132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Tekjuskattur.

793. mál
[15:21]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla að halda mig við að ræða það frumvarp sem við erum að ræða en ekki eitthvað allt annað, verðbólgu og gengismál almennt.

Þetta frumvarp er að sjálfsögðu lagt fram með stuttum fyrirvara vegna þess að gengisfellingin kom með stuttum fyrirvara. Hún var ekkert að koma fyrir 1. apríl. Hún kom eftir 1. apríl þannig að að sjálfsögðu var ekki hægt að bregðast við henni fyrr og þess vegna er eðlilegt að frumvarpið komi fram með stuttum fyrirvara. Margir áttu von á að gengisfellingin kæmi miklu síðar. Flestir voru búnir að spá því undir haustið en aðrir að hún kæmi fyrr og flestir höfðu spáð því að hún kæmi hægt en aðrir, og þar á meðal ég, voru búnir að spá því að hún kæmi skarpt og hratt, það liggi í eðli málsins. Nú er gengið sem sagt ljómandi gott, það er u.þ.b. 130 eins og menn telja að sé jafnvægisgengi.

Það sem verið er að bregðast við er að í lok ársins 2001 lögðum við af hin ágætu verðbólgureikningsskil sem Íslendingar höfðu búið við í 20 ár, og eru sennilega ein bestu reikningsskil sem til voru í heiminum, þ.e. þau sýndu raunsannasta mynd af stöðu fyrirtækja með því að meta inn í gengishagnað og gengistap, verðbólguhagnað og verðbólgutap. Því miður var heimurinn ekki jafnskynsamur og við Íslendingar en til þess að skera okkur ekki eins mikið úr var ákveðið að fórna þessum ágætu reikningsskilum en þau hefðu leyst þennan vanda gjörsamlega sem við erum að ræða hér.

Ekki má tala um þetta mál öðruvísi en að geta þess að skattur á hagnað fyrirtækja hefur að sjálfsögðu verið stórlækkaður, úr því að vera upphaflega 50% í 45%, síðan 30% lengi vel og niður í 18% þannig að þetta verðbólguskot kemur ekki eins illa við fyrirtækin. En það sem um er að ræða, eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, er að fram kemur gervihagnaður hjá fyrirtækjum þegar gengið batnar og erlendar myntir og erlend lán lækka í verði og þennan gervihagnað er svo verið að skattleggja en síðan þegar gengið fellur kemur hann aftur til baka sem tap og það er það sem verið er að bregðast við.

Í öðrum löndum er allur gangur á þessu. Getið er um það í greinargerð hvernig þetta er í Danmörku og Svíþjóð og ég held að rétt sé að skoða það eins og menn eru að hugleiða að gera en gæta þó að því að hafa sambærilega reglu og er í útlöndum til að einfalda samskiptin við erlenda hlutabréfamarkaði og því um líkt.

Hér hefur verið rætt töluvert mikið um verðbólgu og verðtryggingar. Þessi umræða er mjög athyglisverð vegna þess að meginhvatinn, megindriffjöðrin á bak við verðbólguna undanfarin ár hefur verið verðhækkun á fasteignum, íbúðum almennings. Þær hafa hækkað miklu meira en 50%, sennilega um 70–80% á meðan skuldirnar hafa ekki hækkað nema um 8%. Hrein eign landsmanna er því að stóraukast. Sumum þykir það slæmt, öðrum þykir það ágætt.

Svo má ekki gleyma því hver það er sem nýtur verðtryggingarinnar. Það er alltaf talað um að bankarnir njóti verðtryggingar. Það er alls ekki rétt. Bankarnir njóta einskis, þeir taka vaxtamun. Það eru lífeyrissjóðirnir sem eru aðalfjárfestar á Íslandi og verðtryggingin kemur þeim til góða. Það eru lífeyrissjóðirnir sem njóta verðtryggingarinnar, þ.e. lífeyrisþegarnir. Það er ekki hægt að verðtryggja lífeyri nema náist inn ávöxtun umfram verðlag á eignir lífeyrissjóðanna og verðtryggingin hjálpar til þess. Þetta er kannski sá endi sem menn ættu að hugleiða líka þegar talað er um verðtryggingu og verðbólgu.

Ég styð þetta frumvarp eindregið. Ég tel það vera mjög nauðsynlegt til þess að fyrirtækin séu ekki með einhvern gervihagnað sem er skattlagður og kemur svo fram sem tap nokkrum árum seinna eða ári seinna.