132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

794. mál
[16:38]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum komin með þá sérkennilegu stöðu í þinginu að fjármálaráðherra er að mæla hér fyrir frumvarpi sem tekið er inn með afbrigðum, um olíugjald og kílómetragjald. Að þetta sérstaka gjald lækki eða að framlengd verði á því lækkun sem áður hafði verið samþykkt.

Hins vegar liggur fyrir í þinginu, og er nú hjá efnahags- og viðskiptanefnd, frumvarp til laga sem nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar fluttu í upphafi þings og var þar 1. flutningsmaður Jóhanna Sigurðardóttir sem situr nú á forsetastóli. Það frumvarp tók líka til olíugjaldsins og kílómetragjaldsins en jafnframt tók það frumvarp til þess að lækkað yrði vörugjald af bensínlítrum þannig að bensín- og olíulítrinn yrði lækkaður tímabundið. Þetta frumvarp er til meðferðar hjá efnahags- og viðskiptanefnd. Því hlýtur að vakna sú spurning hvernig á því standi að ekki sé hægt að afgreiða það frumvarp Samfylkingarinnar sem þar liggur fyrir og þá hefði verið hægt að gera á því einhverjar breytingar og meiri hlutinn í efnahags- og viðskiptanefnd getað komið fram með breytingartillögur við það frumvarp ef hann hefði svo kosið því þetta liggur þar fyrir, virðulegur forseti.

Ég verð að segja það hér að við meðferð þessa máls í efnahags- og viðskiptanefnd munum við í Samfylkingunni leggja mikla áherslu á að bensínlítrinn verði lækkaður og að vörugjald á bensíni og olíu verði lækkað tímabundið til að takast á við þá hækkun á vísitölu sem nú er að verða vegna hækkana á heimsmarkaðsverði.

Ástæðan fyrir því að ég kem upp í andsvari er fyrst og fremst til að spyrja ráðherra hvernig standi á því að þeir hafi ekki bara tekið frumvarpið og afgreitt það út úr efnahags- og viðskiptanefnd og gert á því breytingartillögur.