132. löggjafarþing — 111. fundur,  28. apr. 2006.

Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga.

771. mál
[12:33]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að leyfa mér að byrja á að gera alvarlegar athugasemdir við síðustu orð hv. síðasta ræðumanns Péturs Blöndals, sem fríar hæstv. ráðherra af allri ábyrgð á málinu af því að það sé samið af ASÍ og einhverjum aðilum úti í bæ og þar með beri ráðherrann enga ábyrgð á þessum málatilbúnaði og því að málið komi seint inn, af því að höfundarnir séu einhverjir aðrir úti í bæ.

Er þetta ekki stjórnarfrumvarp? Er hv. þingmaður ekki stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar og vinnubragða hennar? Ég held að hv. þingmaður ætti að hætta hinu endalausa steinkasti úr glerhúsi og þykjast aldrei bera ábyrgð á neinu sem ríkisstjórnin gerir þegar það hentar honum ekki. Hv. þingmaður verður að horfast í augu við það að hann er og hefur lengi verið stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar og þeirra vinnubragða sem hún hefur ástundað, m.a. af þessu tagi. Ráðherrann ber nákvæmlega óskerta ábyrgð á frumvarpi sínu og ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn, hvernig sem það er til orðið, hvernig sem það fæddist. Þótt það hefði verið búið til á tunglinu, af geimverum, þá væri ábyrgð ráðherrans eins og hins sama þegar hann leggur málið fram sem stjórnarfrumvarp. Þannig er það. Það breytir engu um ábyrgð þingmanna sem ætla að greiða málinu atkvæði hvernig það er til komið. Það er hið efnislega innihald þess og atkvæði manna hér sem skipta máli, hv. þm. Pétur Blöndal.

Ég mun tala stutt vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru við afgreiðslu málsins og ætla að reyna að halda fyrir mitt leyti það samkomulag sem ég skil að sé um að hraða þessu máli í gegn, af augljósum ástæðum. Einfaldlega verður að gera það í dag ef ekki á illa að fara. Það er mitt fyrsta efnisatriði í þessu máli.

Auðvitað er það stórkostlega gagnrýnisvert hvernig hæstv. ríkisstjórn stendur að þessu, að við skulum 5 mínútum fyrir 12 ef svo má að orði komast, á síðasta virka degi fyrir 1. maí 2006, vera í vandræðareddingu í þessu máli sem hefur legið fyrir í tvö ár eða meira. Það hefur legið fyrir lengi að þennan dag á þessu ári mundi að óbreyttu opnast hinn stóri nýi vinnumarkaður sem tengist stækkun Evrópusambandsins. Það er vandræðalegt að sjá hve fálmkennd og ráðleysisleg viðbrögð eru hér á ferð. Það má vel vera á sínum stað að aðilar vinnumarkaðarins eða verkalýðshreyfingin þurfi að líta í eigin barm í þeim efnum. Auðvitað blasir það við að það koma mjög misvísandi skilaboð úr þeirri átt séu bara skoðaðar ályktanir einstakra verkalýðsfélaga og samtaka og síðan framganga ASÍ eða heildarsamtakanna í þessu.

Þetta regluverk hefur sem sagt legið fyrir lengi. Frá og með því að stækkun Evrópusambandsins tók gildi 1. maí 2004 var innbyggt ferli þar sem fyrir lá að menn gætu í tvö ár og síðan aftur í þrjú ár og jafnvel enn aftur í tvö ár beitt tilteknum varnaðarráðstöfunum í aðlögunarskyni að því sem hinn stóri sameiginlegi evrópski vinnumarkaður er til. Það var ekki unnið heiðarlega að þessu máli af hálfu Evrópusambandsins í samningaviðræðunum við nýju aðildarríkin, hvorki af Evrópusambandinu sem slíku né einstökum aðildarríkjum Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins. Það var látið í veðri vaka, það veit ég vel vegna þess að ég var virkur þátttakandi í því ferli á sínum tíma, t.d. við Eystrasaltsríkin og Pólland, að þeim mundi standa til boða aðgangur að hinum stóra sameiginlega vinnumarkaði strax. Síðan stóð nánast ekkert ríki við það, nánast ekkert. Það var helst að hægt væri að segja að Danir og að nokkru leyti Svíar hafi gert það, og ef ég man rétt Írar.

