132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

794. mál
[17:26]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Eins og ég sagði í stuttu andsvari áðan þá erum við að ræða tímabundna 4 kr. lækkun á olíugjaldinu sem er náttúrlega hlægilega lág tala en engu að síður ber að þakka það sem gert er. En lítið er það. Þetta er náttúrlega staðfesting á gagnrýni sem ég hef margoft látið koma fram hér þegar olíugjaldið var sett á og sett á þessi krónutala. Þá var það gert vegna þess að teknar voru þungaskattstekjur ríkissjóðs það árið og deilt í lítrafjöldann og fundið út hver niðurstaðan þyrfti að vera. Dugði samt ekki alveg vegna þess að menn voru að tala um hærri krónutölu en 45 kr. þá og það mætti andstöðu og var lækkað. Þá þurfti áfram tekjur í ríkissjóð til þess að vera ekki að gefa eftir og þá var fundið upp hið tvöfalda kerfi; þungskattskerfið var ekki lagt af nema að hluta vegna þess að allir bílar sem eru þyngri en 10 tonn þurfa að borga þar að auki þungaskatt og ekki bara þungaskatt af bílunum heldur þungaskatt af tækjunum sem dregin eru af vögnunum. Þetta er náttúrlega hlægilegt kerfi. Síðast áttum við töluverða umræðu um það og ég man eftir að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson gagnrýndi þetta mjög og hæstv. fjármálaráðherra reyndi að lempa andstöðu og óánægju í stjórnarflokkunum með því að segja að þetta yrði endurskoðað á árinu og vonandi stendur það til. Þetta er sem sagt frekar vitlaust kerfi.

Ég tók eftir því um daginn að hæstv. utanríkisráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, var að reyna að finna rök fyrir þessu gjaldi m.a. með því að menn keyptu sparneytnari bíla og allt það og það er alveg rétt. Þetta er umhverfisvænni orka o.s.frv. en við verðum auðvitað að hafa það í huga að bílarnir eru dýrari í innkaupi og þar sem svo lítill munur er á olíuverði og bensínverði eins og hér hefur verið gert að umtalsefni, þá er fjárhagslegur ávinningur okkar Íslendinga af því að skipta yfir í litla sparneytna dísilbíla mjög lítill, miklu minni en annars staðar. Við bentum á og ég er sannfærður um að innan skamms tíma koma gervihnattakubbar í bíla og það verður greitt þá eftir því hvernig þeir keyra um. Þar á meðal verður hægt, eins og ég hef áður gert að umtalsefni, að setja inn gjaldskrá sem væri t.d. þannig að flutningabílar sem ekið væri á nóttunni þar sem er minna vegslit greiddu þá lægra gjald. Þetta kemur. Evrópusambandið er farið að tala fyrir þessu og þessir kubbar munu koma fyrr en seinna. Breytingin yfir í olíugjaldið kom í raun og veru allt of seint. Sennilega hefði betur verið haldið í þungaskattskerfið með þeim breytingum sem við í Samfylkingunni lögðum til, það var að búa til nýjan lágan gjaldflokk fyrir litlu sparneytnu bílana. Að mig minnir kostar það 50 eða 60 þús. kr. á ári. En nóg um það.

Það sem við erum sem sagt að ræða um hér er þessi 4 kr. lækkun á olíugjaldinu, sem hæstv. fjármálaráðherra flytur í annað sinn og forveri hans einu sinni að mig minnir. Þetta eru náttúrlega hlægilegar tölur miðað við það svakalega orkuverð sem er á landinu, sem helgast af háu heimsmarkaðsverði, heimsmarkaðsverði sem er hátt út af ástandi í heimsmálum, það að ríkisstjórnin í Bandaríkjunum, sem er mjög herská undir forustu George Bush, forseta Bandaríkjanna, virðist ætla að efna til ófriðar í ýmsum löndum sem framleiða olíu. Það hefur þau áhrif á heimsmarkaði að olíuverðið rýkur upp. Styrjöld í Nígeríu hefur þessi áhrif, geysilega mikil notkun Kínverja og Indverja á olíu, allt kallar þetta á hærra verð. Síðast en ekki síst skilst mér að það sé líka þannig að það vanti bara hreinlega borpalla í heiminum til að dæla upp meiru og líka að það þarf fleiri borpalla vegna þess að það gengur orðið verr að dæla þessu hráefni upp úr jörðinni. Olíuhreinsistöðvar er talað um að vanti líka þannig að allt þetta hefur áhrif á heimsmarkaðsverð og það eru engar líkur á því, virðulegi forseti, að heimsmarkaðsverð á olíu muni lækka eitthvað á næstu mánuðum eða næstu árum. Við munum áfram búa við svimandi hátt olíuverð og orkuverð hér á Íslandi og heiminum.

