132. löggjafarþing — 111. fundur,  28. apr. 2006.

Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga.

771. mál
[11:30]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp hæstv. félagsmálaráðherra um breytingu á lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins og lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Við í Frjálslynda flokknum erum ákaflega ósátt við þessa lagasmíð. Ég hyggst fara yfir það hvernig á því stendur að við erum svona ósátt við að þetta frumvarp skuli nú koma fram með þeim hætti sem við höfum orðið vitni að hér á undanförnum örfáum dögum og vikum.

Kjarni málsins er sá að frá og með 1. maí nk. eiga ríkisborgarar allra ríkja Evrópusambandsins að geta unnið á Íslandi án þess að þurfa að sækja um sérstakt atvinnuleyfi. Slíkar ráðningar verður þó að tilkynna til Vinnumálastofnunar með tíu daga fyrirvara. Árið 2004 ákváðu austantjaldsríkin gömlu, ríki Austur-Evrópu, þ.e. Eistland, Lettland, Litháen, Pólland, Slóvenía, Slóvakía, Tékkland og Ungverjaland, að ganga í Evrópusambandið. Var þá ákveðið að ákvæðið um frjálsa för launafólks innan sambandsins tæki ekki til fólks frá þeim löndum fyrr en að tveimur árum liðnum. Inn í lagasmíð hér á Alþingi var settur frestur til 1. maí árið 2006. Núna er sá dagur að renna upp og þá kemur þessi lagasmíð, allt of seint að mínu mati.

Inni í þessu var möguleiki á að fara fram á frest til 1. maí 2009 eða jafnvel til 1. maí 2011, fá heimild til þess að fresta þessu alveg til 1. maí árið 2011. Við í Frjálslynda flokknum teljum að við hefðum að sjálfsögðu átt að nýta okkur þá heimild. Það hefði ekki verið mikið mál að gera það. Við hefðum einfaldlega getað breytt þessu bráðabirgðaákvæði, að mér skilst, sem er í lögum um útlendinga, við hefðum getað breytt dagsetningunni þar, 1. maí 2006, yfir í 1. maí 2009 eða yfir í 1. maí 2011. Það hefði ekki verið neitt vandamál. Okkur í Frjálslynda flokknum er gersamlega fyrirmunað að skilja, og lái okkur hver sem vill, hvers vegna í ósköpunum ríkisstjórnarmeirihlutinn hér á Alþingi valdi ekki að fara þá leið. Hvernig stendur á því að menn taka þá ákvörðun að galopna nú landið fyrir óvopnuðum her láglaunafólks frá fyrrum ríkjum Austur-Evrópu, þegar við höfum ótal sannanir í hendi fyrir því að við Íslendingar erum engan veginn í stakk búnir til að taka við þessu fólki? Málefni þessa fólks eru í miklum ólestri á vinnumarkaðnum, það hefur margoft verið bent á það. Það hefur líka komið fram í störfum félagsmálanefndar að málefni þessa fólks eru í miklum ólestri. Það er engin stefna í gangi hjá stjórnvöldum varðandi málefni innflytjenda, engin stefna sem hald er í.

Við höfum séð á undanförnum missirum að straumur þessa fólks hefur legið hingað til lands, því hefur stórlega fjölgað. Við erum með gögn í höndunum sem sýna það, sýna hver þróunin er. Við vitum líka að þessi þróun mun halda áfram af fullum þunga. Það kom fram á fundum í félagsmálanefnd að atvinnuleysi til að mynda í Póllandi er nú 18% og atvinnuleysi í Slóveníu er 15% að því er mig minnir. Eru menn virkilega svo grænir, kannski framsóknarmenn séu það, að halda að þessi þróun muni ekki halda áfram og þetta fólk muni ekki leita hingað? Ég bendi á að stór lönd innan Evrópusambandsins, Þýskaland, Frakkland og Spánn, hafa öll nýtt sér þessi ákvæði til frestunar, mjög stórir vinnumarkaðir. Hvað mun það þýða? Það mun að sjálfsögðu þýða að þetta fólk mun í auknum mæli leita til þeirra landa sem eru þó opin og munu opna núna 1. maí, þar á meðal til Íslands. Þetta fólk mun því koma hingað til Íslands í auknum mæli. Það þarf enginn að segja mér annað en að stór hluti af þessu fólki muni setjast hér að.

Þá hlýtur maður að spyrja: Erum við reiðubúin að taka við þessu fólki? Þetta verða ekki bara einhverjir fátækir karlmenn eða konur sem eru að leita sér að vinnu. Sennilega mun þetta fólk vilja fá ættingja sína hingað líka. Það er ósköp eðlilegt, það er bara mannlegt og í sjálfu sér ekkert við það að athuga. Ég vil taka það skýrt fram að ég er ekki að flytja þessa ræðu hér vegna þess að ég hafi eitthvað á móti útlendingum. Ég set hins vegar mjög alvarlegan fyrirvara við það að við Íslendingar séum í stakk búnir að taka við bylgju sem ég er viss um að mun koma.

