132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Tekjuskattur.

793. mál
[14:13]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hafði einhvers staðar látið hafa það eftir mér að ég hefði talið að þingið hefði átt að ryðja borð sín um páska og hafa fátt annað á dagskrá en að ræða stöðuna í efnahagsmálum og þann óstöðugleika sem uppi er og nauðsynlegar ráðstafanir til að reyna að endurheimta á nýjan leik efnahagslegan stöðugleika. Við erum í grafalvarlegri stöðu með þau mál. Ljóst er að þetta er ein hættulegasta atlaga að þeim stöðugleika sem hér tókst að innleiða með þjóðarsáttarsamningunum 1990 þegar verðbólgudraugurinn var kveðinn niður og óvissan er meiri um framhaldið en kannski hefur lengi áður verið.

Hæstv. ríkisstjórn hefur ekki borið gæfu til að gera það, þrjóskast áfram með ýmis fullkomlega óþörf ágreiningsmál og hefur eytt tímanum í þau þangað til nú á þessum drottins degi, 2. maí, anno domini 2006, að hér lítur dagsins ljós lítið frumvarp frá hæstv. fjármálaráðherra, sem er væntanlega þá af hans hálfu eina innleggið í efnahagsmálin á þessu vorþingi, eina framlag hæstv. ráðherra til að takast eitthvað á við efnahagsóstöðugleikann, og það hlýtur að teljast fremur lítil mús, þetta frumvarp, borið saman við tilefnið, þ.e. þá alvarlegu stöðu sem uppi er með miklu gengishruni krónunnar og verðbólguskoti sem komið er af stað.

Nú er það svo og ég tek það strax fram að það mæla ýmis efnisrök með því að gera þessa ráðstöfun sem slíka því að annars er ljóst, öllum sæmilega hugsandi mönnum má vera það ljóst sem setja sig ofan í málið að staðan yrði ákaflega ankannaleg fyrir sjávarútvegsfyrirtækin, sem þolað hafa búsifjar af ákaflega slæmum rekstrarskilyrðum undanfarin missiri, ef þau fengu svo í hausinn núna skatt vegna gengishagnaðar, vegna sterkrar krónu á síðasta ári, sem kæmi til greiðslu á þessu ári. Að vísu má segja að á móti komi afkomubati þeirra í rekstri vegna hærri tekna í innlendri mynt með lægri krónu. En þegar þannig stæði þá líka á að þau hefðu fullnýtt töp sín og hefðu ekki aðra frádráttarmöguleika þá gæti þessi skattlagning komið að fullu til greiðslu, þ.e. þeim væri þá refsað ofan í kaupið með þessari skattlagningu.

Það væri fróðlegt að taka í tengslum við þetta mál til skoðunar samanlagt tap útflutningsfyrirtækjanna og útflutningsatvinnuveganna undanfarin missiri vegna hins háa gengis krónunnar. Hvaða fjárhæðir værum við þá að tala um? Ef reyndum að verða sammála um líklegt meðalgengi krónunnar, raunhæft jafnvægisgengi krónunnar, kannski gengisvísitölu upp á 125 eða eitthvað svoleiðis, og bakreiknuðum svo tekjutapið undanfarin ár, undanfarin missiri frá því að krónan fór að styrkjast af alvöru á árinu 2002–2003, býst ég við að við fengjum býsna háar upphæðir. Maður talar náttúrlega ekki um ástandið þegar gengisvísitalan fór niður undir 100.

Þetta á sér líka sögulega skýringu sem komið er inn á í greinargerð, að verðbólgureikningsskilin eru aflögð. Sem betur fer töldu menn sig ekki þurfa þeirra við lengur og vonandi þarf aldrei að endurvekja þau. Enda ekki gert ráð fyrir því. Að vísu er fjallað um það í greinargerð hvort slíkt standi ekki til. En það er samt sem áður ljóst að verðbólgan kemur inn í búskap fyrirtækjanna á þessu ári. Það er augljóst mál og hefur sín áhrif.