Hér hafa verið gerðar að umtalsefni, virðulegi forseti, skatttekjur ríkissjóðs af umferð og bílainnflutningi. Það er rétt að það kemur fram í svari við fyrirspurn frá mér sem ég veit að er ættað úr fjármálaráðuneytinu en sett fram af samgönguráðherra að heildartekjurnar séu 47 milljarðar miðað við bráðabirgðatölur fyrir árið 2005. Það eru svakalegar tölur. Þetta er helmingshækkun frá árinu 1995, frá því að núverandi ríkisstjórnarflokkar tóku við. Hér var talað um Íslandsmet í skattheimtu af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég er alveg sannfærður um það að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks með fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins í því sæti er að slá heimsmet í skattheimtu af umferð og bílainnflutningi. Ég held að ekki sé hægt að finna nokkurt land sem er með viðlíka skattheimtu og hér hefur verið gerð að umtalsefni.

Við getum tekið dæmi. Áætlaðar virðisaukaskattstekjur af rekstri einkabíla, tæpir 9 milljarðar kr., voru 4,3 árið 1995. Áætlaðar virðisaukaskattstekjur af kaupum á einkabílum eru nú tæpir 9,3 milljarðar en voru 3,2 milljarðar árið 1995. Nú veit ég að hæstv. fjármálaráðherra mun væntanlega segja að þetta sé vegna þess hve ástandið sé gott í landinu og fleiri kaupi bíla. Auðvitað er það svoleiðis að fleiri bílar hafa verið keyptir, það er rétt.

Áfram getum við haldið. Ef við förum yfir í tekjur af notkun ökutækja þá eru það 18,7 milljarðar kr. og af bifreiðakaupum 19,4. Síðan eru aðrar tekjur sem ég gat hér um áðan sem eru 8,8 milljarða virðisaukaskattstekjur af rekstri einkabíla. Samtals gerir þetta í kringum 47 milljarða og nú er svo komið, virðulegi forseti, að þessar tekjur eru 4,8% sem hlutfall af landsframleiðslu en voru 3,7% árið 1995. Þetta segi ég hér, virðulegi forseti, vegna þess að það er sannarlega mikil skattheimta til ríkissjóðs og þess vegna er auðvitað mikið og gott svigrúm til þess að lækka álögur miðað við núverandi ástand eins og hv. þingmenn báðir tveir hafa gert hér að umtalsefni, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir. Mér þykir afar merkilegt og rétt að vekja athygli þings og ríkisstjórnar á því boði sem formaður Samfylkingarinnar hefur hér lagt fram. Verst er að við skulum ekki hafa þing á morgun. Ef einhver dugur væri nú í hæstv. ríkisstjórn ætti hún að þiggja það boð og slá til og gera þetta, keyra það í gegnum þingið og láta þetta virka strax inn í þá vísitölumælingu sem verið er að gera nú um þessar mundir sem mun svo fara út í verðtryggingu fyrir júnímánuð. Ég hygg að við munum sjá þar háar tölur.