Síðan getum við rætt það hvaða áhrif þetta muni hafa á vinnumarkaðnum, hvaða áhrif það muni hafa til að mynda á málefni íslenskra launþega þegar þetta fólk kemur hingað og mun nær örugglega, vil ég leyfa mér að segja, fara að vinna hér á strípuðum launatöxtum og jafnvel undir því. Hvaða áhrif mun það hafa? Halda menn virkilega að íslenskir launþegar, grasrótin í verkalýðshreyfingunni, séu sáttir við það frumvarp sem hér liggur fyrir? Nei, alls ekki, aldeilis ekki. Ég hef hitt margt fólk að undanförnu, venjulegt íslenskt verkafólk, og því er mjög heitt í hamsi yfir því sem hér er að gerast. Það er verulega ósátt við að þetta frumvarp skuli hér komið fram og fólk er ekki fífl, fólk lætur ekkert plata sig, fólk veit að það hefði verið hægt að sækja um aukinn frest til aðlögunar. Ég hygg að það hefði verið mjög skynsamlegt að gera það. Löndin sem nú eru komin í Evrópusambandið, austantjaldslöndin, — ef við gerum ráð fyrir því að það muni leiða til aukins hagvaxtar í þessum löndum, ef við gerum ráð fyrir því að atvinnuleysi í þessum löndum minnki á næstu missirum, mun það að sjálfsögðu draga úr þrýstingnum á að íbúarnir leiti út fyrir landsteinana eftir vinnu annars staðar. Frestur hjá okkur til 2009 eða 2011 hefði sennilega veitt okkur það svigrúm sem við þurfum til að koma í veg fyrir að við lendum sjálf í vandræðum á Íslandi vegna þess að mikill fjöldi fólks frá þessum löndum hellist yfir okkur. Það er nú bara þannig.

Virðulegi forseti. Okkur í félagsmálanefnd hafa borist margar umsagnir og við höfum fengið til okkar nokkra gesti, að vísu allt of fáa. Nefndinni hefur gefist allt of lítill tími til að fjalla um þetta mál. Málinu var dreift hér í þinginu 10. apríl, síðan kom páskafrí, það var ekki mælt fyrir því fyrr en fyrir örfáum dögum. Þetta gerist núna rétt áður en þingið á að ljúka störfum. Þetta mál hefur verið afgreitt í gegnum þingið með miklum handarbakavinnubrögðum og bægslagangi. Ég verð að segja að mjög óvönduð vinnubrögð hafa verið iðkuð í þessu máli. Það hefur eiginlega komið mér á óvart og valdið mér miklum vonbrigðum. Ég settist í hv. félagsmálanefnd í haust og það hefur valdið mér miklum vonbrigðum að sjá hvernig aðilar vinnumarkaðarins, ASÍ og Samtök atvinnulífsins, virðast hreinlega hafa skapað sér þá stöðu að þeir eru búnir að hirða löggjafarvaldið úr höndum Alþingis. Það er búið að færa löggjafarvaldið úr höndum Alþingis og fara með það inn á einhverja kontóra úti í bæ. Maður sér alveg hvað er að gerast, maður sér alveg hvernig plottið er.

Þessir aðilar halda fundi bak við lokaðar dyr, einhverjir örfáir menn og kannski konur líka, komast að einhverri niðurstöðu, einhverjum samningum, einhverju samkomulagi sem kallað er, og síðan er bílað upp í félagsmálaráðuneyti og sest þar á fund með félagsmálaráðherra og kallaðir til lögfræðingar og þessu samkomulagi eða þessum samningum er komið í lagaform. Þetta er síðan prentað út og áfram er bílað niður í Alþingi. Þess er vandlega gætt að málunum sé ekki dreift í þinginu fyrr en rétt fyrir þinglok, annaðhvort rétt fyrir jól eða rétt áður en þingi á að ljúka að vori og svo eru þessi mál barin í gegn, gjarnan settur á einhver tímafrestur þannig að hér er allt í hönk, allir í tímanauð, allir í tímaþröng og það er sagt við þingmenn: Gjörið þið svo vel, þið hafið valið á milli þess að vera skotnir eða hengdir. Hvort viljið þið nú frekar? Þingmönnum er hreinlega stillt upp við vegg eins og í þessu máli. Það kemur fram allt of seint og það er passað upp á að ekki gefist ráðrúm til þess að fara hina leiðina, sem hefði þó verið miklu skynsamlegri. Þingmönnum er hreinlega gert að samþykkja þetta sem kemur utan úr bæ, þeim er hreinlega gert að gera það. Þetta eru algjörlega forkastanleg vinnubrögð og ég hlýt að ákalla alla þingmenn, bæði stjórnarandstöðuflokka og líka stjórnarflokka, að þeir spyrni við fæti og stöðvi þetta. Þetta getur ekki gengið svona. Menn eru sífellt að færa sig upp á skaftið, sífellt að verða ósvífnari, koma inn á fundi hjá félagsmálanefnd og tala þar eins og stjórnmálamenn, halda heilu ræðurnar yfir nefndinni og segja nánast við hana: Þið skuluð bara gjöra svo vel að samþykkja þetta ellegar hafið þið verra af.

Mér finnst alveg með ólíkindum að horfa upp á þetta. Þetta verður hreinlega að stöðva. Það erum við á Alþingi sem förum með löggjafarvaldið í þessu landi. Við erum með valdið og það erum við sem eigum að geta sagt þegar frumvörp eins og þetta koma inn á borð þingsins hreint og skýrt: Þetta er alger vitleysa. Þetta samrýmist ekki almannahagsmunum. Þetta stangast á við hagsmuni þjóðarinnar. Við ætlum ekki að samþykkja þetta. Við ætlum hins vegar að gera þetta svona og svona og svona því að það samrýmist miklu betur okkar eigin hagsmunum. Ég er alveg sannfærður um að frestun á þessu máli til 2009 eða 2011 hefði samrýmst almannahagsmunum í þessu landi, hefði samrýmst hagsmunum þjóðarinnar. Það er mín sannfæring í þessu máli og þess vegna er ég alfarið á móti þessu frumvarpi.