Sum ríki fóru þá leið, sem var heiðarleg, að lýsa því strax yfir að þau mundu nýta sér tveggja, jafnvel fimm eða jafnvel allt að sjö ára aðlögunartíma. Það gerðu ef ég man rétt Þýskaland og Austurríki. Það var heiðarlegt. En að gefa í skyn að þetta yrði opnað en standa svo ekki við það voru ekki stórbrotin vinnubrögð.

Nú má segja að Ísland hafi verið svolítið á hliðarlínunni og ekki verið beinn þátttakandi í samningaviðræðum um stækkun Evrópusambandsins frekar en Noregur og Liechtenstein. En við fylgdumst þó með málinu og áttum að því aðild í gegnum Evrópska efnahagssvæðið og líka í gegnum samstarf á norrænum vettvangi.

Ég held, frú forseti, að úr því sem komið er sé skynsamlegt að fara að breytingartillögum minni hlutans og fresta því í heild sinni að þessar breytingar gangi í gildi, a.m.k. fram að áramótum, og reyna að undirbúa sómasamlega vönduð vinnubrögð og framtíðarfyrirkomulag í þessum efnum. Þetta er óskaplega hallærisleg redding sem hér á að fara fram, ef svo má að orði komast. Að hafa ekki tekið á því fyrr og lagt upp vandaða málafylgju er gagnrýnisvert.

Ég er ekki andvígur því sem frumvarpið felur í sér, að það sé skárri kostur að viðhalda þeirri tilkynningarskyldu og skráningu sem hér á að heimila allt til 1. maí 2009. Það er stórum betri kostur heldur en að allt opnist á mánudaginn kemur vegna þess hve illa það hefur verið undirbúið og hversu illa við Íslendingar stöndum að vígi, eins og dæmin sanna, í að taka þá á móti þessu fólki og sjá um að það fari sómasamlega fram. Sporin hræða heldur betur í þeim efnum. Hvað hefur verið að gerast við Kárahnjúka og í byggingariðnaðinum á höfuðborgarsvæðinu? Grenjandi félagsleg undirboð og réttarbrot á þessu fólki. Það er um það sem þetta snýst, að á því erlenda vinnuafli sem kemur til landsins, þeim sem hingað flytja og vilja freista gæfunnar á grundvelli hinnar nýju skipunar, sé ekki brotinn réttur og komið sómasamlega fram við það fólk en ekki hitt, að loka og læsa, allt í stáli, eins og mér heyrðist á einum ræðumanni áðan.

Ég er ekki talsmaður þess að Ísland fari að reisa einhverjar gaddavírsgirðingar gegn því að við tökum þátt í þessum vinnumarkaði og reynum að hindra fólk í því að koma hingað. Það væri afturför að mínu mati. Hitt er annað mál, að Ísland og fleiri ríki hafa ekki unnið heimavinnuna sína í þessum efnum. Vegna þess hversu gríðarleg gjá er milli launa og lífskjara á milli t.d. fátækustu Austur-Evrópuríkjanna og hinna ríku Vestur-Evrópuríkja, þá ekki síst Norðurlandanna, þá liggur fyrir að þetta er verkefni sem þarf að vanda sig við.

Ég hef á vettvangi Norðurlandaráðs barist fyrir því í 3–4 ár að Norðurlöndin tækju sameiginlega og samstillt á þessum málum með tvennum hætti:

Að þau undirbyggju heima fyrir að þetta gæti gengið sómasamlega fyrir sig þar með sinni löggjöf og með stuðningi við þetta fólk sem auðveldaði því að aðlagast samfélögunum, læra tungumálin o.s.frv.

Að hinu leytinu hefðu menn átt að aðstoða þessi ríki við að byggja upp hjá sér stuðningskerfi á vinnumarkaði, miðla upplýsingum um réttindi launamanna o.s.frv. En því miður hefur allt of lítið gerst í þeim efnum. Einstöku verkalýðssamtök í stöku landi hafa þó af talsverðum myndarskap reynt að leggja þar sitt af mörkum, t.d. danska alþýðusambandið, að styðja við og hjálpa verkalýðssamtökum, t.d. í Eystrasaltsríkjunum og Póllandi, að byggja sig upp og vera í stakk búin til að gerast þátttakendur í þessum stóra sameiginlega vinnumarkaði. En því miður hefur ekki náðst fram samstillt átak í þessum efnum. Hægri menn, svo að það sé sagt eins og það er, hafa barist gegn því í Norðurlandaráði og víðar að nokkuð sé gert til að styðja við bakið á eðlilegri uppbyggingu vinnumarkaðsskipulags í þessum löndum.

