132. löggjafarþing — 111. fundur,  28. apr. 2006.

Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga.

771. mál
[12:18]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vísa því á bug sem hverju öðru kjaftæði að ég sé að ala á einhverju útlendingahatri eða óvild í garð útlendinga. Það kom margoft fram í máli mínu að ég hef ekkert á móti þessu ágæta fólki. Hins vegar skil ég mjög vel að þingmönnum Samfylkingarinnar finnist þetta frumvarp hið besta mál. Hvers vegna skyldi það vera? Jú, Samfylkingin rær að því öllum árum að koma Íslandi inn í Evrópusambandið og því er ég alfarið á móti. Samfylkingin rær að því öllum árum og þess vegna finnst henni þetta frumvarp mjög gott. Vegna hvers? Jú, það brýtur niður þá múra sem við höfum þó haft og færir okkur stóru skrefi nær því að ganga í Evrópusambandið. Það er það sem er að gerast og undir niðri grunar mig einmitt að það sé kannski ástæðan fyrir því að Samfylkingin lætur flatreka í þessu máli eins og ríkisstjórnarmeirihlutinn vegna þess að þeir sjá sér leik á borði. Þar liggur hundurinn grafinn. Hagsmunum íslenskra launþega er fórnað fyrir það að færa Ísland skrefi nær inn í Evrópusambandið og ég er alfarið andvígur þeim verknaði.

Ég hef farið yfir umsagnir verkalýðsforkólfa og mér þætti gaman að fá að heyra það frá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni hvort hann telji að þessir forkólfar úr verkalýðshreyfingunni hafi rangt fyrir sér þegar þeir viðhafa ítrekað mjög sterk varnaðarorð, hvort hann telji að þessir menn fari með staðlausa starfi og markleysu, að þeir viti ekki hvað þeir eru að tala um. Ég skyldi ætla að þessir menn vissu meira um það hver raunveruleikinn er úti á hinum íslenska atvinnumarkaði en þingmenn Samfylkingarinnar, nú eða forusta ASÍ ef því er að skipta.