Við höfum fengið hér umsagnir, til að mynda frá ASÍ. Sú umsögn er í raun og veru undarleg því að ASÍ fellst á að frumvarpið verði lagt hér fram og samþykkt, og það kom greinilega fram á fundum í félagsmálanefnd. Ég verð að segja að ég er svolítið hissa á því að þetta skuli vera línan sem kemur frá ASÍ. Það verður að segjast eins og er að málflutningur ASÍ hefur verið ansi mótsagnakenndur. Hér er útskrift úr fréttum frá 20. apríl 2006. Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, sem segir það hreint og skýrt að stjórnvöld hefðu átt að nýta heimild til að fresta gildistöku þessara laga svo að það mætti undirbúa þetta mál betur. Hann er alfarið sammála okkur í Frjálslynda flokknum 20. apríl, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, að við séum engan veginn tilbúin í þetta og það hefði átt að fresta þessu. Samt fellst ASÍ á að fara þessa leið. Þetta finnst mér alveg óskiljanlegt, virðulegi forseti.

Hins vegar er hér önnur frétt frá Samtökum atvinnulífsins og þeir vilja endilega að þetta fari í gegn og skyldi nú kannski engan undra.

Hér er viðtal við Vilhjálm Egilsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, frá 24. mars. Þar kemur fram að Samtökum atvinnulífsins hafi verið gefið eitthvert vilyrði um að við endurnýjun eða framlengingu samninga þann 15. nóvember yrði aflétt öllum hömlum á möguleikum borgara í aðildarríkja Evrópusambandsins á að koma hingað til lands og vinna.

Svo segir hann hér, með leyfi forseta:

„Nú, það hafa engar forsendur breyst, að því er við teljum. Hvorki vinnumarkaðslegar né efnahagslegar fyrir því að breyta eða bakka út úr þessu vilyrði sem okkur var gefið.“

Hvorki vinnumarkaðslegar né efnahagslegar. Þetta segir nýráðinn framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í viðtali við Ríkisútvarpið í hádegisfréttum þann 24. mars síðastliðinn.

Skyldi hann nú hafa rétt fyrir sér í þessu? Skyldi það kannski ekki frekar vera þannig að teikn séu á lofti um að bæði vinnumarkaðslegar og efnahagslegar forsendur hafi verið að breytast á undanförnum vikum og séu nú að breytast mjög hratt? Eru ekki frekar teikn á lofti um það, virðulegi forseti, að við séum að sigla hér inn í efnahagslægð? Mér finnst nú allt benda til þess. Eldsneytisverð er í hæstu hæðum. Verðbólgan er farin af stað. Vextir eru að hækka. Lífskjör almennings eru að versna. Skyldi þetta ekki auka hættuna á því að við lendum hér í efnahagslegri niðursveiflu? Skyldi það ekki auka hættuna á því að hér muni atvinnuleysið enn á ný fara að láta á sér kræla?

Þetta ástand sem núna ríkir á Íslandi, sá mikli hagvöxtur, þessi bóla mun ekkert vara endalaust. Það kemur að því að hér mun harðna á dalnum og þá munum við ekki geta rekið það fólk sem hefur verið að koma hingað til lands þúsundum saman á undanförnum missirum og mun koma hingað til lands þúsundum saman ef fram fer sem horfir. Þá munum við ekki geta rekið þetta fólk í burtu. Það stendur í skýringum með frumvarpinu að þessi breyting leiði til þess að launamanni sem er ríkisborgari einhvers þessara ríkja sé heimilt að koma hingað til lands í atvinnuleit og nýtur hann sama forgangs til starfa hér á landi og Íslendingar. Enn fremur á hann sama rétt til aðstoðar vinnumiðlunar og innlendir ríkisborgarar sem eru í atvinnuleit.

Þetta er nú það sem kemur fram í frumvarpinu og enginn skyldi halda að neitt geri það að verkum ef í harðbakkann slær og ef hér verður kreppa eða efnahagsleg niðursveifla að við munum þá hreinlega geta sent þetta fólk út eins og þar væri um einhverja gripaflutninga að ræða, alls ekki, að sjálfsögðu ekki. Ég er heldur ekkert að mælast til þess, alls ekki. Ég er hins vegar að segja, og vil bara að það komi skýrt fram enn og aftur, að við hefðum átt að sækja um þessa fresti.

Við skulum halda áfram að skoða þær umsagnir sem liggja fyrir. Við skulum fara hringinn í kringum landið og skoða það sem hefur komið frá verkalýðsfélögunum. Þau eru nú grasrótin í ASÍ. Maður skyldi ætla það, er það ekki? Þá kemur margt ansi forvitnilegt í ljós.

Ég er til að mynda með umsögn frá Verkalýðsfélagi Akraness. Verkalýðsfélag Akraness leggst alfarið gegn því að þetta frumvarp verði samþykkt og bendir til að mynda á að hér hafi verið notuð rök sem lágu að baki frestun á gildistöku ákvæða reglugerðar nr. 1612/68/EBE árið 2004 og komu fram í frumvarpi ríkisstjórnarinnar sem hér var þá lagt fram.

