132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Útskriftarvandi LSH.

[13:40]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gerir að umtalsefni þær upplýsingar sem komu fram í ársskýrslu LSH að 42 aldraðir einstaklingar létust á spítalanum á síðasta ári meðan þeir biðu eftir plássi á hjúkrunarheimili. Bið aldraðra einstaklinga sem eru inniliggjandi á LSH eftir plássi á hjúkrunarheimilum hefur oft komið til tals á hinu háa Alþingi á undanförnum mánuðum. Þá hef ég m.a. bent á þá sjálfsögðu reglu að aldraðir einstaklingar sem eru inniliggjandi á sjúkrahúsum og eru á biðlista eftir plássi á hjúkrunarheimilum eigi að fá forgang í slík pláss. Slík regla er ekki í gildi í dag en hana þarf að taka upp.

Það segir sig sjálft að aldraðir sem liggja á sjúkrahúsi eru í þeim flokki fólks sem er í hvað brýnustu þörf að fá vistun á hjúkrunarheimili. Það þarf hins vegar ekki að fara mörgum orðum um það hve miklu dýrara það er að liggja á sjúkrahúsi en á hjúkrunarheimili þannig að það eru ekki einungis mannúðleg sjónarmið sem liggja að baki slíkri verklagsreglu heldur einnig hagkvæmnissjónarmið.

Hins vegar get ég ekki látið hjá líða að benda á ábyrgð R-listans í Reykjavík í þessum efnum. Skortur á hjúkrunarheimilisplássum og öðrum úrræðum fyrir aldraða er að mestu bundinn við Reykjavík. Hver ber ábyrgð á því? Hver ber t.d. ábyrgð á því að sveitarfélög hafa á síðustu árum dregið úr félagslegri þjónustu við aldraða eins og kemur fram í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar um þjónustu við aldraða? Félagsleg þjónusta inn á heimili aldraðra einstaklinga er oft forsenda þess að þeir geti búið lengur heima. Hver ber ábyrgð á því að lítið hefur farið fyrir byggingu þjónustuíbúða og leiguíbúða fyrir aldraða í Reykjavík á síðsustu árum? Ég er að tala um íbúðir fyrir aldraða eins og t.d. við Dalbraut, Hraunbæ, Bólstaðarhlíð og Lönguhlíð sem byggðar voru í tíð sjálfstæðismanna í Reykjavík. Slík úrræði fresta þörf á innlögn á hjúkrunarheimili. Þetta eru áherslur nútímans í öldrunarmálum. Hér hefur R-listinn algerlega brugðist öldruðum Reykvíkingum. Hver ber ábyrgð á þeirri vöntun á hjúkrunarheimilisplássum í Reykjavík? Öll önnur sveitarfélög landsins láta sig þessi mál varða en það hefur R-listinn í Reykjavík ekki gert. Hvar liggur ábyrgðin þar?