132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Tekjuskattur.

793. mál
[14:08]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst það miður að ekki skuli vera gerð nein tilraun til að meta hvað þetta þýðir fyrir árið 2006. Ég geri mér grein fyrir að það getur verið ákveðnum vandkvæðum bundið vegna þess hvernig þetta er fært hjá ríkissjóði en það hefði verið ágætt að eitthvert mat hefði verið á því engu að síður.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því, virðulegur forseti, að ástæðan fyrir að þetta frumvarp er fram komið eru þær miklu sveiflur sem eru í genginu og sá almenni skortur á stöðugleika sem er í íslensku efnahagslífi. Ef við byggjum við stöðugleika, ef við byggjum við sæmilega stöðugt gengi og við sæmilega góða hagstjórn þyrfti auðvitað svona frumvarp ekki að koma fram með svona sértækum aðgerðum eins og hér er verið að leggja til.

Eins og ég kom inn á áðan eru það ekki bara fyrirtækin í landinu sem búa við skort á stöðugleika heldur líka heimilin. Nú sjá þau fram á að það er mjög vaxandi verðbólga hérna og hvert prósentustig í verðbólgu þýðir einfaldlega að höfuðstóll verðtryggðra fjárskuldbindinga heimilanna hækkar um 9 milljarða. Mér sýnist ekki að gerð sé nein tilraun til þess að takast á við þann vanda í þeim frumvörpum sem ríkisstjórnin er að koma með inn í þingið núna á lokadögum þess. En hægt verður að ræða það betur núna á eftir og út af fyrir sig er hægt að fara yfir það í efnahags- og viðskiptanefnd.

En, virðulegur forseti, mér finnst miður að ekki skuli koma inn frumvörp sem taka á vanda heimilanna í landinu í þeim miklu sveiflum sem eru í efnahagslífinu og þeim hagstjórnarvanda sem hér er við að etja og hins vegar að ekki skuli vera hægt að gefa einhverja hugmynd um hvaða upphæðir er hér um að ræða.