132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

794. mál
[18:16]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., með síðari breytingum.

Í umræðunni hefur ítarlega verið rætt um í hverju þetta frumvarp sé fólgið. Það felst fyrst og fremst í því að framlengja ákveðna stöðu sem hefur verið í gjaldtöku ríkisins á olíu, að hún verði áfram bundin í krónutölu og fylgi ekki hækkun olíuverðs o.s.frv. Ég ætla ekki að koma inn á þau atriði beint en þó óbeint, því að bæði olíunotkun og olíuverð hefur gríðarleg áhrif á efnahagslíf okkar og kostnað í daglegu lífi í rekstri bíla og einnig varðandi atvinnurekstur.

Þá vík að því sem var rætt undir liðnum Athugasemdir um störf þingsins þegar hæstv. fjármálaráðherra var inntur eftir því hvernig hann hygðist bregðast við varðandi hækkun á verði á olíu og bensíni. Hæstv. ráðherra sagði þá að hann vildi líta á málin heildstætt. Ég er sammála honum um að líta eigi á þessi mál heildstætt, að líta eigi á það heildstætt hvernig þeirri orkunotkun okkar er háttað sem tengist fyrst og fremst olíum og bensíni í flutningum, í akstri bifreiða og í atvinnustarfsemi þar sem olía er notuð. Ég held að ég horfi heildstætt á öll þessi mál.

Ég vil byrja á að segja að í þeirri umræðu lagði hæstv. fjármálaráðherra mér þau orð í mun, eitthvað á þá leið, að ég væri að tala fyrir lækkun á gjaldheimtu af olíu, þessari óendurnýjanlegu orku sem olían er, í því máli mínu. Það var fullkomlega rangt. Það sem ég sagði í þeirri umræðu var að ég hefði áhyggjur af hækkandi flutningskostnaði og kostnaði fólks, sérstaklega úti á landi, vegna hás olíuverðs. Ég spurði í framhaldi af því hvað liði afgreiðslu á tillögum um aðgerðir til jöfnunar á flutningskostnaði á landsbyggðinni sem lægju fyrir ríkisstjórninni. Mig minnir að hæstv. iðnaðarráðherra hafi sagt að þær lægju jafnvel hjá fjármálaráðherra, eða ýjaði að því að málið stæði fast hjá fjármálaráðherra, aðgerðir sem lögð var áhersla á að fara í í framhaldi af skýrslu nefndar um jöfnun flutningskostnaðar, sem unnin var í samgönguráðuneytinu og birt í janúar 2003, sem sýndi að flutningskostnaður hefði vaxið gríðarlega á síðustu árum. Talað var um að á einhverju árabili hefði flutningskostnaður jafnvel hækkað um hátt á annað hundrað prósent á föstu verðlagi, t.d. á milli Reykjavíkur og Ísafjarðar.

Það var reyndar ekki hægt að kenna það allt olíuverðshækkunum, fjarri því. En í þessari skýrslu er einmitt vikið að því að það væri e.t.v. ekki síst einokun eða fákeppni á flutningamarkaðnum sem hefði valdið þessum miklu verðhækkunum á flutningum en einnig að strandsiglingar, sem höfðu verið hinn valmöguleikinn í flutningum, hefðu lagst af. Það hefði gert það að verkum að fákeppnisumhverfið sem nú ríkti á flutningamarkaðnum á landi, þar sem einungis einn eða tveir risar ráða öllum flutningunum, skammta sér verð og skipta jafnvel á milli sín leiðum, hafi leitt til þess að flutningskostnaðurinn hafi hækkað svona gríðarlega en að sjálfsögðu er eldsneytið einn þáttur í því. Við vitum að hár flutningskostnaður er einmitt það sem nú skekkir hvað mest samkeppnishæfni atvinnulífs á landsbyggðinni, fyrirtækja sem þurfa að koma vörum sínum á markað, bæði stærsta markaðinn sem er hér á landi en einnig á markað erlendis. Til viðbótar við þennan flutningskostnað hafa útflutningshafnir líka verið lagðar af þannig að þær eru líklega bara tvær eða þrjár í landinu núna, raunverulegar útflutningshafnir fyrir almennar útflutningsvörur. Þá hafa útflytjendur orðið að skila vörum á útflutningshafnir á eigin kostnað. Þessi hækkun á flutningskostnaði hefur því orðið til þess að skekkja samkeppnisstöðuna mjög. Það sem ég kallaði eftir hjá hæstv. ráðherra voru aðgerðir í þeim efnum.