Vita menn hvernig ástandið er í Eystrasaltsríkjunum eða Póllandi? Þar er kannski 20–30% þátttaka í verkalýðshreyfingunni, í mesta lagi. Enn þá verra er ástandið hjá atvinnurekendasamtökunum sem eru í molum. Hvað þýðir það? Það þýðir að vinnumarkaðurinn er meira og minna óskipulagður og fólk veit ekki hvaða rétt það hefur ef það hefur þá einhvern rétt. Það er ekki hægt að standa með venjulegum hætti að kjarasamningum ábyrgra aðila því að ef til er einhver verkalýðshreyfing þá vantar gjarnan viðsemjanda. Þá er kannski atvinnurekendahreyfingin í viðkomandi landi í molum eða öfugt. Svona er ástandið. Það er inn í þetta umhverfi sem við erum að opna okkar vinnumarkað.

Það liggja fyrir skoðanakannanir. Vandaðar skoðanakannanir hafa verið gerðar í Eystrasaltsríkjunum sem sýna að allt upp í 50–70% af ungu fólki í þessum löndum getur hugsað sér að freista gæfunnar í Vestur-Evrópu, þá gjarnan á Norðurlöndunum, eðlilega vegna þess að Norðurlöndin eru þessum ríkjum gjarnan fyrirmynd. Þar er mest þekking á Norðurlöndunum og þau eru næst landfræðilega. Í Eystrasaltsríkjunum og í Póllandi horfa menn mjög gjarnan norður og norðvestur. Þangað getur ungt fólk hugsað sér að fara og freista gæfunnar. Skiljanlega. Hver skilur það ekki ef þú eygir von um vinnu og búsetu í landi þar sem þú tífaldar launin þín o.s.frv.?

Það er búið að vera alveg ótrúlegt andvaraleysi og tvöfeldni í gangi í sambandi við þetta mál, sem er dapurlegt upp á að horfa. Það hefur ekki einu sinni fengist í gegn í Norðurlandaráði, nema í þynntri útgáfu, tillaga sem ég og flokkahópur minn hefur flutt þar í mörg ár, um að Norðurlandaráð eða ráðherraráðið kosti rekstur upplýsingaskrifstofa í Eystrasaltsríkjunum. Þar hefði verkalýðshreyfingin og launamenn í þessum löndum greiðan aðgang að upplýsingum um réttindi sín og möguleika til að draga úr líkunum á því að farið verði illa með þetta fólk, að réttur verði brotinn á því, það haft á einhverjum þrælakjörum og verði fórnarlömb bullandi félagslegra undirboða ef það ákveður að færa sig um set og freista gæfunnar á nýjum stað.

Við Íslendingar höfum sannarlega ástæðu til að hugsa okkar gang líka í þessum efnum. Það hefur ekki verið mikill sómi að því hvernig þetta hefur gengið til við Kárahnjúka eða í byggingariðnaðinum á höfuðborgarsvæðinu. Það vita t.d. allir að laun ófaglærðra verkamanna eru á hraðri niðurleið, líka Íslendinga, vegna þess að þeir eru pressaðir niður á sömu kjör og hægt er að flytja inn Pólverja eða Eystrasaltsbúa á. Fróðir menn segja mér að tímakaupið hafi jafnvel lækkað um 250–300 kr. á einu ári. Það eru svona hlutir sem hafa gerst.

Handan við hornið í þessu sambandi eru enn þá alvarlegri og ljótari hlutir sem eru algerlega ólöglegt vinnuafl, svart vinnuafl og skipulögð lögbrot, skipulögð glæpastarfsemi og mansal. Þetta hangir nefnilega náið saman. Ég er ekki viss um að við sjáum nema toppinn á ísjakanum í þeim efnum enn sem komið er, því miður. Þess vegna er það andvaraleysi sem hér hefur viðgengist af hálfu stjórnvalda og jafnvel fleiri aðila mjög sorglegt og ámælisvert.

Tímans vegna, frú forseti, læt ég þetta nægja. Ég gæti hugsað mér að segja margt fleira um þetta mál en læt það bíða betri tíma, enda erum við ekki að sjá hið síðasta af því hér, spái ég.