132. löggjafarþing — 111. fundur,  28. apr. 2006.

Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga.

771. mál
[10:34]
Hlusta

Frsm. meiri hluta félmn. (Dagný Jónsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég geri grein fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, og lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti. Auk þess bárust nefndinni umsagnir um málið.

Með frumvarpinu er lagt til að 1.–6. gr. reglugerðar ráðsins nr. 1612/68, um frelsi launþega til flutninga innan bandalagsins, gildi að meginstefnu til um ríkisborgara Eistlands, Lettlands, Litháens, Póllands, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklands og Ungverjalands. Með lögum nr. 19/2004 sem breyttu lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins var því frestað að láta umrædda reglugerð taka til ríkisborgara greindra ríkja. Í samningaviðræðum um aðild þessara ríkja, auk Möltu og Kýpur sem undanþágan í lögum nr. 19/2004 náði ekki til, var gert ráð fyrir að sömu reglur kæmu til með að gilda á öllu Evrópska efnahagssvæðinu en hins vegar þótti nauðsynlegt að semja um ákveðna aðlögun. Vert er að taka fram að þegar aðildarríki hefur tekið upp hinar sameiginlegu reglur um frjálsa för launafólks er ekki ætlast til að settar verði strangari takmarkanir síðar nema ef um röskun eða fyrirsjáanlega röskun á innlendum vinnumarkaði verði að ræða. Í þeim tilvikum getur EES/EFTA-ríki farið þess á leit við framkvæmdastjórnina að hún fresti beitingu 1.–6. gr. reglugerðar um frelsi launþega til flutninga innan bandalagsins að hluta eða öllu leyti í takmarkaðan tíma með það að markmiði að endurheimta eðlilegt ástand.

Lögð er til breyting á lögum nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, og lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga. Verði frumvarpið að lögum verður launamanni sem er ríkisborgari einhvers framangreindra ríkja heimilt að koma hingað til lands í atvinnuleit og nýtur hann þá sama forgangs til starfa hér á landi og Íslendingar. Atvinnurekendur munu þó þurfa að tilkynna til Vinnumálastofnunar hyggist þeir ráða ríkisborgara þessara ríkja til starfa. Því má segja að farinn sé einhvers konar millivegur, þ.e. ríkisborgurum nýrra Evrópusambandsríkja verður veitt heimild til að koma hingað til starfa án atvinnuleyfa en þó með ákveðnum skráningarskilyrðum.

Tilkynningu til Vinnumálastofnunar skal fylgja afrit af ráðningarsamningi sem tryggir launamanni laun og önnur starfskjör samkvæmt kjarasamningum og íslenskum lögum. Telji Vinnumálastofnun að misbrestur sé á því að lágmarkskjör séu virt getur stofnunin haft samband við atvinnurekanda og viðkomandi stéttarfélag. Stofnunin mun halda skrá yfir þá ríkisborgara áðurnefndra ríkja sem hingað koma til starfa og getur stofnunin lagt dagsektir á atvinnurekendur til að tryggja að tilkynningarskyldan verði virt. Þá ber Vinnumálastofnun að afhenda stéttarfélagi afrit af ráðningarsamningi liggi fyrir grunur um brot á gildandi kjarasamningi. Meiri hlutinn tekur undir það sem kom fram í einni umsagna, þ.e. að skráningarferli verði einfalt og aðgengilegt og að æskilegt sé að atvinnurekandi geti skráð nýjan starfsmann með rafrænum hætti.

Samkvæmt frumvarpinu verður Vinnumálastofnun heimilt að afhenda hlutaðeigandi eftirlitsstjórnvöldum eða lögreglu upplýsingar sem gefa til kynna að brotið sé gegn ákvæðum laga um atvinnuréttindi útlendinga. Er þessi heimild mikilvæg til að árétta mikilvægi þess að opinberar stofnanir stuðli að því að farið sé að lögum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði. Þá er veitt heimild til samkeyrslu upplýsinga Vinnumálastofnunar, Útlendingastofnunar, lögreglu og skattyfirvalda svo hægt sé að hafa eftirlit með því að þeir sem koma hingað til starfa hafi til þess tilskilin leyfi. Í nefndinni var rætt hvort 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins sem fjallar um samkeyrslu upplýsinga gengi lengra en ákvæði laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gera ráð fyrir. Nefndinni barst umsögn frá Persónuvernd þar sem stofnunin gerir athugasemdir þess efnis að heimild frumvarpsins sé mjög víðtæk og telur stofnunin vafa leika á um það hvort umrætt ákvæði sé þannig úr garði gert að gætt sé meðalhófs. Er í umsögninni vísað til ákvæða 1.–3. mgr. 7. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Meiri hlutinn leggur til breytingar á 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins í þeim tilgangi að þrengja umrædda heimild til samkeyrslu upplýsinga en gerð er grein fyrir henni í lok álits þessa. Vill meiri hlutinn benda á tilgang 2. mgr. 2. gr. sem er sá að halda úti virku eftirliti með því að þeir sem hér dvelja og starfa fari að gildandi reglum. Það er skilningur meiri hlutans að þessar upplýsingar megi ekki nota í öðrum tilgangi en sem samrýmist markmiðum laganna.

