132. löggjafarþing — 110. fundur,  26. apr. 2006.

Staða garðplöntuframleiðenda.

[15:54]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Stuðningur við íslenskan landbúnað, í alþjóðlegum samanburði, er mjög mikill og hann hefur verið mikið gagnrýndur, sérstaklega af stjórnarandstöðunni um langt árabil. Þegar stuðningurinn er metinn í alþjóðlegum samanburði er hvort tveggja gert, það er metinn beinn stuðningur við framleiðsluna og varnaraðgerðir á vegum tolla og aðflutningshindrana eru líka metnar með.

Það hefur lengi legið fyrir og allir mátt vita að við stæðum frammi fyrir miklum vanda á komandi árum varðandi tolla og vörugjöld og hindranir í innflutningi á landbúnaðarvörum. Við vitum að það liggur fyrir okkur á næstu árum að þurfa að gefa verulega eftir í þeim efnum.

Hins vegar er það meginatriði til að standa vörð um landbúnaðinn á Íslandi að vera alltaf tilbúinn að verja að beingreiðslur til framleiðslunnar verði ekki skertar. Þetta verður mjög erfitt. Það verður erfitt að verjast að taka niður tollana. Það mun verða sárt mjög víða. En það er krafa okkar að embættismenn okkar á vegum utanríkisráðuneytisins og landbúnaðarráðuneytisins standi vörð um hvernig við gerum þetta. Það verður alltaf umdeilt. Það verður alltaf mjög umdeilt. Ég er hins vegar viss um að menn eru að gera sitt besta og leggja sig mjög fram.

Við eigum eftir að fara í gegnum erfiða hluti á næstu fimm til tíu árum í þessu sambandi. En við munum reyna að verja það eins og við mögulega getum. Menn mega ekki stinga höfðinu í sandinn og segja: Það er hægt að verja Ísland fyrir innflutningi á landbúnaðarvörum. Það er ekki hægt. Við munum ekki klára það. Þetta verður undanhald næstu fimm til tíu árin og það varðar öllu að við reynum (Forseti hringir.) að fara eins varlega og eins vel og við mögulega getum. Ég er viss um að með (Forseti hringir.) þessum samningi var verið að gera það.