132. löggjafarþing — 111. fundur,  28. apr. 2006.

Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga.

771. mál
[12:58]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég taldi mig hafa talað um þetta í minni ræðu. Nei. Það er síður en svo að orð þessara verkalýðsforingja séu orðin tóm. Ég tel að þeir hafi mikið til síns máls. Ég dró athygli manna að því að það væri mjög misvísandi afstaða uppi í verkalýðshreyfingunni um þetta mál. Það er okkar vandi.

Það er m.a. þess vegna sem við erum ekki að flytja breytingartillögur um frestun til 2009. Heldur um það einungis að fresta þessu máli um hálft ár vegna þess að við teljum að það verði að fara bil beggja í þessu. Það er ekki samstaða um þetta mál. Stjórnvöld hafa ekki heldur staðið sig eins og ég kom að áðan.

Besta mál að opna. Ég svaraði því líka. Ég tel að ástæða hefði verið til að undirbúa málið betur. Það liggur fyrir að búið er að samþykkja að það verði frjáls för vinnuafls til Íslands af þessum svæðum. Það er ekki spurning um það. Það er bara spurning um hvenær og með hvaða hætti menn standa að því. Niðurstaðan er sem sagt þessi: Við erum vanbúin. Það er samt búið að ganga það langt í þessum málum að pólitísk samstaða mun ekki nást um annað en að þetta gerist innan mjög skamms tíma.

Við erum að vonast til að sættir geti þá orðið um að fresta þessu í hálft ár svo menn fái aðeins betra tækifæri til að skoða sig um í þessu máli. Það er okkar niðurstaða að lengra eigum við ekki að ganga hvað það varðar.