Af þessu tilefni og í tengslum við þetta hef ég lagt fram á undanförnum þingum þingsályktunartillögu um strandsiglingar. Fyrir þremur árum var meira að segja samþykkt í þinginu að vísa tillögunni til ríkisstjórnarinnar til nánari útfærslu. Strandsiglingar eru liður í því að gera flutninga umhverfislega hagkvæmari og auk þess ætti það líka að vera ódýrara í magnflutningum.

Stefna annarra landa er að stuðla frekar að sjóflutningum en landflutningum, m.a. til orkusparnaðar og til að draga úr útblæstri á gróðurhúsalofttegundum sem verða til við brennslu á olíu og einnig til að tryggja meira öryggi á vegum og gegn vegsliti. Tillaga okkar var svo endurflutt í vetur en hún hefur verið flutt á þremur undanförnum þingum. Ég vil leyfa mér að vitna til hennar, frú forseti, því að ég tók undir þau orð hæstv. ráðherra um daginn að taka ætti á þessum málum heildstætt. Einn mikilvægasti liðurinn í því eru strandsiglingarnar. En þingsályktunartillaga okkar um strandsiglingar, þar sem flutningsmenn eru auk mín hv. þingmenn Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson og hv. þingmenn Guðjón Arnar Kristjánsson og Sigurjón Þórðarson frá Frjálslynda flokknum, hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að undirbúa að strandsiglingar verði hluti af vöruflutninga- og samgöngukerfi landsins. Ráðherra móti stefnu og aðgerðaáætlun og leggi fram lagafrumvörp í þessu skyni, ef með þarf, þannig að ríkið geti tryggt reglulegar strandsiglingar til allra landshluta með því að bjóða út siglingaleiðir. Ráðherra láti meta kostnað við að halda uppi reglulegum strandsiglingum um allt land miðað við skilgreinda þjónustu og geri tillögur um siglingaleiðir sem bjóða á út. Ráðherra skili niðurstöðum til Alþingis eigi síðar en 1. febrúar 2006.“

Þetta mál var flutt í haust. Tillaga okkar hefur fengið mjög jákvæða umsögn allra aðila nema náttúrlega þeirra sem eru í flutningum á vegum landsins. Þeir vilja hafa þetta eins og það er og sjá sér mestan hagnað í því.

Það er vert að vekja athygli á umsögn Landverndar um þetta mál. Þar segir, með leyfi forseta, um strandsiglingar.

„Landvernd vill vekja athygli á að neikvæðar afleiðingar vöruflutninga á landi eru ekki eingöngu bundnar við slys og vegaslit. Landflutningar fela í sér allt að sjöfalt meiri losun koldíoxíðs en strandflutningar. Hefur losun koldíoxíðs frá landflutningum aukist um 67% á tímabilinu 1983–2002. Aukið magn koldíoxíðs í andrúmsloftinu er helsta ástæða þeirra hættulegu loftslagsbreytinga sem nú verða sífellt sýnilegri. Það blasir við að rík ástæða er til að efla strandflutninga hér við land til að draga úr hættu á slysum og sliti vega og til að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda.“

Þetta segir m.a. í umsögn Landverndar um þingsályktunartillögu sem ég er 1. flutningsmaður að ásamt öðrum. Við höfum flutt þetta mál áður, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, bæði með tilliti til öryggis- og umferðarmála og einnig til þess að vera með ódýrari valkosti í flutningum á þungavörum, ekki hvað síst í umhverfismálum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að halda þessum atriðum til haga. Þetta er hluti af stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í sjálfbærum samgöngum sem við höfum lagt áherslu á en við höfum einmitt flutt þingmál um sjálfbærar samgöngur.