Leiðin sem hér er lögð til sem bráðabirgðaráðstöfun er í átt að því sem ýmis önnur lönd gera til að gera fyrirtækjum kleift að dreifa sveiflum yfir einhvern tíma. Mörg rök mæla með því að slíkt þurfi ekki að koma til fullrar skattlagningar og greiðslu, á hvorn veginn sem er, á einstökum árum, ef miklar sveiflur eru í ytri skilyrðum fyrirtækjanna, þ.e. af ástæðum sem þessum, vegna gengisbreytinga gjaldmiðilsins.

Þetta gæfi líka tilefni til, herra forseti, að ræða um óstöðugleikann, orsakir hans og stöðuna í þeim efnum. Það hefur verið talsverð umræða úti í þjóðfélaginu um það mál. Hana hefur þó lítið borið inn í sali Alþingis enn þá, sem má kalla nokkuð merkilegt, enda reynir ríkisstjórnin að halda öllum öðrum hlutum á dagskrá en þeim. Ég hef reyndar óskað eftir umræðum utan dagskrár um verðbólguna og efnahagshorfurnar og vonandi kemst hún fyrir áður en þing lýkur störfum.

Það er auðvitað margt fleira en þetta einstaka atriði, sem lýtur að bókhaldi eða skattskilum fyrirtækja, sem full ástæða væri til að ræða. Hér var í andsvari áðan rætt um stöðuna gagnvart heimilunum, hækkun verðtryggðra lána heimilanna sem vísitölumælingin um mánaðamótin mun væntanlega sýna mönnum fyrstu verulegu gusuna í og framhaldið í þeim málum. Það væri líka ástæða til að ræða, á þessu kvöldi góðærisins ef svo má að orði komast, samanber einkunnagjöf forstöðumanns Hagfræðistofnunar Háskólans sem talaði um að nú væri góðu árunum lokið í bili, hvernig þeim hefur verið þá ráðstafað. Hvernig var þeim varið að svo miklu leyti sem þau hafa verið raunveruleg eða til staðar, nema þá fyrir hina útvöldu? Það er ekki deilt um að ýmsir útvaldir hafa virkilega notið góðs af ástandi undanfarinna ára og tekið mikið til sín. En það er eins og góðærið hafi farið hjá garði hjá ýmsum.

Það var auglýsing í fjölmiðlum nú fyrir helgina. Þar var auglýst aftur og aftur „góðærið sem gleymdi fólkinu“. Ég veit ekki hvort hæstv. fjármálaráðherra hefur lagt eyrun við þegar auglýsingin heyrðist. Mér datt í hug að þetta væri einhver stjórnarandstöðuflokkur að auglýsa. Það var nú ekki. Það var verið að auglýsa Lesbók Morgunblaðsins undir þessum formerkjum, góðærinu sem gleymdi fólkinu. Ég er ansi hræddur um að ýmsum finnist að þetta góðæri hafi gleymt ýmsum, t.d. þeim sem gert hafa uppreisn vegna lélegra kjara á undanförnum vikum, starfsfólki umönnunarstofnana og fleirum.

Orsakir þessa óstöðugleika eru fyrst og fremst stórfelld mistök ríkisstjórnarinnar í hagstjórn og efnahagsmálum. Hið merkilega er að það örlar ekki á því að ríkisstjórnin horfist í augu við þann veruleika, þaðan af síður að hún ætli að gera eitthvað í málunum. Ég veit ekki hvort hæstv. fjármálaráðherra hefur lesið leiðara Morgunblaðsins. Það er helst kannski að maður geri sér vonir um að hæstv. fjármálaráðherra Árni Mathiesen gluggi af og til í Morgunblaðið. Hvað var fjallað um þar í leiðara núna rétt fyrir helgina? Það var skorað á ríkisstjórnina að taka þetta ástand alvarlega og sagt við ríkisstjórnina: Það þýðir ekki að bíða til haustsins því að þá verður það of seint. Þá er eins víst að hér verði allt komið upp í loft. Finnst hæstv. fjármálaráðherra hann fullsæmdur af því að hafa ekkert annað fram að færa hvað varðar efnahagsmál og óstöðugleika þeirra en þetta litla frumvarp sem á að heimila fyrirtækjunum að dreifa bókfærðum gengishagnaði á þrjú næstu rekstrarár? Það kann að vera ágætt að gera ráðstöfun sem slíka en hún vegur auðvitað ekki þungt.

