132. löggjafarþing — 111. fundur,  28. apr. 2006.

Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga.

771. mál
[13:04]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Það var á árinu 2004 sem Evrópska efnahagssvæðið var stækkað. Þá sat ég á þingi sem varamaður. Í samningnum var gert ráð fyrir aðlögun að þeirri stækkun og aðlögunin gat verið til 1. maí 2011. Í kjölfar þess að sá samningur var innleiddur voru á Alþingi sett lög um að fresta lögleiðingu samningsins með lögum sem eru nr. 19/2004.

Á þessum tíma var varað mjög eindregið við þeirri þróun sem færi í hönd en öllum ákvæðum var frestað. Síðan hefur það gerst að mjög verulega hefur hallað undan fæti á íslenskum vinnumarkaði því miður og þessi tveggja ára aðlögunartími hefur ekki verið nýttur að neinu marki.

Í hvaða stöðu erum við þá í dag, 28. apríl? Við stöndum frammi fyrir vondum kostum. Næstversti kosturinn í málinu er að samþykkja frumvarp hæstv. félagsmálaráðherra, besti kosturinn í stöðunni er að samþykkja breytingartillöguna og fresta öllu — vegna þess að tillaga félagsmálaráðherra gengur bara út á að fresta hluta af þessu og opna tilkynningarskyldu og nær alls ekki nógu langt. Versti kosturinn, og það virðist hv. þingmaður Frjálslynda flokksins alls ekki skilja, er að opna án þess að aðlögunartíminn hafi verið nýttur nokkurn skapaðan hlut.

Ég get tekið undir þau orð sem hér hafa verið flutt um andvaraleysi félagsmálaráðherra. Það hefur verið algert. Ég verð bara að segja það eins og er að andvaraleysi ASÍ hefur líka verið mjög mikið. Það er enn þá síður skiljanlegt vegna þess að ASÍ hefur verið varað við. Ég hef gert það sjálfur persónulega og ég hef gert það sem þingmaður VG. Vegna þess að í kjölfar tillöguflutningsins var alveg berljóst að það væru gloppur á lögunum um útlendinga sem koma hingað til landsins. Það eru stórar gloppur á löggjöfinni og þær hafa orðið ljósar. Vegna þeirra og vegna þessa aðlögunartíma lagði Vinstri hreyfingin – grænt framboð fram frumvarp til að stoppa í, til að taka þátt í þessari aðlögun, frumvarp um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Hvað mælir fyrir í því? Jú, það mælir fyrir í því að öll launakjör í voru landi skulu gilda um erlenda starfsmenn hvort sem þeir koma hingað á vegum starfsmannaleigna eða hvernig sem þeir koma. Þegar farið var yfir rauðu strikin var því lofað á sínum tíma að setja lög um starfsmannaleigur og það kom mér verulega á óvart og olli mér miklum vonbrigðum að það frumvarp skyldi ekki stoppa í starfskjör útlendinga hér á landi þannig að þeir nytu sömu réttinda og Íslendingar. Þeir gera það ekki í dag.

Ekki veldur sá er varar í þessum efnum. Í frumvarpi um þetta mál sem var lagt fram fyrst árið 2005 og endurflutt á þessu þingi segir m.a. að það hafi verið staðreynt að margir hinna erlendu launamanna sem hingað koma njóti ekki samsvarandi kjara og réttinda og íslenskir launamenn. Eru laun og önnur starfskjör þeirra iðulega lakari en aðildarsamtök vinnumarkaðarins hafa samið um sem lágmarkskjör. Enn fremur liggur fyrir að mikill fjöldi erlendra launamanna kemur hingað inn til lands sem ferðamenn og starfar hér án dvalar- og atvinnuleyfa. Það er líka tekið fram að rökstuddur grunur leiki á því að opinberum gjöldum sé ekki skilað. Það er ekki lengur grunur, það er staðfesta, það er fullvissa um það. Frá þessum staðreyndum hefur ítarlega verið greint. Efling stéttarfélag hefur margsinnis leitað úrbóta og ekkert hefur gerst, ekki nokkur skapaður hlutur fyrr en nú á að keyra fram þetta frumvarp sem nær ekki nógu langt.

Lög um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið hér á landi, nr. 54/2001, ná ekki tilgangi sínum. Það hefur verið staðfest með dómi héraðsdóms í máli gegn Impregilo sl. vor.

Annað sem er alvarlegt við þetta ástand eru ekki bara kaup og kjör þeirra útlendinga sem koma hingað heldur hitt að það ástand sem hér er að skapast fer að minna um margt á ástandið á Íslandi fyrir setningu vinnulöggjafarinnar og alveg fram yfir 1960. Það voru harðvítugar vinnudeilur og upplausn á vinnumarkaði. Það stefnir í að vinnumarkaðurinn gangi í upplausn af þessum sökum og það er alvörumál. Vinnumarkaðurinn hér er mjög skipulagður og það hefur verið friðsamlegt á vinnumarkaði á Íslandi en það stefnir í allt annað.

Það er ekki bara það að þetta skapi óróa á vinnumarkaði heldur skapar þetta mjög misjafna samkeppnisaðstöðu fyrirtækja. Það er fjöldi fyrirtækja sem borgar starfsmönnum sínum laun eins og þeim ber en hinir sem ekki gera það eru í allt annarri samkeppnisaðstöðu. Ástandið hefur farið versnandi og það hefur farið dagversnandi síðan árið 2004. Ég vil nefna dæmi um verkamannahóp sem var að vinna hér í Reykjavík með 400 kr. jafnaðarkaup á tímann, vann 16 tíma á sólarhring, klæðalítill og aðbúnaðurinn allur í skötulíki.

