132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Tekjuskattur.

793. mál
[16:19]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki að amast við því að Ásmundur Stefánsson, hvort sem hann er í hlutverki ríkissáttasemjara eða formanns nefndar sem er að fjalla um kjaramál, sæki ráðstefnu og komi þar fram, því fer fjarri. Ég er að gagnrýna að hann sé fulltrúi fjármálaráðherra og þar með ríkisstjórnarinnar í þessari umræðu. Ég vek athygli á og ítreka að eftir því sem ég best veit var óskað eftir því við hæstv. ráðherra að hann kæmi til ráðstefnunnar og ef hann ætti ekki heimangengt eins og stundum gerist að þá sendi hann fulltrúa sinn á vettvang. Þetta er það sem mér finnst vera undarlegt og ámælisvert í þessu efni.

Ég vek athygli þingsins á því að hér er að koma inn á borð þingmanna hvert málið á fætur öðru nýtt, við erum að ræða þrjú ný mál í dag. Er að vænta einhverra mála frá ríkisstjórninni (Forseti hringir.) sem varða kjör hinna lægst launuðu, því að það er krafa okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og (Forseti hringir.) krafa stjórnarandstöðunnar?