Þar stendur, með leyfi forseta:

„... flest hinna nýju aðildarríkja standa þeim ríkjum sem fyrir eru nokkuð að baki í efnahagslegu tilliti og hvað varðar þróun markaðsbúskapar. Eru lífskjör almennings í þessum ríkjum almennt nokkuð lakari en meðal núverandi aðildarríkja. Hafa því margir velt fyrir sér hvers konar áhrif óheftur aðgangur ríkisborgara hinna nýju aðildarríkja að vinnumörkuðum núverandi aðildarríkja kunni að hafa á þróun mála er varða vinnumarkaðinn sérstaklega, svo sem laun og ýmis félagsleg réttindi. Enn fremur má ætla að líkur séu á að fámenn ríki geti orðið fyrir hlutfallslega meiri áhrifum ef mörg hinna fjölmennari ríkja ákveða að beita takmörkunum en hin smærri verða opin.“

Þetta sagði ríkisstjórnin árið 2004. Þetta er efnislega nákvæmlega það sama og ég er að reyna að segja hér. Hvað gerir það að verkum að ríkisstjórnin virðist gersamlega vera búin að gleyma því sem hún hélt hér fram fyrir aðeins tveimur árum síðan? Hvað gerir það að verkum? Ég held að við ættum að velta þeirri spurningu aðeins fyrir okkur.

Áfram segir í umsögn Verkalýðsfélags Akraness, með leyfi forseta:

„Það er hins vegar reynsla Verkalýðsfélags Akraness að mikill meiri hluti þess fólks sem kemur hér til starfa frá láglaunasvæðum vinni á lágmarkslaunum sem eðlilega leiðir af sér pressu frá atvinnurekendum um lækkun þeirra markaðslauna sem almennt gilda á íslenskum vinnumarkaði og verkalýðshreyfingin hefur í áratugi verið að berjast fyrir.

Athygli er jafnframt vakin á því að í þeim ríkjum sem nú stendur til að veita aðgang að íslenskum vinnumarkaði er í flestum tilvikum verulegt atvinnuleysi. Þessi staða ásamt því að ýmis fjölmenn ríki Evrópska efnahagssvæðisins hafa ákveðið að beita takmörkunum áfram hlýtur að kalla á verulegt aukið framboð erlends vinnuafls hér á landi. Er líklegt að þetta aukna framboð á starfsfólki frá láglaunasvæðum ýti enn frekar undir lækkun markaðslauna, gerviverktöku og atvinnuleysi meðal Íslendinga.

Vegna þessa telur Verkalýðsfélag Akraness íslenskan vinnumarkað alls ekki tilbúinn nú til að taka við auknu flæði launafólks. Eðlilegt sé að gildistöku reglnanna sé frestað þar til úttekt hefur verið gerð á því hvaða áhrif aukið framboð erlends launafólks frá láglaunasvæðum hefur og fyrir liggi mótaðar reglur, m.a. frá aðilum vinnumarkaðarins, um málefni útlendinga á íslenskum vinnumarkaði. Er jafnframt vísað til ályktana frá fjölmörgum verkalýðsfélögum og heildarsamtökum þeirra þar sem frumvarpi þessu er mótmælt.“

Verkalýðsfélag Akraness hefur gagnrýnt þetta frumvarp mjög harðlega. Verkalýðsfélag Akraness, þetta er grasrótin í ASÍ, eitt af þeim félögum sem mynda grasrótina í ASÍ. Bara nú síðast, þann 26. apríl, í fyrrakvöld, var haldinn aðalfundur í félaginu. Þar var send út mjög harðorð ályktun að loknum fundi. Þetta verður að fara inn í þingtíðindi. Hún er svona, virðulegur forseti:

„Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness skorar á íslensk stjórnvöld og Alþingi Íslendinga að afnema alls ekki takmarkanir á frjálsri för launafólks frá hinum nýju aðildarríkjum EES eins og fyrirhugað er að gera samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi félagsmálaráðherra.

Aðalfundurinn telur það ámælisvert að íslensk stjórnvöld hafi ekki látið gera úttekt eða rannsókn á því hvaða áhrif erlent vinnuafl hefur haft á íslenskan vinnumarkað áður en tekin er ákvörðun um það að galopna landið fyrir launafólki frá nýjum aðildarríkjum EES.

Aðalfundurinn telur að því markaðslaunakerfi sem viðgengist hefur á íslenskum vinnumarkaði á liðnum árum og áratugum sé stórlega ógnað ef það frumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi fer í gegn óbreytt.

Aðalfundur telur það einnig óskiljanlegt af hverju verið er að skerða eftirlitshlutverk stéttarfélaganna með erlendu vinnuafli eins og fram kemur í fyrirliggjandi frumvarpi félagsmálaráðherra. Ljóst er að á stéttarfélögum hvílir rík skylda til að tryggja að á félagssvæði þeirra sé unnið samkvæmt íslenskum lögum og kjarasamningum og hafa stéttarfélögin þar víðtækra hagsmuna að gæta.

Það verða kaldar kveðjur sem Alþingi Íslendinga sendir íslenskum launþegum á sjálfan baráttudag launafólks 1. maí nk. ef frumvarp félagsmálaráðherra verður samþykkt óbreytt.