Við umfjöllun málsins var rætt um aðstæður innflytjenda á Íslandi, einkum stöðu þeirra á vinnumarkaði og hvort upp gætu komið svipuð vandamál hér á landi og hafa komið upp nýverið í Frakkland og Þýskalandi. Ljóst þykir að innflytjendur standa oft höllum fæti á vinnumarkaði, m.a. vegna tungumálaörðugleika og skorts á menntun. Hins vegar koma einnig hingað til lands vel menntaðir einstaklingar sem ekki fá störf í samræmi við menntun. Innflytjendaráði sem stofnað var í nóvember 2005 er ætlað að virkja til samstarfs alla helstu hagsmunaaðila á sviði þessa málaflokks en nefnd um aðgerðir til að tryggja aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi lagði til að ráðið yrði stofnað. Nefndin skilaði skýrslu til félagsmálaráðherra í apríl 2005 og lagði til að innflytjendaráð yrði ríkisstjórninni til ráðuneytis við mótun stefnu í málefnum innflytjenda. Ráðið hefur notað tímann frá stofnun þess til að fara yfir stöðu innflytjendamála og leggja drög að framkvæmdaáætlun. Meðal annars hefur verið rætt um að innflytjendur fái við komuna til landsins nauðsynlegustu upplýsingar í formi bæklings sem yrði þýddur á 10 tungumál. Í skýrslu framangreindrar nefndar kemur fram að innflytjendum hefur fjölgað mjög á Íslandi á undanförnum árum og er þar jafnframt gengið út frá svokallaðri gagnkvæmri aðlögun. Með því er átt við að þeim útlendingum sem hingað koma verði auðveldað að semja sig að siðum og venjum Íslendinga, t.d. með aðgangi að tungumálanámskeiðum og fræðslu um helstu þætti samfélagsins, svo sem menningu. Hins vegar verði um leið að viðurkenna að innflytjendur rækti siði og venjur menningar sinnar, rækti tengsl við heimaland sitt og fólk sitt hérlendis sem erlendis. Í lokaorðum skýrslunnar kemur fram að íslenskt samfélag ætti að leggja í það metnað að aðlögun innflytjenda takist vel og að þótt opinberir aðilar verði að hafa þar hönd í bagga verði hin raunverulega aðlögun fyrst og fremst sjálfsprottin.

Meiri hlutinn leggur á það áherslu að mótuð verði stefna í málefnum innflytjenda og að gerð verði framkvæmdaáætlun á grundvelli þeirrar stefnu. Áætlunin verði jafnframt kynnt félagsmálanefnd fyrir 1. október 2006.

Meiri hlutinn leggur áherslu á að þau lágmarkskjör sem gilda á íslenskum vinnumarkaði gilda um ríkisborgara þeirra ríkja sem frumvarp þetta gildir um. Meiri hlutinn væntir þess að með þessari opnun muni atvinnurekendur síður þurfa að nýta sér þjónustu starfsmannaleigna og því ætti frumvarpið að ýta undir beinar ráðningar, þ.e. milli atvinnurekanda og launamanns.

Gert hefur verið samkomulag um að félagsmálaráðherra skipi starfshóp þar sem fulltrúar stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins eigi sæti. Þar skal farið yfir stöðu útlendinga á íslenskum vinnumarkaði. Starfshópurinn skal skila áliti og tillögum fyrir 1. nóvember nk. og er honum ætlað að koma með tillögur um hvernig unnt sé að tryggja að útlendingar dvelji og starfi hér á landi með lögmætum hætti og að áreiðanlegar upplýsingar verði til um útlendinga sem eru að störfum hér. Meðal annars verður skoðað hvort ástæða sé til að styrkja það vinnumarkaðskerfi sem fyrir er til að tryggja að erlent starfsfólk njóti þeirra réttinda og kjara sem gilda á íslenskum vinnumarkaði. Jafnframt skal starfshópurinn kanna hvaða leiðir séu færar til að auka upplýsingagjöf og aðstoð við erlent starfsfólk á íslenskum vinnumarkaði. Tilkynning um hlutverk starfshópsins er fylgiskjal með nefndaráliti þessu. Meiri hlutinn leggur áherslu á að starfshópurinn skili á tilsettum tíma og bindur vonir við að starf hans styrki vinnumarkaðinn almennt þannig að grundvallarréttindi launafólks verði betur varin.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri breytingu:

Við 1. málsl. 2. efnismgr. 2. gr. bætist: í þeim tilgangi að kanna hvort atvinnurekendur sem hafa ráðið útlendinga til starfa hafi farið að lögum þessum enda sé um að ræða afmörkuð verkefni en ekki viðvarandi samkeyrslu.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson er andvígur áliti þessu en hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Jóhann Ársælsson og Valdimar L. Friðriksson skrifa undir með fyrirvara og áskilja sér rétt til að flytja breytingartillögu við frumvarpið.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu með fyrirvara.

Undir álitið rita hv. þm. Dagný Jónsdóttir, Gunnar Örlygsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Ingvi Hrafn Óskarsson, Jóhann Ársælsson, með fyrirvara, Pétur H. Blöndal, með fyrirvara, Birkir Jón Jónsson og Valdimar L. Friðriksson, með fyrirvara.