Það hefur líka mikið verið rætt um hvort krónan sem slík sé sökudólgurinn. Það er ekki óeðlilegt að menn velti því fyrir sér í tengslum við breytingar af þessu tagi, eða ráðstafanir af þessu tagi og spyrji: Má búast við þessu sem viðvarandi ástandi? Á kannski bara að undirbúa, eins og gefinn er svolítill tónn um í greinargerðinni, framtíðarfyrirkomulag sem felur í sér aukna möguleika til sveiflujöfnunar, m.a. vegna þess að búast megi við gengisóróleika á næstu missirum og árum? Það er alveg augljóst mál að við því er að búast í einhverjum mæli enda sveiflast flestir gjaldmiðlar eitthvað, hvort sem þeir eru stórir eða smáir. T.d. er bandaríkjadollar á hraðri niðurleið. Því er spáð að hann eigi eftir að lækka enn og jafnvel ýmsir sem segja að hann þurfi að lækka mikið enn. Þannig verður stærsti gjaldmiðill heimsins að lúta þessum örlögum líka, hvað þá okkar litla króna.

Þegar betur er að gáð er reyndar ósköp lítið samræmi í stærð og sveiflum. Nokkrir litlir gjaldmiðlar hafa reynst hvað sterkastir og stöðugastir undanfarin ár, enda styrk hagstjórn þar á ferð og gjarnan vel stæð lönd eins og Noregur og Sviss, með öfluga seðlabanka á bak við gjaldmiðil sinn, til að halda stöðugleikanum. Stjórnvöld þar taka það verkefni alvarlega að hjálpa til og vísa veginn með skynsamlegri hagstjórn. Það er öfugt við Ísland.

Það er satt best að segja, herra forseti, ótrúlegt að heyra tilburði stjórnvalda til að kenna öllum öðrum um en þeim sjálfum. Það er ekki hátt risið á umræðum sem fara almennt út í að finna einhverja sökudólga eða þegar menn takast á um hlutina með því eina markmiði að kenna hver öðrum um, eins og reyndar var hér í umræðu áðan um ófremdarástandið í málefnum aldraðra og hvað varðar rými á hjúkrunarheimilum. Þá tókst mönnum að ræða nánast eingöngu í 20 eða 25 mínútur um hverjum þetta væri að kenna. (Gripið fram í.) Þau orð voru reyndar ekki notuð, það var einhver að tala um hvolpa í þessari umræðu.

Krónan er ekki sökudólgurinn. Það er augljóst mál. Í tvö til þrjú ár hafa menn bent á að við sigldum háskalega braut ójafnvægis sem gæti ekki endað öðruvísi en með stórfelldu bakslagi. Ríkisstjórnin tók það ekki mjög alvarlega, var það? Örlaði eitthvað á aðgerðum hjá ríkisstjórninni árin 2003–2005 til að reyna að fyrirbyggja að gengi krónunnar færi upp úr öllu valdi og kæmist í þvílíkt ójafnvægi, svo að lokum þyrfti það að brotna eða hrynja með einhverjum hætti? Aldeilis ekki. Hér voru haldnar ræður yfir því hvað þetta væri allt saman stórkostlegt, fullkomið og frábært og enginn þyrfti að hafa neinar áhyggjur. Svo fengu menn þetta auðvitað í andlitið, og býsna hastarlega að segja má og vonum seinna sem eitthvað fór þó að gerast í þeim efnum. Það var ljóst að þeim mun lengur sem það drægist þeim mun líklegra yrði að bakslagið yrði stærra. Það er mjög óheppilegt að magnaðar séu upp sveiflur af þessu tagi, langt umfram það sem nokkur efni eru til. Það hefur ríkisstjórnin gert.