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness skorar á íslenska launþega að fylgjast með því hvernig þingmenn greiða fyrirliggjandi frumvarpi um frjálsa för launafólks frá hinum nýju aðildarríkjum EES atkvæði sitt.“

Já, virðulegi forseti. Ég hygg að það verði einmitt fylgst með því hér á eftir hvernig þingmenn muni greiða atkvæði um þetta mál. Íslenskir launþegar munu fylgjast með því hvernig menn munu greiða hér atkvæði á eftir og það verður í minnum haft hvernig menn greiddu atkvæði á Alþingi þennan fallega vordag árið 2006. Það verður svartur dagur hjá íslensku launafólki, sagði Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness. Það verður svartur dagur hjá íslensku launafólki 1. maí árið 2006. Að þessum gjörningi ætla vinstri flokkarnir m.a. að standa, Samfylkingin og Vinstri grænir. Þeir ætla að standa að því að þessi dagur verði einmitt það sem Vilhjálmur Birgisson segir, þ.e. svartur dagur hjá íslensku launafólki.

Áfram getum við haldið í kringum landið. Hér höfum við umsögn frá Verkalýðsfélagi Vestfirðinga. Þeir telja að fresta beri staðfestingu á samþykktum um frjálsa för launafólks frá þessum nýju aðildarríkjum Evrópusambandsins í að minnsta kosti eitt ár. Þeir vita sem er að víða er pottur brotinn í efnum þessara starfsmanna, líka á Vestfjörðum, og þeir mælast því mjög eindregið til þess — þetta er undirritað af Pétri Sigurðssyni, formanni Verkalýðsfélags Vestfirðinga, — að þessu verði frestað um að minnsta kosti eitt ár. Þetta er líka alfarið á skjön við ASÍ. Takið eftir því.

Verkalýðsfélag Húsavíkur er líka andvígt því að þetta verði gert svona. Í umsögn þess segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Af hálfu Verkalýðsfélags Húsavíkur er hér með komið á framfæri mótmælum við lögfestingu ofangreinds frumvarps. Mjög varhugavert er að nýta ekki heimild til að fresta gildistöku reglna Evrópusambandsins hvað varðar aðgengi íbúa nýjustu ríkja Evrópusambandsins að íslenskum vinnumarkaði. Átök og ágreiningur sem uppi hefur verið á síðustu missirum, m.a. í tengslum við starfsemi svonefndra starfsmannaleigna, sýna mjög glöggt að vinnumarkaðurinn hérlendis er ekki undir það búinn að takast á við svona stóra breytingu í einni sviphendingu.“

Svo segir hér síðar, með leyfi forseta:

„Á það má líka benda að í umsögn fjármálaráðuneytisins er ekki gert ráð fyrir því að frumvarpið hafi kostnað í för með sér. Þó blasir við nú þegar að íslenskt kerfi, til dæmis velferðarkerfið, er vanbúið að taka þeirri miklu fjölgun erlends vinnuafls sem þegar er orðin. Hvað þá heldur að það sé fært um að óbreyttu að takast á við enn meiri fjölgun. Samfélagslega er þó mjög brýnt að erlendu fólki sem hingað kemur til langdvalar sé gert sem auðveldast að aðlagast íslensku samfélagi. Ná tökum á íslensku og forðast félagslega einangrun. Slík úrræði kostar peninga og verður ekki sinnt nema skilgreint sé hver beri ábyrgðina í þessum efnum, ríkið, sveitarfélögin eða atvinnurekendur.“

Svo segir síðar í þessari umsögn frá Verkalýðsfélagi Húsavíkur, með leyfi forseta:

„Nú þegar hefur Verkalýðsfélag Húsavíkur fengið inn á borð til sín dæmi, þar sem erlend verkafólk frá einu af þessum aðildarríkjum sem tilgreind eru í frumvarpinu er tilbúið að koma til starfa í ferðaþjónustu í sumar gegn því að fá ráðningarsamning og 300 kr. í dagvinnulaun svo það komist inn í landið.“

Þrjú hundruð krónur! Þetta er í Norðausturkjördæmi, kjördæmi formanns félagsmálanefndar, hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur. Ég vona að hún hafi tekið eftir þessu því að ég ætla að halda áfram og skoða hér umsögn frá annarri verkalýðshreyfingu sem er á Austurlandi. Það er Afl – Starfsgreinafélag Austurlands. Þeir leggjast líka gegn þessu. Þeir eru þeirrar skoðunar, þ.e. félagsmenn Afls, að fresta beri gildistöku þessara laga í að minnsta kosti þrjú ár, þ.e. til 1. maí árið 2009. Það viljum við í Frjálslynda flokknum líka gera. Við vildum helst fresta þessu til 1. maí 2011 svo að ég segi það enn og aftur.

Þeir segja hér, og ég tek undir hvert orð, með leyfi forseta:

„Ástæðurnar eru skýrar; í þeim mikla uppgangi sem verið hefur í atvinnulífi hér eystra hefur launafólki af erlendu bergi brotnu fjölgað mikið og talsvert hefur borið á því að brotið sé á fólki og kjör þess séu langt undir viðurkenndum kjörum hér. Einnig hafa félagsmenn okkar skýrt frá nokkrum dæmum þess að við minnkandi verkefnastöðu fyrirtækja“ — tökum eftir þessu — „byrji uppsagnir á íslensku starfsmönnunum. Þessi mál brenna því af miklum þunga á okkar félagsmönnum“ — á Austfjörðum — „og teljum við að löggjöf og reglugerðir séu alls ekki tilbúnar til að glíma við óheft frelsi fólks frá þessum löndum.