Vert er að minna á að einnig stendur fast í fjármálaráðuneytinu að liðka svo til í lögum að kaupskipaflotinn sjái sér hag í að eiga heimilisfesti hér á landi, bæði hvað varðar kaupskipin sjálf og áhafnirnar. Eins og nú er er ekkert almennt kaupskip skráð hér á landi nema líklega eitt sem er í olíuflutningum meðfram ströndum landsins. Þetta passar ekki fyrir eyþjóð. Hluti af því að taka heildstætt á orku- og flutningamálum þjóðarinnar er að beita sér fyrir því að lagaumgjörð hér á landi sé með þeim hætti að kaupskipaflotinn sjái sér hag í að eiga hér heimilisfesti og að skipverjar, áhafnir á kaupskipaflotanum, sjái sér líka hag í að eiga hér heimilisfesti og lúta íslenskum lögum hvað varðar kaup og kjör og annað því um líkt sem lýtur að áhöfnum skipa.

Þetta situr líka fast hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra. Það er mínu viti mjög þjóðhagslega rangt hjá hæstv. ráðherra að sitja á þessum þáttum. Þetta er hluti af því að taka heildstætt á flutningamálum.

Þá vil ég líka að minna á að þegar litið er á flutningamálin heildstætt þá er raforkuverði haldið mjög háu til fyrirtækja og einstaklinga til að hægt sé að niðurgreiða raforkuna til stóriðju. Einstaklingar og minni fyrirtæki eru látin greiða mun hærra verð og verða jafnvel að fara út í olíunotkun sem er þeim hagkvæmara. Ég þekki dæmi þar sem meira að segja mjölvinnslur keyra á olíu, lýsisbræðslur keyra á olíu vegna þess að rafmagnið er of dýrt fyrir þær. Ég þekki dæmi um bakarí og fatapressur þar sem keyrt er á olíu vegna þess að rafmagnið er of dýrt. Það væri leið að lækka olíuna en væri ekki frekar leið að lækka raforkuna, hætta að niðurgreiða raforku til stóriðjunnar en láta ekki þessa aðila gera það? Mér er kunnugt um að menn verða að keyra dísilvélar til raforkuframleiðslu vegna þess að þeir búa bara við einfasa rafmagn.

Þetta er eitt af því sem mætti líka gera. Ég vil síðan minna á að í samgönguáætlun frá 2003–2014 er lögð áhersla á sjálfbærar samgöngur. Þar segir, með leyfi forseta:

„Helstu hnattrænu umhverfisáhrifin eru loftslagsbreytingar af völdum gróðurhúsalofttegunda. Séu þessi neikvæðu umhverfisáhrif metin til fjár má gera ráð fyrir að samfélagslegur kostnaður af þeim sé mikill. Samgöngur í dag og vöxtur þeirra fylgja því ekki markmiðum um sjálfbæra þróun, þar sem samgöngur hafa — þrátt fyrir jákvæð áhrif á samfélag og efnahag — …

Það er eitt af brýnustu verkefnum á nýrri öld að draga svo úr neikvæðum áhrifum samgangna, að þau falli innan marka sjálfbærrar þróunar, án þess að hinir miklu kostir góðra samgangna glatist.“

Þetta stendur hér í stefnumörkuninni ef hæstv. fjármálaráðherra hefur ekki lesið sína eigin stefnumörkun sem ríkisstjórnin stendur að varðandi uppbyggingu samgangna.

