132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Útskriftarvandi LSH.

[13:57]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er alvarleg staða sem er uppi í hjúkrunarmálunum og í málefnum aldraðra. Það að 42 aldraðir sem lokið hafa læknismeðferð skuli ekki fá hjúkrunarrými og látast inni á spítalanum áður en þeir komast út af honum á einu ári er mjög alvarlegt og nú er það svo að það eru um 100 aldraðir inni á spítölunum. Það er ekki bara að það sé óhagkvæmt, það eru líka óþolandi aðstæður fyrir þá öldruðu sem búið er að lækna að komast ekki út af spítalanum. Ráðherrar tala um að það sé ekki hentugt — þ.e. á líðandi stund.

Hér á dögunum ræddi ég við hæstv. heilbrigðisráðherra um að það yrði að vera forgangur út af Landspítala – háskólasjúkrahúsi inn á hjúkrunarheimilin. Það hefur ekkert verið gert í þeim málum, ekki nokkur skapaður hlutur. Hvernig stendur á því, hæstv. ráðherra? Það þarf auðvitað að semja við þá sem ráðstafa hjúkrunarrýmunum um að spítalinn hafi forgang. Það kostar 70 þús. kr. á dag að vera með hjúkrunarsjúklinga inni á spítalanum og það er mjög kostnaðarsamt þegar um 100 manns eru þar hverju sinni.

Virðulegi forseti. Ég vil líka nefna ákveðinn hóp sem ekkert hefur verið gert fyrir og það eru ungir hjúkrunarsjúklingar, á aldrinum 18–60 ára. Það eru 34 slíkir sem bíða eftir því að fá inni á hjúkrunarheimilum og það hefur ekkert verið gert í þeim efnum fyrir þann hóp frá því að hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og hæstv. ráðherra Ingibjörg Pálmadóttir tóku sig saman um að reisa 11 hjúkrunarrými í Skógarbæ árið 1997. Síðan hefur ekkert verið gert fyrir þennan hóp og þetta er hópur hjúkrunarsjúklinga sem þarf að dvelja lengi á hjúkrunarrýmum. Það er ekki skammtímadvöl, það er löng dvöl og þetta fólk bíður við mjög erfiðar aðstæður.