132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Tekjuskattur.

793. mál
[16:02]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmönnum fyrir jákvæðar undirtektir við efni þessa frumvarps og að mörgu leyti athyglisverðar umræður sem því hafa fylgt. Það hefur einkennt málflutninginn að ræðumenn hafa verið jákvæðir í garð frumvarpsins en hafa síðan sagt að þeir hefðu viljað sjá eitthvað annað og eitthvað meira og finnst ríkisstjórnin ekki vera að sinna verkefnum sem hún ætti að taka á miðað við aðstæður eins og þeir sjá þær í dag. Mest hefur borið á því að hinir lægst launuðu hafi verið nefndir til sögunnar, að ríkisstjórnin hafi ekki verið að hugsa um hag þeirra. Eins hefur verið rætt um hinn meinta óstöðugleika á genginu, um gengismálin og hagstjórnina yfirleitt, stöðu útflutningsiðnaðarins og þar fram eftir götunum.

Því er til að svara að það er langt frá því svo að ríkisstjórnin hugsi ekki um hag hinna lægst launuðu. Ég held að það sé leitun að því tímabili þar sem kaupmáttur hinna lægst launuðu hefur hækkað eins mikið og á því tímabili sem þessi ríkisstjórn hefur setið.

Það vill þannig til að í efnahagsspá fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir því að á næsta ári muni kaupmáttur launa halda áfram að hækka og kaupmáttur ráðstöfunartekna aukast heldur meira en kaupmáttur launa. Það helgast af þeim skattalækkunum sem ákvörðun hefur verið tekin um að muni taka gildi um næstu áramót og einnig bar hér á góma.

Það hefur beinlínis verið sagt að ríkisstjórnin neiti að tala um kjör hinna lægst launuðu. Ég kannast ekki við að hafa neitað því eða hafa á nokkurn hátt reynt að leggja stein í götu þeirra sem hafa barist fyrir bættum kjörum sínum. Ég hef hins vegar látið í ljós áhyggjur af því að þær hækkanir sem þeir lægst launuðu, eins og þeir sem hér voru nefndir til sögunnar af hálfu hv. þm. Ögmundar Jónassonar, sem eru með 105 þús. kr. á mánuði, hafa verið að sækja að undanförnu muni færast upp stigann — eins og ég hef orðað það að klifrað verði upp eftir bakinu á þessum aðilum og í hlutfalli við aðra verði eftir örfáa mánuði lítið eftir af þeim hækkunum sem þeir hafa fengið. Ég vona að ég reynist ekki sannspár í þessum efnum og að þessir aðilar geti notið þeirra hækkana sem þeir hafa fengið í samningum við vinnuveitendur sína að undanförnu án þess að aðrir reyni að nýta sér þá stöðu sem þeir hafa verið í.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ræddi nokkuð gengismálin og þær miklu fjárfestingar sem hér hafa verið að undanförnu. Það má segja að rót þess sterka gengis sem við höfum búið við undanfarin ár sé mikill hagvöxtur og síðan hafa komið inn í það breytingar á húsnæðismarkaði og eins hin svokallaða krónubréfaútgáfa síðasta haust. Hann gerði einnig að umræðuefni spár fjármálaráðuneytisins, vildi frekar gera lítið úr þeim. Ég held að þær hafi reynst býsna þokkalegar, a.m.k. að undanförnu, þó að teknu tilliti til þess að gengisspár ráðuneytisins hafa ekki gengið alveg nákvæmlega eftir, sérstaklega ekki þegar menn miða við tímasetningar. En það vill hins vegar þannig til að í þessu eins og svo mörgu öðru miðum við við almanaksárin. Ég veit ekki hvort mönnum finnst þá að efnahagsspáin fyrir síðasta ár, árið 2005, þar sem því var spáð að gengisvísitala mundi hækka fyrir lok ársins — að mönnum finnist það vera neitt mikil skekkja þegar sú spá gengur eftir með tveggja mánaða biðtíma í upphafi þessa árs. Það má því kannski segja að sú spá hafi, með þeim breytileika sem felst í þessum tveimur mánuðum, reynst býsna góð.

Verðbólgan hefur aðeins látið á sér kræla en eins og fram hefur komið hefur þetta að mestu leyti verið eignaverðbólga og það hefur út af fyrir sig sínar afleiðingar líka eins og hv. þm. Atli Gíslason minntist á varðandi það sem hann telur að geti haft áhrif á vaxtabæturnar. Það er út af fyrir sig ekki komið í ljós hvort það er rétt en við munum sjá það. En burt séð frá því nákvæmlega hvernig það mun koma út í álagningunni, það er ýmislegt fleira sem getur haft áhrif á það, þá tel ég þó að þessi þróun hafi með öðru, og þá kannski ekki síst þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru á íbúðalánaveitingunum — þurfi að endurskoða vaxtabótakerfið og það verðum við að gera samhliða því að gengið er frá frumvarpi til breytinga um íbúðalánin. Þess er þá væntanlega skammt að bíða að við sjáum niðurstöður af minni hálfu í þeim efnum en þau mál sem varða Íbúðalánasjóðinn eru ekki komin nægilega langt til að beinlínis sé hægt að forma hugsanlegar breytingar á vaxtabótunum, það þarf að haldast í hendur.

Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og reyndar einnig hv. þm. Helgi Hjörvar töluðu talsvert mikið um evruna og töldu að stöðugleikans væri að leita í henni. Ég er ekki sannfærður um að svo sé, tel reyndar að ýmislegt þar sé kannski ekki alveg í þeim anda sem þau hafa viljað tala um þegar við höfum verið að fara yfir gengismálin hér, eins og t.d. það að Seðlabanki Evrópu er ekki með verðbólgumarkmið eins og við erum með í dag og þeir bankar sem við höfum helst verið að horfa til. Þeir byggja á peningamagnskenningum í sinni stefnu þó sumir hefðu viljað halda því fram að þeir hafi ekki fylgt þeim kenningum eftir eins og skyldi ef menn ætla að fara eftir sínum markmiðum — það hefur kannski verið heppilegt að þeir gerðu það ekki en það er annað mál. En ég held hins vegar að við ættum ekki að rasa um ráð fram í þessum efnum og ég vil, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, frekar horfa til Noregs og Sviss í þessum efnum þar sem nokkuð þokkalega hefur gengið að halda stöðugleika varðandi gengismál sjálfstæðra gjaldmiðla þessara þjóða. Þessar þjóðir búa auðvitað við aðstæður sem að mörgu leyti eru ólíkar okkar og þá kannski sérstaklega Sviss. Þar hefur ekki verið eins mikill hagvöxtur og hefur verið hér hjá okkur, þar hafa ekki verið eins róttækar breytingar í húsnæðislánakerfum og hér. Ég hef ekki sérstaklega orðið var við nýjar útgáfur í svissneskum frönkum að undanförnu.

Norðmenn búa auðvitað við sérstakar aðstæður með sína olíu og sinn olíusjóð en þrátt fyrir það, og kannski einmitt vegna þess, hafa menn þar kvartað yfir því að gengi norsku krónunnar væri helst til hátt. Útflutningsgreinarnar þar hafa einmitt verið að kvarta á svipuðum nótum og við höfum verið að kvarta hér sem höfum verið í forsvari fyrir sjávarútveginn síðustu missiri. Það er kannski ekki eins ólíkt um að litast í umhverfi okkar og því sem Norðmennirnir búa við og ætla hefði mátt af máli hv. þingmanns. Það er einnig athyglisvert í ljósi þess, sem einnig kom fram í máli hv. þingmanns, að Noregur og Sviss eru ríki eins og Ísland sem hafa nýtt sitt vatnsafl ríkulega á undanförnum árum og nýtt það til framleiðslu á áli án þess að það sé kannski sérstakt efnisatriði í umræðunni hér.

Það er ekki alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. Pétri Blöndal, hann hefur kannski misskilið mig á einhverju stigi, að hugmyndin að því að flytja þetta þingmál hafi komið til vegna þeirra gengisbreytinga sem hafa orðið núna á síðustu mánuðum. Hugmyndin varð til vegna gengisbreytinga undanfarinna ára. Ég hef verið með þetta mál í athugun í ráðuneytinu um nokkurt skeið, verið að skoða það hvernig að þessum málum er staðið í nágrannalöndunum. Það er staðið að þeim á býsna misjafnan hátt og þess vegna hefur það reynst tafsamari vinna að fara í gegnum það og meta kosti og galla þeirra aðferða sem þar eru notaðar og reyna að færa þær að staðháttum sem hér eru. En vegna þess að ég er sannfærður um að það sé skynsamlegt að fara þessa leið og vegna þess að ég er sammála hv. þm. Pétri Blöndal um að þarna er um gervihagnað að ræða og sannfærður um að þetta skiptir máli varðandi stöðugleikann í efnahagslífinu, stöðugleika fyrir útflutningsgreinarnar og stöðugleikann í genginu, taldi ég skynsamlegt að flytja þetta mál á þennan hátt núna og freista þess að koma í veg fyrir þau óæskilegu áhrif sem hækkunin á síðustu árum hefði valdið í greiðslum án þess þó að það kæmi til sem síðar kom í ljós varðandi gengið, en eins og ég sagði áðan hafði fjármálaráðuneytið spáð því að það mundi gerast. En það hefði auðvitað ekki haft áhrif fyrr en við uppgjör ársins 2006 á árinu 2007. Það sem knýr á um það að flytja þetta núna er það að uppgjör ársins 2005 mun fara fram í haust og því nauðsynlegt að þetta frumvarp verði afgreitt nú á vorþinginu til að hægt sé að taka mið af þeirri vinnu sem bæði fyrirtækin og skattkerfin fara í sumar og haust hvað þetta varðar.

Ég vil að lokum, frú forseti, þakka fyrir jákvæðar undirtektir við efnisatriði frumvarpsins.