132. löggjafarþing — 111. fundur,  28. apr. 2006.

Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga.

771. mál
[12:22]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég fái að koma á framfæri lítilli leiðréttingu. Ég sagði ekki óvígur her, ég sagði óvopnaður her. Ég sagði óvopnaður her láglaunamanna frá fyrrum austantjaldslöndunum, frá Austur-Evrópu. Það var það sem ég sagði. Hvers vegna skyldi ég ekki geta sagt það? Við sjáum að þessum mönnum hefur verið að stórfjölga á Íslandi. Það eru opinber gögn hjá Hagstofunni og annars staðar sem sýna það mjög skýrt. Það er 18% atvinnuleysi í Póllandi til að mynda. Þýskaland, Frakkland og Spánn eru búin að loka sínum landamærum. Halda þá þingmenn Samfylkingarinnar virkilega að þetta fólk muni ekki leita eitthvað annað? Það komi þá jafnvel hingað? Ég hygg að þessi þróun muni halda áfram. Á meðan eftirspurn er á Íslandi eftir fólki sem er reiðubúið til að vinna á strípuðum töxtum og jafnvel undir þeim þá mun þetta fólk halda áfram að koma hingað. Ég hef einfaldlega verið að benda á efnislega með rökum og tilvísanir í umsagnir m.a. frá verkalýðsforingjum að við erum engan veginn undir þetta búin. Þess vegna hef ég lagt til að við færum frekar hina leiðina sem er augljóslega miklu skynsamlegri: að fara fram á frestun til 2009. Það þurfti ekki að gera annað en breyta bráðabirgðaákvæðinu í lögum um útlendinga, þá hefði málunum verið reddað til 2009 eða 2011. Flóknara var það ekki. En af einhverjum óskiljanlegum ástæðum ákveður ríkisstjórnin að fara þessa leið eða réttara sagt, Samtök atvinnulífsins og ASÍ án þess að ASÍ hafi haft neitt samráð við verkalýðsforingja víðs vegar um landið eins og greinilega kemur fram í þeim umsögnum sem hér liggja fyrir.

Þetta hefur ekkert með andúð gegn útlendingum að gera. Þetta er bara spurning um heilbrigða skynsemi og fyrir mér eru það mikil vonbrigði að þingmenn Samfylkingarinnar skuli ekki hafa séð ljósið í þessum efnum. Enn meiri vonbrigði eru það að Sjálfstæðisflokkurinn skuli taka undir þá vitleysu sem hér er í gangi.