Það sem verra er í þessu máli er að eftirlit hefur ekki verið neitt. Ekkert hefur verið aðhafst þó að lög hafi verið brotin, þó að menn komi hingað sem ferðamenn og vinni hér fulla vinnu í þrjá mánuði, fari svo eftir viku og komi aftur og vinni í þrjá mánuði. Það hefur ekkert verið gert. Það hefur að því er virðist ekki verið pólitískur vilji til þess hingað til. Versta dæmið um þetta allt saman, og eftir höfðinu dansa limirnir, er auðvitað Impregilo-dæmið. Hvernig stóð á því að Impregilo gat boðið 20–25% undir íslenska bjóðendur, íslensk fyrirtæki í samvinnu við erlend? Hvernig skyldi hafa staðið á því? Jú, það var vegna þess að þeir ákváðu að fara ekki eftir virkjanasamningnum. Þeir ákváðu að borga strípaða taxta og ekki bara það, þeir notuðu sér allar smugur í lögum um réttarstöðu útlendinga hér á landi og fóru í þær, borga ekki öll iðgjöld, koma sér hjá öðrum hlutum og borga algjör lágmarkslaun.

Ég held því fram og hef ágæta aðstöðu til þess að halda því fram vegna þess að ég hef starfað sem lögmaður í 25 ár fyrir stéttarfélög, þar með talið Eflingu stéttarfélag. Ég veit fullvel hvað er að gerast. Það er verið að koma á nútíma þrælahaldi, það er ekkert flóknara, með þeim afleiðingum sem sér ekkert fyrir endann á í íslensku atvinnulífi. Íslenskir atvinnurekendur og ríkisstjórnin eru að skjóta sig í fótinn. Þetta snýst ekki bara um þá útlendinga sem koma hingað, þetta snýst um þjóðskipulagið sem við viljum hafa hérna. Viljum við hafa friðsamlegan vinnumarkað og fólk með góð laun sem skilar sínu verki vel?

Ég ætla að ljúka þessu með því að segja það að það veldur mér verulegum vonbrigðum að heyra köpuryrði í garð útlendinga. Ég verð að segja það alveg eins og er. Ég ætla ekki að nefna dæmi þessa en það hafa heyrst hér í salnum köpuryrði til útlendinga og talað niður til þeirra. Hver er staðreynd málsins? Útlendingar sem hingað hafa komið gegna afar veigamiklu hlutverki í íslensku atvinnulífi. Íslenskt atvinnulíf hefur ríka þörf fyrir starfskrafta þeirra. Þeir gegna lykilhlutverki í fiskvinnslu. Þeir gegna lykilhlutverki hjá sjúkrahúsum og ýmsum þjónustustofnunum. Þar fyrir utan hafa þessir sömu útlendingar auðgað okkar menningarlíf verulega. Við höfum notið góðs af þeim bæði sem starfsmönnum og þeir hafa skapað þá fjölbreytni í menningu Íslands sem öllum þjóðum er nauðsynleg.

Þrátt fyrir það að útlendingar skipti okkur svona miklu máli eða íslenskt atvinnulíf — ef þeir væru allir sendir úr landi þá færi það bara í kalda kol — en þrátt fyrir að þeir skipta okkur svona miklu máli atvinnulega séð eru þeir ekki virtir að verðleikum. Íslensk löggjöf er þannig að þeir eru hér óvelkomnir gestir, það er ekkert öðruvísi. Þeim eru búin dvalarskilyrði hér í dag og hefur verið gert síðustu tvö, þrjú árin sem standast ekki mannréttindi og eru okkur til háborinnar skammar.

Auðvitað fagna ég því að hér verði sett á fót nefnd sem á að taka á þessu en ég er orðinn hundleiður á svona nefndum vegna þess að það er búið að leggja fram úrræðið. Það er búið að benda á leiðirnar. Það er m.a.s. búið að búa þær út í frumvarpi fyrir hæstv. félagsmálaráðherra. Af hverju þarf að fara í nefnd til að veltast upp úr því? Það er hægt að nota þær tillögur sem hafa komið fram á þingi, bæði frumvörp og þingsályktanir frá öllum stjórnarandstöðuflokkunum eða Samfylkingunni og Vinstri grænum og nota það og búa útlendingum það umhverfi á Íslandi sem þeir eiga skilið. Það getum við gert á einni viku, það er búið að vinna þetta það vel. Nei, þá er það ein nefndin enn til að skoða og kanna hvernig aðbúnaðurinn er hjá útlendingum á Íslandi, eitthvað sem við vitum allt um, ég veit allt um það. Ég hitti þessa útlendinga næstum á hverjum degi, veit nákvæmlega hver staða þeirra er, tel fram fyrir þá og sinni þeim á alla kanta. Ég þoli ekki að sjá pólskan verkamann vinnandi úti á Seltjarnarnesi í 15 stiga gaddi fyrir 400 kr. á tímann og búa svo í gámi. Það þarf ekkert að kanna eða rannsaka. Það þarf að nota tímann og aðlaga okkar þjóðfélag að þeirri staðreynd að við erum fjölmenningarþjóðfélag.