132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Útskriftarvandi LSH.

[13:44]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka þátt í þessari umræðu vegna þess að nafn mitt var nefnt í umræðunni. Við hv. þáverandi borgarstjóri skrifuðum undir viljayfirlýsingu á sínum tíma. Síðar um haustið var samið við samtök eldri borgara um heimahjúkrun og uppbyggingu hjúkrunarrýma. Við fórum yfir það samkomulag eftir tvö ár og við það var fullkomlega staðið og undirskrifað af öllum. Ég vil láta þetta koma fram hér. Þrjú hundruð milljónir sem eru á biðreikningi eru vegna þess að í Sogamýrinni stendur yfir stórframkvæmd sem er sameiginleg framkvæmd ríkis og borgar þannig að það styttist mjög í að borga þurfi þessar þrjú hundruð milljónir.

Hins vegar kem ég líka upp til þess að það komi fram úr þessum ræðustóli að þakka ber starfsfólki Landspítalans fyrir það verk sem það hefur unnið síðastliðið ár og á undanförnum árum því að tíðindin í þessari ársskýrslu eru auðvitað þau að spítalinn er rekinn í járnum. Það sýnir að þarna hefur verið tekið vel á málum og starfsfólkið hefur lagt mikið á sig við að ná þessum árangri og ég vildi ekki að þessari umræða lyki án þess að sá mikli árangur í starfi spítalans væri nefndur.