Án þess að gefa einhverja fræðilega umsögn um frumvarpið hvetjum við því þingmenn og stjórnvöld til að stíga varlega til jarðar í þessu máli og fresta gildistöku um frjálst flæði launafólks frá þessum nýju aðildarríkjum EB. Við bendum á að frestun gildistökunnar mun ekki hafa áhrif á möguleika ábyrgra fyrirtækja til að sækja sér starfsfólk erlendis frá — en mun vonandi hefta aðgang vafasamari fyrirtækja sem spretta upp um allt, að launafólki til að stunda félagsleg undirboð og grafa þannig undan velferðarkerfi okkar. Við minnum á að félagslegt öryggi okkar allra er árangur áratuga baráttu og í því felst sáttmáli verkalýðshreyfingarinnar, stjórnvalda og vinnuveitenda.

Kær kveðja, Sverrir Albertsson framkvæmdastjóri Afls.“

Þetta segja þeir fyrir austan. Félag járniðnaðarmanna hefur einnig ályktað, alveg eins og Afl, gegn því að þetta frumvarp sem nú á að fara að samþykkja hér í dag nái fram að ganga. Við skulum átta okkur á því hverjir eru hér að tala, við skulum aðeins staldra við og átta okkur á því. Þetta eru þeir menn sem vinna í þessum veruleika upp á hvern einasta dag allan ársins hring. Þetta eru forsvarsmenn verkalýðsfélaganna. Þetta er grasrótin í þessum félögum. Og halda hv. þingmenn í Sjálfstæðisflokknum, í Framsóknarflokknum, í Samfylkingu og að mér sýnist líka í Vinstri grænum að þessir menn viti ekki hvað þeir eru að tala um, að þeir fari hér með rangt mál? Að þau sterku aðvörunarorð sem þeir hafa haft uppi séu bara marklaus? Ég held að þingmenn ættu aðeins að velta því fyrir sér.

Því miður er það svo að ég óskaði eftir því að nokkrir af þessum mönnum fengju að koma á fund félagsmálanefndar en því var hafnað af formanninum, því miður. Mér þykir það mjög slæmt því þær umsagnir sem þeir sendu inn vekja í raun og veru upp miklu fleiri spurningar en þær svara. Það hefði verið mikill ávinningur fyrir okkur alþingismenn sem sitjum í félagsmálanefnd að fá að heyra mál þessara manna og spyrja þá spurninga um hvernig veruleikinn er í raun og veru því hann er víða ansi dapur og það er hægt að segja margar sögur af því, koma fram með mörg dæmi um það hvernig við á Íslandi erum algerlega óundirbúin til að taka við þessu fólki.

Ef við skoðun síðan fleiri umsagnir fara að gerast allnokkur tíðindi. Hér er til að mynda umsögn frá Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis og það verður að segjast alveg eins og er að þegar ég sá þá umsögn risu hárin á hnakkanum á mér því hér erum við komin á Suðurnes og hér er á ferðinni umsögn frá Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis. Við erum komin á atvinnusvæði þar sem 600 manns munu missa vinnuna á næstu vikum og mánuðum sem kemur meira að segja fram í greinargerðinni með frumvarpinu. Það er viðurkennt fúslega af stjórnvöldum að einmitt á þessu svæði muni 600 manns brátt missa vinnuna.

Þrátt fyrir þessa augljósu staðreynd sem blasir við segir í umsögn frá Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur, með leyfi forseta:

„Félagið er aðili að Alþýðusambandi Íslands og vísar til umsagnar ASÍ er varðar málið í heild sinni, enda hefur sú umsögn verið unnin í fullu samráði við félagið.“

Þarna kemur fram fyrsta verkalýðsfélagið af þeim sem veittu umsögn sem segir að eitthvert samráð hafi verið haft við þá, að ASÍ hafi haft eitthvert samráð við þá, fyrsta félagið. Það kemur hvergi fram í umsögnum hinna að þeir kannist neitt við að eitthvert samráð hafi verið haft við þá um hvernig þessi lög ættu að vera, hvorki af hálfu ASÍ né sambanda innan ASÍ. Mér finnst þetta vekja upp margar spurningar og enn og aftur hlýt ég að harma að nefndinni skuli ekki hafa verið gefinn kostur á því að fá formenn þessara verkalýðsfélaga á fund til sín til að spyrja þá nánar út í einmitt þetta atriði. Ég leyfi mér að efast um að sá gjörningur sem hér á að fara fram sé unninn í sátt við launþegahreyfinguna í landinu. Ég leyfi mér að efast stórlega um það þegar ég les allar þessar umsagnir.

Hitt vil ég segja að eftir að hafa séð hvernig Kristján J. Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, og Guðjón H. Arngrímsson varaformaður taka á þessu máli, þá verð ég að segja að það verður erfitt að taka þá ágætu herramenn alvarlega á næstunni þegar þeir fara að kvarta yfir því að nú stefni í stórfellt atvinnuleysi á Suðurnesjum. Það verður erfitt að taka þá ágætu herramenn alvarlega í viðræðum um þau mál þegar maður sér að þeir hafa samþykkt að frá 1. maí árið 2006 skuli vera frjálst flæði launafólks inn í landið, að óvopnuðum her fátækra launamanna frá Austur-Evrópu verði leyft að flæða óhindrað inn í landið. Skyldu þeir ekki verða í samkeppni við eitthvað af þeim ágætu mönnum og konum sem nú eru að missa vinnuna á Keflavíkurflugvelli? Skyldi það ekki verða svo? Við skulum bara bíða og sjá til. En þetta hefur allt verið fært skilmerkilega til bókar, umsögnin er fyrir framan okkur og við sjáum hvað þessir menn sögðu á vordögum þegar þetta frumvarp lá fyrir, virðulegi forseti.