Það er einmitt talið eitt brýnasta verkefnið að leita hagkvæmustu kosta við uppbyggingu og rekstur samgangna á Íslandi, á sjálfbæran hátt. Tillaga okkar um strandsiglingar er einmitt liður í því. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði leggjum áherslu á almenningssamgöngur, öflugt almenningssamgangnakerfi einmitt sem lið í sjálfbærum samgöngum.

Við leggjum líka áherslu á að ríkið beiti ekki skattlagningu sinni á olíur og bensín beint til að mismuna atvinnulífinu eftir búsetu. En þannig er það nú við óbreyttar aðstæður. Því með svona flatri skattlagningu, eins og nú er á olíur og bensín, þá leggst slík skattlagning þyngst á dreifbýlisfólk, á atvinnulífið í dreifbýlinu, á þá aðila sem lengst þurfa að sækja vinnu, eru háðir því að keyra langar vegalengdir til vinnu. Skattlagningin eins og hún er nú praktíseruð er því að stórum hluta skattlagning á fjarlægðir hvað þetta varðar. Þess vegna hefur verið lögð áhersla á að það yrði fundin leið til að jafna flutningskostnað í atvinnulífinu, jafna flutningskostnað fyrir fyrirtækin sem stunda atvinnurekstur úti á landi. Hér hafa líka verið fluttar tillögur um að koma ætti til móts við það fólk sem er háð því að sækja atvinnu langan veg, eins og t.d. bændur landsins og fólk sem býr í sveitum þar sem stunduð er atvinna meðfram búinu, þar sem þessi skattlagning er mjög íþyngjandi fyrir þetta fólk. Þessi atriði vil ég nefna hér, því þær tillögur sem hér eru uppi um beita flatri lækkun á skatta ríkisins, af olíum og bensíni, gera engan greinarmun þarna á.

Það er líka fróðlegt að sjá, frú forseti, hvernig þessi svokallaða frjálsa samkeppni hjá olíufélögunum virkar. Því eins og hún kemur mér fyrir sjónir virðist nánast vera sama verð á olíum og bensíni um allt land, eða víða hjá afgreiðslustöðvum óháð hvaða olíufélag þar er. Ég er hér með alveg nýja útskrift í Blaðinu sem kom út núna um helgina, og þar stendur t.d.:

Verð á bensíni hjá Essó á Ægisíðunni, 126,1 kr. Verð hjá Olís í Álfheimum, 126,1 kr. Verð hjá Shell á Gylfaflöt, 125,6 kr. lítrinn. Atlantsolía Kópavogsbraut, 124,5 kr. lítrinn. Eitthvað sem heitir Ego Fellsmúla, 124,5 kr. lítrinn. Olís hjá Ánanausti 125,8. Þetta er nánast sama upp á krónu. Það munar örfáum aurum. Þetta á að heita samkeppni, frú forseti. Ég velti því fyrir mér hvort það hefði verið nokkuð verra þótt hér væri bara rekið eitt ríkisrekið olíufélag. Mundi það vera nokkuð verra? Af þeim litla mismun sem hér er á olíu og bensíni er að minnsta kosti er ekki hægt að sjá að um neina samkeppni sé að ræða.

Hins vegar sjáum við að verðið getur verið mun hærra úti á landi enda hafa aðilar þar skipt svæðunum á milli sín. Þeir hafa skipt afgreiðslusvæðunum á milli sín þannig að víða þar sem engin samkeppni er, er þjónustan jafnvel í lágmarki en verðið hæst. Ég held að á þessum lið þurfi líka að taka þegar við lítum á jöfnun og jafnrétti í þessum málaflokki (Forseti hringir.) og ég legg áherslu á að við eigum að keppa að sjálfbærum samgöngum og að orkunotkun sé sem minnst (Forseti hringir.) og sem hagkvæmust þegar á þetta er litið í heild sinni.