks landbúnaðar. Skilaboðin á undanförnum árum til framleiðenda í landbúnaði hafa verið skýr: Búið ykkur sem best undir möguleikann á vaxandi erlendri samkeppni. Þetta er staðreynd dagsins sem menn hafa oft rætt hér í þessum sölum.

Eftir því sem frjálsræði eykst og viðskipti með landbúnaðarvörur færast nær lögmálum markaðarins standa stjórnvöld frammi fyrir því erfiða verkefni að forgangsraða mjög stíft hvort og hvar viðhalda beri tollvernd og þá í þágu hvaða hagsmuna. Fyrst og síðast er ástæða til að standa traustan vörð um þá búvöruframleiðslu sem lýtur að fæðuöryggi þjóðarinnar og atvinnu og búsetu í hinum dreifðu byggðum. Í samningaviðræðum af þessu tagi er að sjálfsögðu horft til heildarhagsmuna og leitast við að tryggja að niðurstaðan feli í sér ásættanlegt jafnvægi í heildina séð. Við slíkar aðstæður er ekki eðlilegt að umfang tollverndar af hálfu stjórnvalda sé samkomulagsatriði við einstakar greinar landbúnaðarins. Það liggur í hlutarins eðli að hver sá viðskiptaaðili sem nýtur tollverndar eða annarrar markaðsverndar mun, aðspurður, kjósa að viðhalda slíkri vernd áfram.

Fjórða spurningin var: Telur ráðherra ekki eðlilegt að samningar sem þessir séu kynntir o.s.frv. fyrir landbúnaðarnefnd Alþingis?

Málum er þannig fyrir komið stjórnskipulega að utanríkisráðherra ber ábyrgð á gerð og framkvæmd alþjóðlegra viðskiptasamninga en hefð er fyrir góðu samstarfi við einstök fagráðuneyti eftir því sem við kann að eiga. Landbúnaðarnefnd er reglulega upplýst um þróun mála í milliríkjasamningum en engin hefð er fyrir því að fríverslunarsamningar eða aðrir slíkir milliríkjasamningar séu bornir undir nefndina áður en frá þeim er gengið.

Hvað varðar síðustu fyrirspurnina frá hv. þingmanni þá vil ég segja þetta: Málin eru að engu leyti sambærileg, hvorki í eðli sínu né í umfangi þeirrar markaðsverndar sem um er að ræða. Aðlögunarsamningurinn nær til framleiðslu á tómötum, gúrkum og paprikum, vörum sem fyrir breytinguna 2002 voru fluttar inn án nokkurra tolla eða magntakmarkana þann hluta ársins sem íslenska framleiðslan var ekki á markaði. Fæðuöryggi þjóðarinnar er eitt meginmarkmið búvörulaga, að tryggja að framleiðsla búvöru til neyslu og iðnaðar verði í sem nánustu samræmi við þarfir þjóðarinnar og að tryggja ávallt nægjanlegt vöruframboð við breytilegar aðstæður í landinu. Aðlögunarsamningurinn var gerður í þessu ljósi til að lækka verð til neytenda á innfluttum sem og innlendum garð- og gróðurhúsaafurðum og hefur haft þau mögnuðu áhrif að neysla á þessum afurðum hefur aukist um tugi prósenta, t.d. á tómötum um 70–80%.

Þess vegna vil ég undirstrika það hér að vegna WTO-samninganna er hvorki staða né svigrúm til að taka upp framleiðslutengdar beingreiðslur til búgreina (Forseti hringir.) sem ekki hafa sögulega hefð fyrir slíkum stuðningi. Garðplöntuframleiðendur hafa því ekki sögulega hefð (Forseti hringir.) fyrir slíkum stuðningi og þeir hafa heldur ekki leitað eftir slíkum stuðningi.