Það er svo, virðulegi forseti, að nú í apríl er bensín- og olíuþátturinn sem vægi í vísitölu neysluverðs 6,7%, hefur hækkað um 0,4% frá því í mars. Vegna þess hvað olía og olíuvörur eru orðnar dýrar hækkar þessi hlutur. Hann var í janúar að mig minnir 4,9%. Þetta er svona til þess að setja þetta fram, virðulegi forseti, sem dæmi að húsnæðisþátturinn, hiti og rafmagn, er 26,4% vægi nú í apríl. Þetta er lítið skref ef svo má að orði komast til þess að freista þess að lækka verðbólgu sem hér er sett fram, bæði það frumvarp sem við í Samfylkingunni fluttum við upphaf þings sl. haust og það boð sem formaður Samfylkingarinnar hefur sett fram núna.

Virðulegi forseti. Ég hef gert hér að umtalsefni skatttekjur ríkissjóðs af umferð og bílainnflutningi. Má ég líka benda á það að áætlaðar virðisaukaskattstekjur af hverjum bensínlítra miðað við þá 30 kr. hækkun sem er búin að vera, ef við tökum bara einhverja svoleiðis tölu, er 6 kr. á hvern lítra. 80 lítra fylling á bíl gerir tæpar 500 kr. sem viðbótarvirðisaukaskattstekjur í ríkissjóð vegna þessara hækkana. Þá er borð fyrir báru. Ríkissjóður stórhagnast um þessar mundir á háu orkuverði sem m.a. kemur út af stríðástandi Bush-stjórnarinnar í Bandaríkjunum gagnvart Írönum og Írökum og öðrum. Á það virkilega að vera tekjuskattsstofn fyrir ríkissjóð á Íslandi um þessar mundir? Á það svo líka að fara þannig út í vísitöluna sem ég hef hér gert að umtalsefni og hækka vísitöluþáttinn og hækka verðbólgu og hækka svo afborganir á láni hjá fólki? Er það eðlilegt, virðulegur forseti, að hæstv. ríkisstjórn noti þetta sem skattstofn til að fá meiri tekjur í ríkissjóð?

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði hér áðan að sú hækkun sem við höfum verið að gera að umtalsefni á bensíni sé um 40 þús. kr. á hvern bíl. Má ég aðeins geta þess, virðulegi forseti, að það eru sennilega fáar fjölskyldur í landinu sem komast af með að reka einn bíl. Hún gat þess líka að það þyrfti þá í kringum 65 þús. kr. í auknar atvinnutekjur til að eiga fyrir þessari hækkun.

Hæstv. fjármálaráðherra orðaði það svo hér um daginn að þessi hækkun á olíuverði drægi þá úr kaupmætti og minnkaði þenslu. Það ber auðvitað að þakka fyrir svona hreinskilni og það má draga þær ályktanir að fjármálaráðherra og ríkisstjórnin vilji bara alls ekki gera þetta vegna þess að þetta háa orkuverð eigi að ganga yfir til að draga úr kaupmætti fólks. Þetta eru auðvitað bara staðreyndir en eru settar svona fram og ber auðvitað að þakka fyrir það.

Hér kom líka fram, virðulegi forseti, að 60% af hverjum seldum orkulítra, bensínlítra, renna beint í ríkissjóð. Þegar við höfum svo í huga allar þessar tölur sem ég hef farið með, skatttekjur ríkissjóðs af umferð og bílainnflutningi, þá er ljóst að sannarlega er hægt að gera þetta. Það er einmitt þess vegna, virðulegi forseti, sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir vísaði í, máli okkar til stuðnings, það frumvarp sem flutt var á 127. löggjafarþingi um tímabundna lækkun vegna þess háa heimsmarkaðsverðs sem þá var á bensíni. Ég hygg að það hafi verið eftir töluvert mikla baráttu og þrýsting frá Alþýðusambandi Íslands sem það var sett fram. Ef þörf hefur verið á því þá er virkilega þörf á því núna.

