132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Útskriftarvandi LSH.

[13:48]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég hjó eftir því í svari hæstv. heilbrigðisráðherra þegar ég spurði hvort þarna væri við Sjálfstæðisflokkinn að sakast og skort á fjármunum frá fjármálaráðuneytinu í þennan málaflokk að ráðherrann svaraði því þannig til að það væri líka um að ræða kerfislegan vanda, þ.e. ekki bara Sjálfstæðisflokkinn heldur líka kerfislegan vanda. Ég lít svo á að það sé einn og sami hluturinn, þessi vandi varðandi Sjálfstæðisflokkinn, fjármálaráðuneytið og hinn kerfislegi vandi, því hinn kerfislegi vandi er sá, eins og hér kom réttilega fram hjá hv. þm. Þuríði Backman, að það vantar fjármuni inn í öldrunarþjónustuna, bæði í uppbygginguna og reksturinn og þess vegna hafa á undanförnum 10 árum þeir 6 milljarðar sem hafa farið í Framkvæmdasjóð aldraðra ekki allir farið í uppbyggingu heldur einvörðungu 3,6 milljarðar. Hitt hefur verið tekið í rekstur vegna þess að það vantar fjármuni inn í rekstur í heilbrigðisþjónustunni.

Hér var komið inn á Reykjavíkurborg og það er rétt, hér er mikill vandi vegna þess að ekki hefur verið byggð upp hjúkrunarrýmisþjónusta eins og þyrfti. Þar er alfarið við ríkið að sakast sem á að sjá um þennan hlut. Samkomulag sem ég og þáverandi heilbrigðisráðherra gerðum fyrir fjórum árum gekk einmitt út á að Reykjavíkurborg ætlaði að leggja meira af mörkum en henni ber lagaleg skylda til en það hefur verið svo mikill hægagangur í þessum framkvæmdum að þeir fjármunir bíða enn á biðreikningi, eins og ég kom inn á.

Það hefur verið vísað til þess að margir séu heima og geti bara verið heima. Það eru margir í brýnni þörf eftir hjúkrunarrými sem bíða heima og bíða langtímum saman við ómögulegar aðstæður. Ef við tölum um heimaþjónustuna og hina félagslegu heimaþjónustu sveitarfélaga þá kemur fram á bls. 51 í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem hv. þm. Ásta Möller vísaði til, að líklegast er hvergi betri og meiri félagsleg heimaþjónusta en í Reykjavík af öllum sveitarfélögum á landinu þannig að Reykjavíkurborg gerir betur í þessum efnum en flest sveitarfélög en heimahjúkrunin er hins vegar minni hér en annars staðar.