Ríkisstjórnin ber mjög veigamikla ábyrgð á því jafnvægisleysi sem hér hefur skapast. Það er alveg borðleggjandi. Það þarf ekki að sækja rök í ræðuhöld okkar stjórnarandstæðinga í þeim efnum þótt hægt væri. Það nægir að lesa heftið Peningamál Seðlabankans aftur í tímann. Ég fullyrði að í síðustu 10 af 12 heftum Peningamála sem komið hafa út undanfarin þrjú ár eru þessi varnaðarorð höfð uppi, um að þetta jafnvægisleysi geti ekki gengið, þetta hljóti að fara illa o.s.frv. Ríkisstjórnin hefur daufheyrst við þessu og oft og tíðum gert hið gagnstæða við það sem skynsamlegt er talið af hálfu aðila eins og Seðlabankans og margra annarra.

Ég og minn flokkur höfum í tvígang, á tveimur þingum, flutt tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. Hann er ekki fyrir hendi. Hann hefur glatast. Það er bara veruleikinn. Verðbólga sem mánuð eftir mánuð og missiri eftir missiri er langt út fyrir verðbólguviðmið Seðlabankans og spár sem ganga út á verðbólgu hátt í 10%, jafnvel í býsna langan tíma, er náttúrlega ekkert grín. Þar fyrir utan hafa spárnar ekki allar gengið eftir og eru sumar nokkuð langt frá því, eins og glæsi- og glansspár fjármálaráðuneytisins sem illu heilli er komið með þau mál á sína könnu eftir að þeir slátruðu Þjóðhagsstofnun.

Það væri kafli út af fyrir sig, herra forseti, að fara aðeins yfir þjóðhagsspána fyrir yfirstandandi ár. Hvar er hún er stödd núna, þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins frá því í haust? Ég hygg að núverandi hæstv. ráðherra hafi þá verið kominn í embætti og beri ábyrgð á henni. Að minnsta kosti vinnur hann samkvæmt henni. Þar er ekki beint spáð þessum verðbólgu- og gengismálum sem við nú stöndum frammi fyrir.

Það hefur líka verið til siðs að kenna útlendingum um, vondum útlendingum. Það gerir sérstaklega hæstv. forsætisráðherra. Ég man ekki hvort hæstv. fjármálaráðherra hefur verið iðinn við þann kola. En hæstv. forsætisráðherra hefur sérstaklega haft á hornum sér hvað útlendingar hafa verið vondir við Íslendinga upp á síðkastið, ekki síst Danir. Þeir hafa nú löngum verið okkur þungir í skauti, Danir. Þessi íþrótt gengur út á að útlendingar hafi með ósanngjörnum og óheiðarlegum hætti, næstum því að segja, spilað á þetta ástand. En þeir bjuggu það ekki til. Það er alveg ljóst, herra forseti. Það gerðum við sjálf og fyrst og fremst ríkisstjórnin. Það er eins og hver annar brandari að ætla að væla undan því og reyna að draga upp þá mynd að erlendir aðilar á markaði sem telja sig sjá viðskiptatækifæri í ástandi sem hér hefur skapast með vaxtamun milli Íslands og annarra landa, eða hvað það er annað, séu þar með orðnir sökudólgar.

Þetta er m.a. til marks um það, herra forseti, og því geri ég þetta að umtalsefni, að ríkisstjórnin er á afneitunarstigi. Hún ræður ekki við að horfast í augu við afleiðingar eigin stefnu eða stefnuleysis, aðgerða eða aðgerðaleysis. Oft má vart á milli sjá hvort er verra. En hún er í því að kenna fyrst og fremst öllum öðrum um en sjálfri sér. Það bendir ekki til að sú naflaskoðun, sú sjálfsgagnrýni sem er óumflýjanleg ef ríkisstjórnin ætlar að hafa forustu um að leiða efnahagsmálin inn á betra spor, eigi sér stað.

Hver er staðan? Ekki er annað vitað en að ríkisstjórnin ætli að sigla áfram eftir nákvæmlega sömu leiðarljósum. Helst vill hún á nýjan leik koma hagkerfinu í nýjan hring þar sem hægt væri að bjóða í nýja veislu með áframhaldandi þá, þegar það kemst í gang, viðskiptahalla, skuldasöfnun og jafnvægisleysi í þjóðarbúinu. Kannski kemst á tímabundið stutt ástand jafnvægis og það er svolítið gefið í skyn í þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins, þeirri nýju. En hvað á það að standa lengi? Ef næsti dans felur í sér þrjú gríðarleg stóriðjuverkefni og ríkisstjórnin heldur við skattalækkanir sínar, sem áformaðar eru um næstu áramót, þá verður það ekki lengi.

