132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Tekjuskattur.

793. mál
[16:20]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef sótt marga fundi í vetur til þess að ræða kjör aldraðra og annarra. Ég veit eiginlega ekki hvaðan sú hugmynd kemur upp hjá mönnum að ég sé eitthvað að veigra mér við því að mæta á fundi jafnvel þó að um erfiðar umræður geti verið að ræða. Það vill bara þannig til að ég á ekki heimangengt til þess að mæta á þennan fund á morgun. Ásmundur Stefánsson er fulltrúi minn á þessum fundi, hann er að vinna verk fyrir ríkisstjórnina og er þar af leiðandi sá maður sem veit best hvernig þeirri vinnu vindur fram og hver staðan er.

Ef ég er beðinn um að tilnefna fulltrúa má ég þá ekki tilnefna þann sem ég tel að sé heppilegast að kynni sjónarmiðin hverju sinni? Ég tel einfaldlega að Ásmundur Stefánsson sé (Forseti hringir.) heppilegasti maðurinn til þess á morgun.