132. löggjafarþing — 111. fundur,  28. apr. 2006.

Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga.

771. mál
[10:45]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er aðeins ein spurning. Í nefndaráliti meiri hluta félagsmálanefndar, sem m.a. mín flokkssystkin standa að, með fyrirvara þó, segir, með leyfi forseta:

„Vert er að taka fram að þegar aðildarríki hefur tekið upp hinar sameiginlegu reglur um frjálsa för launafólks er ekki ætlast til að settar verði strangari takmarkanir síðar nema ef um röskun eða fyrirsjáanlega röskun á innlendum vinnumarkaði verði að ræða.“

Það er síðasti hluti þessarar setningar. Mig langar að spyrja talsmann nefndarinnar: Um hvaða fyrirsjáanlegu röskun á innlendum vinnumarkaði er verið að ræða sem gæti breytt þessum ákvæðum?