Menn halda kannski að þetta sé allt í lagi, þá séu menn komnir upp úr öldudalnum og geti byrjað á nýjan leik. En það er ekki svo. Með hverjum nýjum hring sem hagkerfið tekur þá lækkar skútan í sjó. Þetta ástand, þessir endurteknu hringir eru ávísun á vaxandi skuldsetningu þjóðarbúsins. Hver ný umferð með tímabili þenslu og viðskiptahalla leiðir einfaldlega til að skútan sekkur dýpra og dýpra í sjó með skuldatölum, með skuldaviðmiðum sem slá öll met á heimsvísu. Það eru eiginlega öll vafasöm heimsmet fallin sem hægt er að fella í þessum efnum: Hvað varðar skuldir heimilanna, hvað varðar skuldir atvinnulífsins og hvað varðar skuldir þjóðarbúsins út á við. Það er bara þannig. Við erum væntanlega núna, eftir að skuldir heimilanna fóru vel yfir 200% af ráðstöfunartekjum undir lok síðasta árs, með skuldsettustu heimili í heimi. Við höfum í nokkur missiri verið með skuldsettasta atvinnulíf í heimi, þ.e. meðal þróaðra ríkja, þeirra sem eru aðilar að efnahags- og framfarastofnuninni. Kennitölurnar sem mæla skuldsetningu þjóðarbúsins í heild, eða nettó út á við, slá í sömu átt. Við erum þar að minnsta kosti komin upp að hliðinni á þeim ríkjum, einum til tveimur, sem hafa verið verst stödd í þessum efnum og siglum fram úr þeim.

Það er ekki þannig að lausnin sé fólgin í að gíra alla hluti aftur inn á sama spor og fara í nýjan hring. Þá fyrst endar þetta með ósköpum, í næsta eða þarnæsta hring. Þjóðarbúið kemst þannig í greiðsluþrot. Það getur ekki farið öðruvísi. Þá er ég hræddur um að hinar glæstu lánshæfismatseinkunnir færu að gerast ærið óhagstæðar.

Það er auðvitað til bóta að hjálpa útflutningsfyrirtækjunum sem búið hafa við þessi hörmulegu rekstrarskilyrði undanfarin ár. Ef þessi takmarkaða sveiflujöfnun má verða til þess og telst sanngjörn í þeim efnum munum við ekki leggjast gegn því og þvert á móti styðja það. Ekki veitir af að hlúa að þeim greinum sem hafa greitt fórnarkostnaðinn af stóriðju og skattalækkunaræði ríkisstjórnarinnar undanfarin missiri. Þar ber sjávarútveginn kannski hæst og þar með þau miklu áhrif sem þetta hefur haft á tekjur hans, afkomu og lífskjör, ekki síst á landsbyggðinni eða við sjávarsíðuna. Síðastur manna skal ég lasta að eitthvað verði gert í þeim efnum. Sama gildir að sjálfsögðu um útflutningsiðnaðinn. Því miður, herra forseti, verður kannski næstum því að tala um leifarnar af honum, það sem enn er eftir í landinu af honum. Ekki veitir af því að laga þar til stöðuna.

Hitt er auðvitað grátlegt að þessar ráðstafanir munu ekki gagnast þeim fyrirtækjum sem þegar eru flúin úr landi, farin á hausinn eða hafa hætt starfsemi. En þau eru mörg.

Ég sé því miður ekki fram á að ráðstafanir af þessu tagi dugi til að koma í veg fyrir það sem margir telja að sé fram undan, að áfram stefni í verulega rekstrarerfiðleika minni fiskvinnslufyrirtækja sem muni t.d. ekki ráða við þær aðstæður sem við þeim blasa. Slíkar spár hef ég heyrt.

En þetta litla mál er ekki nema eins og nöglin á litla fingri í þessari umræðu allri saman, herra forseti, sem ég hefði að mörgu leyti talið eðlilegt að við hefðum notað síðustu sólarhringa þinghaldsins til að ræða um.