Við skulum líka hafa það í huga, virðulegi forseti, að kjarasamningar eru lausir 1. nóvember og þetta getur verið liður í því að koma í veg fyrir það sem gerist ef áfram heldur sem horfir með verðbólguna þá er enn þá meiri þörf á því núna. Þess vegna skil ég ekki hvers vegna ríkisstjórnin þrjóskast svo við að gera þetta sem við erum hér að leggja til, sérstaklega þegar haft er í huga að það er ekki tekjutap fyrir ríkissjóð ef svo má að orði komast. Það var ekki gert ráð fyrir þessum ofboðslegu tekjum af bensíninnflutningi og bensínsölu í ríkissjóð eins og það er að verða núna. Það má eiginlega segja að það flæði út úr ríkissjóði hvað þetta varðar.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ræddi hér áðan um áhrif þessa háa olíugjalds og háa eldsneytisgjalds á flutningskostnað til og frá landinu og landsbyggðinni. Það er alveg hárrétt, ég hef heyrt þetta líka að það sé komið fram á fylgiseðlum með vörusendingum hér innan lands að farið er að rukka fyrir eitthvert sérstakt olíuálag. Það er líka rétt, virðulegi forseti, að flutningsgjöld hafa verið að hækka og það er kannski ekkert óeðlilegt við það að flutningafyrirtækin velti þessum aukna mikla kostnaði út í verðlagið hjá sér, það er nú það sem menn hafa verið að vara við að ýmislegt svoleiðis gerist og við erum að sjá það.

Er það nú þannig að það sé gott fyrir segjum landsbyggðina eða fyrirtækjarekstur á landsbyggðinni að þetta haldi áfram að hækka? Ég hef nefnt þetta landsbyggðarskatta og þeir eru ekkert annað. Það eru til aðferðir til að lækka þetta. Það er t.d. eins og ég sagði hér áðan, það gæti verið leið með því að leyfa flutningafyrirtækjum sem flytja aðföng til og frá til atvinnusköpunar til að vinna úr hráefni sem skipað er að langmestu leyti hér upp á höfuðborgarsvæðinu, kemur til landsins svoleiðis, er flutt út á land og unnið eitthvað úr því, í mörgum tilfellum flutt svo hingað á höfuðborgarsvæðið til sölu. Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tók dæmi af kjötiðnaðarfyrirtæki á Norðurlandi og svona má lengi, lengi telja, og þetta virkar auðvitað á almennar neysluvörur fólks. Þetta hefur auðvitað mjög slæm áhrif á atvinnustarfsemi á landsbyggðinni og líka slæm áhrif á vöruverð sem þegar er allt of, allt of hátt.

Það má hins vegar geta þess, virðulegi forseti, að það eru til fyrirtæki, matvælafyrirtæki sem eru rekin á mörgum stöðum á landinu, eins og t.d. Bónus og ég hygg kannski önnur fyrirtæki eins og Samkaup og fleiri sem eru með nokkurs konar eigin flutningsjöfnun, að það sé sama verð um land allt og það er auðvitað virðingarvert. Ég hef heyrt frá fólki vestur á Ísafirði að það hafi fengið þá mestu kjarabót sem það hafi nokkurn tíma fengið þegar Bónus opnaði verslun á Ísafirði með lækkun vöruverðs.

Engu að síður eru ekki allir sem hafa stórverslanir hjá sér og það er kannski heldur ekki ástæða til þess að búa bara til einsleitan verslunarrekstur þannig að þetta snýr að öðrum og margir smákaupmenn og aðrir kvarta yfir þessu og ég tala nú ekki um að þeir sitja svo ekki við sama borð hvað varðar vöruinnkaup og þá er það enn verra. Það ætla ég þó ekki að gera að umtalsefni hér.