Ég get svo sem haldið áfram og bent á enn fleiri varnaðarorð. Í fréttum kl. hálfsjö á NFS þann 25. mars sl. var viðtal við Gissur Pétursson, forstjóra Vinnumálastofnunar. Hann talaði þar mjög skýrt og í viðtalinu er haft eftir honum, með leyfi forseta:

„Hann [þ.e. Gissur Pétursson] telur að réttast sé að takmarka frjálsa för fólks að einhverju leyti enn um sinn þar sem breytingar á atvinnuleysisbótakerfinu séu fyrirhugaðar. Þá þurfi hugsanlega að aðlaga ýmsa þætti í félags- og menntakerfinu að breyttum aðstæðum en fjölskyldur munu líklega flytjast með þeim erlendu ríkisborgurum sem koma hingað í atvinnuleit.“

Tökum eftir því að hann segir: „… fjölskyldur munu líklega flytjast með þeim erlendu ríkisborgurum sem koma hingað í atvinnuleit.“ Hér talar ekki bara einhver heldur er þetta Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, og segir þetta. Og skyldi sá ágæti maður ekki vita hvað hann er að tala um? Jú, ég held að hann viti það mjög vel. Hann gerir sér fulla grein fyrir því hvað er hér að gerast, enda segir hann í viðtalinu orðrétt, með leyfi forseta:

„Og það verður alla vega ekki síðar en 2011 sem þetta opnast algjörlega og við þurfum þá að vera vel undir það búin og það er svona okkar mat að við séum það ekki alveg enn þá. En það er heldur ekki alveg víst að það þurfi endilega að viðhafa takmarkanir næstu þrjú árin, kannski bara eitt eða tvö, en í öllu falli þurfum við að búa okkur betur undir þetta.“

Þarna er hann að segja efnislega nákvæmlega það sama og ég hef verið að segja í ræðu minni. Við erum ekki nægilega vel undirbúin. Þetta er forstjóri Vinnumálastofnunar sem nú á að fá eins konar eftirlitshlutverk með þeim atburðum sem mér sýnist að séu fram undan hjá okkur. Hvernig í ósköpunum stendur á því að öll þessi varnaðarorð sem hér hafa verið höfð uppi, hvernig í ósköpunum skyldi standa á því að hv. þingmenn virðast ekki vera reiðubúnir til að hlusta á þau? Ég hef velt því mjög mikið fyrir mér undanfarna daga því að vísbendingarnar blasa við út um allt þegar maður fer að kynna sér þetta mál. Maður fylgist með fjölmiðlum, skoðar í réttri tímaröð hvað menn hafa verið að segja í fréttatímum, skoðar þær umsagnir sem liggja fyrir, skoðar umræðuna sem hefur verið í gangi og hlustar á hinn almenna borgara, venjulega launþega sem maður hittir úti á götu og þeir gera sér mjög margir mætavel grein fyrir því sem nú er að gerast. Þetta er farið að spyrjast út, þessi gjörningur sem á að fara fram hér í dag. Hann er farinn að spyrjast út og fer nú um þjóðfélagið eins og eldur í sinu. Þegar þetta blasir allt saman við þá verður maður hálfhvumsa að ekki skuli vera meiri vilji en raun ber vitni á hinu háa Alþingi til að spyrna við fæti og forða því stórslysi sem við erum nú að sigla inn í.

Hér er til að mynda frétt sem fór út af Ríkisútvarpinu þann 24. þessa mánaðar. Þar er viðtal við eiganda ráðningarþjónustu á Austurlandi, á Egilsstöðum, enn og aftur í hjarta kjördæmis formanns félagsmálanefndar sem hefur stutt þetta frumvarp sem nú er að fara hér í gegn með ráðum og dáð. Eigandi þessarar Íspólsku ráðningarþjónustu, Ingibjörg M. Þorvaldsdóttir, segir hreint út að erlendum starfsmönnum muni fjölga hér á landi eftir 1. maí. Hún býst við því að Pólverjum muni fjölga mjög og segir í umræddu viðtali við Ríkisútvarpið, með leyfi forseta:

„Af því að nú er léttara fyrir atvinnurekendur að fá starfsfólk. Þeir þurfa ekki lengur að bíða eftir umsögn frá stéttarfélagi og niðurstöðu Vinnumálastofnunar þannig að þeir fá meira frelsi núna. Og í sambandi við starfsmanninn þá hefur hann líka meira frelsi. Einu sinni var það þannig að það var erfiðara fyrir þá að fara úr starfi af því að atvinnurekandinn hafði atvinnuleyfið en ekki starfsmaðurinn, þannig að ég mundi segja að fyrir útlendinga kemur þetta sér líka mjög vel, ef þeim líkar mjög illa og þeir lenda, eins og maður segir, að þá hafa þeir það frelsi að finna sér vinnu annars staðar og þurfa bara að gera nýjan ráðningarsamning og tilkynna til Vinnumálastofnunar.“

Þetta eru Pólverjarnir sem að hluta til hafa verið að borga einhverjum aðilum heima í Póllandi fé fyrir að þeim sé sköffuð vinna á Íslandi, til að koma hingað til Íslands og vinna hér á strípuðum lágmarkstöxtum. Erum við stolt af þessu? Er það þetta sem við viljum? Ættum við ekki aðeins að staldra við og velta því fyrir okkur? Hversu langt ætlum við að ganga í því að færa hinum nýja guði ríkisstjórnarinnar fórnir, hinu nýja skurðgoði, hagvextinum? Hversu langt ætlum við að ganga í þeim efnum? Ég held að þingmenn ættu að velta því svolítið fyrir sér. Erum við reiðubúin til að gera nánast hvað sem er?

