132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Tekjuskattur.

793. mál
[16:28]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra og Sjálfstæðisflokkurinn segja að það sé tími til að lifa og reykvískar fjölskyldur eigi aðeins það besta skilið í fjölskylduvænni borg. Þetta þýðir varðandi vaxtabæturnar að það er tími til að lifa við skert kjör. Ég vil mótmæla því þegar hæstv. ráðherra segir að það hafi ekki komið í ljós hvort vaxtabætur hafi verið skertar. Ég taldi fram fyrir u.þ.b. 600 einstaklinga á vef ríkisskattstjóra. Ég reiknaði hvern og einn einasta út samkvæmt reikningsformúlum ríkisskattstjóra og þess vegna segi ég það að vaxtabætur þúsunda einstaklinga eru skertar, annaðhvort felldar niður eða skertar mjög verulega.

Ég spurði líka sérstaklega og ítrekað: Hvernig stendur á því að skerðingarhlutfallið var ekki hækkað eins og aðrar viðmiðunartölur í skatti? Það er tími til að lifa fyrir þessa einstæðu móður við 220 þús. kr. skerðingu í ár. Ég spyr líka hæstv. fjármálaráðherra: Vill hann standa með mér við gerð þessa frumvarps og afgreiðslu þess á þingi, vill hann standa með mér að því að hækka skerðingarmörkin um 35% þannig að þessar fjölskyldur, þetta unga fólk sem reiknaði með vaxtabótum þegar það keypti íbúðir sínar og gerði fjárhagsáætlanir út frá því, vill hæstv. fjármálaráðherra standa að því að hækka skerðingarmörkin um 35% eins og fasteignamatið hækkaði á milli ára?

Þetta fólk sem ég er að tala fyrir hönd hefur ekki tíma til að lifa við þessi skertu kjör og það hefur heldur ekki tíma til að bíða. Ég vil líka taka það sérstaklega fram að þetta hefur ekki nokkurn skapaðan hlut með Íbúðalánasjóð að gera, hefur aldrei haft. Þetta er fólk sem hefur tekið þessi lán, það reiknar í upphafi með vaxtabótum og fær þær ekki.