132. löggjafarþing — 110. fundur,  26. apr. 2006.

Staða garðplöntuframleiðenda.

[15:59]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Hér hef ég hlustað á mestu sýndarmennsku sem ég hef orðið vitni að lengi. Samfylkingarfólkið sem hefði viljað vera komið í Evrópusambandið í gær þykist vera varðmenn íslenskra bænda og landbúnaðarins, þar á meðal garðplöntuframleiðenda. Þetta er sýndarmennska af fyrstu, annarri og þriðju gráðu sem á ekki við nokkur einustu rök að styðjast. Það eru Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn sem hafa staðið vörð um þessa atvinnugrein.

Það er (Gripið fram í.) auðvitað hámark dómgreindarleysis að halda því fram að garðplöntuframleiðsla á Íslandi sé fyrir bí. Garðplöntuframleiðendur eru í um það bil 25 stöðvum. Þeir hafa flutt inn tolllausar garðplöntur og ræktað þær hér til áframeldis. Þeir hafa selt þær ásamt mörgum öðrum vörum. Ég er alveg klár á að fjarlægðarverndin, ferskleikinn og gæðin gera það að verkum að fólk heldur áfram að sækja blóm og runna sem henta íslenskum aðstæðum til þessa fólks og kaupa ráðgjöfina í leiðinni.

Það er því stóralvarlegur hlutur af heilum stjórnmálaflokki að ætla að dauðadæma bæði Garðyrkjuskólann og garðplöntuframleiðslu í landinu. (Gripið fram í.) Við munum sjá að garðplöntuframleiðslan mun lifa áfram. Hún fær sínar aðstæður í gegnum þetta og þetta fagfólk verður heimsótt af Íslendingum. Hér verða ekki nein útsölublóm sem taka við. Þannig að þetta er allt saman kjaftæði Samfylkingarinnar, sýndarmennska og áróður sem hér er settur upp í dag.

Síðan koma menn hér (Gripið fram í.) og tala eins og þetta sé almennt um garðyrkjuna í heild. Ég vil nefna sem dæmi að risatómatar geta orðið hér útflutningur í framhaldi af þessu. Þannig að við höfum verið að vinna með garðyrkjustöðvunum, garðyrkjunni. Þetta er ekki dauðadómur yfir Garðyrkjuskólanum eða þeim hluta Landbúnaðarháskólans sem þar er. Ef það er svo, þá hefur þetta nám ekki verið beysið og ekki mikið skert þar.

(Forseti hringir.) Ég vil fullyrða að garðplöntuframleiðendur taki gleði sína með þessu vori (Forseti hringir.) og kalli fólkið í landinu til sín. (Forseti hringir.) Það mun kaupa þar sínar morgunfrúr og stjúpur, hæstv. forseti.