132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Tekjuskattur.

793. mál
[15:06]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þó að það sé eflaust rétt hjá hv. þingmanni að nú um stundir sé rétt undir helmingur útflutningstekna okkar sem kemur af evrusvæðinu þá breytir það ekki því að það er stærsti einstaki markaður okkar og við vitum öll sem hér erum að sá markaður á ekki eftir að gera annað á komandi árum en að stækka með nýjum aðildarríkjum og með nýjum svæðum sem koma inn í það myntsamstarf.

Ég held þó að dómur hv. þingmanns um peningamálastjórnina hafi verið ágætur í lok þessara orðaskipta okkar þegar hann vakti athygli á því að það væri kannski ekki af miklum árangri að státa í peningamálastjórninni. (BÁ: Ég sagði að það gætu verið skiptar skoðanir …) Að það gætu verið skiptar skoðanir um það, orðaði hv. þingmaður. Það er einfaldlega þannig að reynsla okkar af því að stýra sjálf genginu, vöxtunum, er sú að hér eru reglulega á nokkurra ára fresti gríðarlegar sveiflur í gengi. Við þurfum að hækka vexti umfram það sem þekkist að ég held í iðnríkjum okkar daga meira og minna, aftur og aftur til að reyna að ná einhverju taumhaldi á þeirri verðbólgu sem stefnir í að verði á þessu ári 6%. Samkvæmt þeim viðmiðunum sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gaf hér áðan þýddi 6% verðbólga rétt um 50 milljarða skuldaaukningu heimilanna á einu ári. Ég held að út af fyrir sig þurfi ekki frekari vitnanna við. Ég held að tilrauninni sem slíkri sé lokið og það vantraust sem nú hefur farið vaxandi, bæði innan lands og utan lands á því að við eigum að fara með peningamálastjórnina sjálf sé auðvitað til vitnis um að við þurfum til langframa að huga að því að verða hluti af stóru og öflugu myntsvæði.