132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

794. mál
[18:58]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var ekki að segja að þetta væri ekki hægt og ég var ekki að segja að þetta væri eitthvað vitlaus aðgerð enda sanna dæmin það, menn hafa farið í svona aðgerðir. En það sem kemur mér á óvart er hvað þetta er afdráttarlaus afstaða Samfylkingarinnar, hvað hún er búin að taka sterka afstöðu til þessa sérstaka máls án þess að skoðaðir hafi verið aðrir kostir sem hugsanlega kæmu til greina ef efnahagsástandið væri þannig að það væri skynsamlegt að fara út í svona aðgerðir.

Ég var ekkert að tala um að þetta væru lægri fjárhæðir en þær skattalækkanir sem Samfylkingin hefur verið leggjast á móti. En að þetta komi jafnar út, það leyfi ég mér að stórefast um því að þeir sem fengju mest út úr þessu eru þeir sem eiga flesta og stærstu og bensínfrekustu bílana. Það held ég að sé alveg augljóst. Sá sem er á litla sparneytna fjölskyldubílnum, sem Steingrímur J. Sigfússon var að hvetja til að ýtt yrði undir, fengi minnst út úr þessu. Það væru stóru drekarnir sem fengju mest.