132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Útskriftarvandi LSH.

[13:52]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt að margir þingmenn í salnum voru farnir að sakna þess hvort hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson mundi ekki koma hér og rifja upp fyrir okkur eitthvað, og koma í beinu framhaldi eftir því að hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kemur með jafnmikilvægt mál til þingsins sem hún hefur gert að umtalsefni. Það er skiljanlegt að sjálfstæðismönnum líki illa að það sé tekið til umræðu.

Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að hér situr núverandi fjármálaráðherra. Hann má þó eiga það að hann situr í salnum og hlustar á en hann tekur ekki þátt í umræðunni, hann kemur ekki til að verja málið. En fyrrverandi fjármálaráðherra, hæstv. núverandi utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins sem m.a. sagði að það væru engar fjárhagslegar forsendur fyrir því samkomulagi sem hér hefur verið gert að umtalsefni, hvar er hann? Hann er farinn úr salnum. Hann er líka farinn af mælendaskrá, hann ætlaði að taka þátt í þessari umræðu en er flúinn af hólmi. Þá koma ýmsir aðrir hvolpar og reyna að taka til varna eins og við sáum rétt áðan.

Virðulegi forseti. Það er bara staðreynd að það samkomulag sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir vitnaði til áðan og fjármálaráðherra sagði það um sem hér hefur verið tekið sem dæmi, að það átti ekki að gera neitt vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn stoppar það. Hverjir eru það nú sem setja upp einhver flögg og ætla að fara að gera eitthvað fyrir aldraða? Það er hreint út sagt hlægilegt, virðulegi forseti, þegar sjálfstæðismenn ætla að fara að gera það núna korteri fyrir kosningar og er ekkert annað en falskur tónn samanber sporin þeirra í þessum málum og það sem hér hefur verið rætt um. Og formaður Sjálfstæðisflokksins þorir ekki að taka þátt í umræðum og útskýra fyrir þingheimi og alþjóð hvers vegna ekkert hefur verið gert í þessu. Reykjavíkurborg hefur staðið sig vel hvað þetta varðar en það vantar ríkisvaldið, virðulegi forseti. Það er grundvallaratriði og það vantar Sjálfstæðisflokkinn eins og svo oft áður.

(Forseti (BÁ): Forseti gerir athugasemd við að hv. þingmenn noti orð eins og hvolpar hver um annan. Forseti vill að gefnu tilefni einnig taka fram að hæstv. utanríkisráðherra situr fund í þinghúsinu sem áður var gert ráð fyrir á þessum tíma.)