Ég vildi aðeins geta þess, sem ég sagði hér líka í stuttu andsvari, ég tek eftir því að stjórnarflokkarnir ætla ekki að standa við loforð sem þeir gáfu í kosningabaráttunni 2003 að gera eitthvað til þess að lækka flutningskostnað og skattheimtu ríkissjóðs af flutningastarfsemi í landinu. Ég hef getið um það áður, virðulegi forseti, og ætla að segja það einu sinni enn, í byggðaáætlun sem var svona „copy/paste“-áætlun hæstv. iðnaðarráðherra var því lýst að baráttu fyrir lækkun þessari væri lokið, það væri hætt við. Hæstv. iðnaðarráðherra Valgerður Sverrisdóttir sagði á fundi á Eyþingi að það væri ekki samstaða um það og eins og ég sagði hér áðan, það hefur komið fram í umræðu á þinginu að það samstöðuleysi hafi ekki verið í þingflokkunum og þá er enginn staður eftir nema hæstv. ríkisstjórn. Þar stoppar málið. Þar stoppar málið þrátt fyrir að búin var til skýrsla og gert ýmislegt í aðdraganda kosninga til þess að reyna að ganga í augun á fólki. Þetta eru hreinlega ekkert annað en svik, ekkert annað. Ég skil ekki enn, virðulegi forseti, af hverju hæstv. ríkisstjórn gerir þetta ekki vegna þess að tekjurnar eru sannarlega nægar, það á að hætta þessum aukaálögum og skattheimtu af landsbyggðarfólki.

Í lokin, virðulegi forseti, af því að ég sé að ég á ekki nema tvær mínútur eftir, ætla ég að ræða um þann þátt sem kemur hér nýr inn sem er um björgunarsveitirnar. Ég fagna því auðvitað að þetta eigi að gera vegna þess að björgunarsveitabílar og -tæki sem nota olíu eru nú ekkert alltaf að keyra á vegum heldur oft á tíðum uppi á jöklum og annars staðar þannig að það er óeðlilegt að þetta sé gert á þann hátt og því er sú breyting góð. En ég vil aftur spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í það hvort það væri ekki betra að fara þá leið sem ég nefndi hér áðan, þ.e. að björgunarsveitir geti lagt fram til einhverrar skattstofunnar reikninga yfir þá olíu sem þær hafa keypt á viðkomandi ári, skrá yfir þá bíla sem þær hafa keypt og hvað þær hafa notað þá mikið og þannig sé reiknuð endurgreiðsla til þeirra beint frá ríkissjóði vegna keyptrar olíu af þeirri krónutölu sem við erum ásátt um að björgunarsveitin borgi fyrir, sem á auðvitað að vera sem lægst, í stað þess að búa til enn einn flokkinn í kílómetragjaldinu í þungaskattinum eins og hér er verið að gera. Ég kann að vísu ekki þær tölur og er kannski rétt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í það ef hann getur svarað því: Eru svona teljarar í björgunarsveitabílum í dag eða verður farið eftir kílómetramælum? Eða eiga björgunarsveitir að fara að setja gömlu ökumælana í bílana sína sem getur kostað töluverðar þúsundir króna ef ekki tugþúsundir að setja þá í? Þá er það mikill aukakostnaður sem því fylgir og ég held að það sé ekkert endilega þjóðhagslega hagkvæmt að efna til þess.

Síðast en ekki síst, virðulegi forseti, þá er kannski ástæða fyrir hæstv. fjármálaráðherra að kanna það að setja gervihnattakubbana í björgunarsveitabílana ef þeir eru ekki þegar í þeim og þeir bara hreinlega borgi eftir því. Þá sjáum við þegar þeir eru keyrandi uppi á jöklum eða í leit að týndu fólki og þá er auðvelt að reikna út þann tíma og hvað þeir ættu að borga fyrir. Svo vildi ég, virðulegi forseti, beina til hæstv. fjármálaráðherra og efnahags- og viðskiptanefndar að skoða endurgreiðsluleiðina í staðinn fyrir þá leið sem hér farin. Ég fagna að sjálfsögðu þessari leið en minni svona á það næstu 20 sekúndurnar, virðulegi forseti, að enn er ekki komið til móts við bændur hvað varðar það að þeir fái endurgreiðslu vegna upptöku olíugjaldsins líkt og þeir höfðu í þungaskattskerfinu vegna þess að ég segi, virðulegi forseti: Mér fannst það alltaf vera hluti af starfskjörum bænda að þeir hefðu þann afslátt sem þeir höfðu af þungaskattinum. Hann féll út þegar olíugjöldin komu upp og þeir borga fullt olíugjald.