132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Tekjuskattur.

793. mál
[14:10]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er sjálfsagt að freista þess að reyna að leggja mælikvarða á hversu mikið er um að ræða. En þar sem þetta eru ekki beinlínis fjármunir sem maður hefði talið að væru í hendi þá hefur það ekki verið gert til þessa.

Hins vegar held ég að rétt sé að geta þess þegar verið er að ræða um stöðugleikann og gengið að íslenska krónan er ekki eini gjaldmiðillinn sem sveiflast. Það gera aðrir gjaldmiðlar og meira að segja evran sveiflast — ég sé að hv. þingmaður hefur mikinn áhuga á þessu efni og hlustar grannt á það sem ég er að segja — það gerir dollarinn líka og það gera fleiri gjaldmiðlar sem eru á markaði í heiminum. Ég held að gagnlegt væri fyrir þingmenn að bera þetta saman, það er mjög auðvelt að nálgast mælingar á slíkum sveiflum á heimasíðum bankanna þar sem hægt er að framkvæma ýmsar reiknikúnstir.

Varðandi hins vegar rekstrarvanda heimilanna, eins og hv. þingmaður spurði um, er þessu máli þannig háttað gagnvart heimilunum að þau hafa verið að njóta þess í mjög ríkum mæli að undanförnu hversu sterkt gengi krónunnar hefur verið, hversu breytingin í þá áttina hefur verið mikil á undanförnum árum. Þá má kannski segja að í því felist ójafnvægið sem hefur verið að undanförnu í háu gengi krónunnar sem nú hefur gengið til baka og er svona nokkurn veginn í því sem a.m.k. mjög margir hafa talið vera langtímajafnvægisgengi og þá erum við þar með aftur komin til jafnvægisins.

Enn fremur varðandi hinn meinta rekstrarvanda heimilanna þegar um verðtryggingu er að ræða þá tengist verðtryggingin af lánunum að sjálfsögðu því að verðmæti eignanna sem á móti standa hefur líka aukist og á síðustu mánuðum og missirum miklu hraðar en (Forseti hringir.) verðtryggingin hefur getað gert.