Ég hef sagt það áður að ég tel að þetta stangist á við heildarhagsmuni þjóðarinnar, stangist á við almannahagsmuni og þess vegna sé glapræði að gera þetta nú með þeim hætti sem við ætlum að fara að gera og við hefðum að sjálfsögðu átt að sækja um frest. Það er allt sem bendir til þess.

Ég er svo hér, virðulegi forseti, með grein fyrir framan mig í tímaritinu Þjóðmál, mjög góða grein sem ég las í gærkvöldi og mig langar til að vekja athygli á henni. Það er Jakob F. Ásgeirsson, rithöfundur og ritstjóri tímaritsins, sem skrifar þessa grein og þar er hann einmitt að vekja athygli á þessu, þ.e. mikilli fjölgun útlendinga á Íslandi. Hann kallar eftir opinni og hreinskilinni umræðu um þessi mál og ég verð að segja að ég er alveg fyllilega sammála honum í því að við verðum að hafa umræðu um þessi mál. Þingmenn verða að fara að kasta fyrir róða einhvers konar rétttrúnaðarhugsunarhætti sem virðist felast í því að það megi ekki ræða þessa hluti. Við þurfum nefnilega að ræða þetta í fúlustu alvöru. Þegar við skoðum gögnin og sjáum hvernig erlendum ríkisborgurum hefur stórfjölgað á Íslandi á örfáum árum þá hljótum við að þurfa að velta því fyrir okkur hvernig við ætlum að bregðast við, hvernig við ætlum að takast á við þetta. Ekki vegna þess að við séum eitthvað á móti þessu fólki heldur vegna þess að við þurfum að geta tekið við því með sómasamlegum hætti, þannig að þetta fari ekki illa.

Þetta er mjög alvarleg umræða. Ég hygg að hún verði að bíða seinni tíma í þessum sal en við getum þá væntanlega tekið hana mjög fljótlega þó það verði sennilega ekki fyrr en í haust héðan af. En eins og Jakob bendir á í grein sinni þá er fátt eins varanlegt og tímabundið atvinnuleyfi. Reynsla nágrannalandanna sýnir nefnilega að mjög stór hluti þess fólks sem einu sinni er komið inn í löndin er komið til að setjast að. Það hefur að sjálfsögðu áhrif á þá sem fyrir eru, þ.e. þjóðina sem er fyrir í landinu, Íslendinga, og við ættum að hugleiða þetta og ræða opinskátt hvaða áhrif það muni hafa.

Ég hef lýst því yfir alveg frá upphafi að ég væri andvígur þessu frumvarpi. Hvorki ég né aðrir í Frjálslynda flokknum erum með á þessu nefndaráliti, bara svo það sé líka fært til bókar. Af því að ég reikna með því að ýmsir launþegar séu að hlusta á þær ræður sem nú fara fram þá langar mig til að upplýsa hvaða þingmenn hafa skrifað undir það nefndarálit sem liggur fyrir frá meiri hluta félagsmálanefndar, þar sem meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt, reyndar með einni smábreytingu. Það eru Dagný Jónsdóttir, formaður félagsmálanefndar, Gunnar Örlygsson, Ingvi Hrafn Óskarsson, Birkir Jón Jónsson, öll án fyrirvara. Þetta eru þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Síðan er Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, með fyrirvara. Ég geri ráð fyrir að hann muni greina frá honum í ræðu sinni á eftir. Jóhanna Sigurðardóttir, með fyrirvara, Jóhann Ársælsson, með fyrirvara og Valdimar L. Friðriksson, með fyrirvara. Þau þrjú síðastnefndu eru öll þingmenn Samfylkingar.

Ég er hins vegar andvígur þessu nefndaráliti meiri hluta félagsmálanefndar, alfarið andvígur því og segi það enn og aftur að við hefðum frekar átt að gera þessa litlu breytingu sem við hefðum getað gert á lögum um útlendinga og sett inn þennan frest. Þá hefði þetta ekki verið neitt vandamál og síðan hefðum við getað einhent okkur í þá vinnu að fara að undirbúa okkur almennilega undir það þegar sá dagur rynni upp, þ.e. 1. maí árið 2011, til vara 1. maí árið 2009. Það hefði verið langskynsamlegasta lendingin í þessu máli. Ég hef hins vegar ekki lagt fram neina breytingartillögu eða nefndarálit. Ég tel að það sé algerlega tilgangslaust. Ég sé alveg hvert stefnir í þessu máli, það væri bara tímaeyðsla. Ég hef frekar valið þá leið að koma upp í ræðustól og gera grein fyrir afstöðu minni og flokks míns og hef farið yfir það og stutt með rökum hvers vegna við höfum komist að þessari niðurstöðu í málinu og hvers vegna við veljum það að vera andvígir. Ég ætla að láta það duga því ég veit að þetta hefur allt saman verið fært til bókar í þingtíðindum og þeir sem vilja geta kynnt sér þetta efni í framtíðinni hvort sem það er á pappír eða rafrænt á netinu og læt ég þar með máli mínu lokið, virðulegi forseti.