132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Framhald þingfundar.

[20:01]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hafði vonast til þess að forseti mundi upplýsa eitthvað um hvað til stæði með fundarhaldið í framhaldi af orðaskiptum sem urðu fyrir kvöldmatarhlé og hvort tíminn hefði verið notaður til þess að reyna að ræða eitthvað saman um framhaldið í hléi. Það kemur mér satt best að segja mjög á óvart að hæstv. forseti skuli ætla að halda því til streitu að fara í 3. mál á dagskrá og ræða það og ég ítreka þess vegna spurningar til forseta um það hvort ekki sé að vænta einhverrar viðleitni af hálfu forseta til þess að ná samkomulagi um tilhögun mála, um fundarhaldið hér, þó ekki væri nema næstu klukkutímana og hvernig fundarhaldi verði háttað í kvöld og hvenær verði þá hætt í kvöld.

Ef það verður engu að síður niðurstaðan og þrátt fyrir mótmæli okkar að þetta 3. mál á dagskrá verði tekið fyrir óska ég eftir því að einhverjir fulltrúar Framsóknarflokksins komi og verði viðstaddir umræðuna og þá alveg sérstaklega hæstv. forsætisráðherra. Ég vil fá að vita hvort það er jafnmikið kappsmál hjá Framsóknarflokknum og með stuðningi forsætisráðherra sem þetta frumvarp um að gera ÁTVR að hlutafélagi er lamið hér inn í störf þingsins á allra síðustu metrunum með því offorsi sem hér á að fara að gera. Ég held að það gerði þeim ekkert nema gott, hæstv. ráðherrum, að vera hér með okkur þessar síðustu vökustundir. Það hefur ekki sést mikið af þeim hingað til og alveg sérstaklega formönnum stjórnarflokkanna. Ég spurði eftir þeim fyrr í dag, hvernig það væri með þá, hvort þeir væru yfir höfuð ekkert hér við sín störf í þinginu og hvernig ætti þá að standa að verkstjórn hér á síðustu metrunum, þ.e. af hálfu meiri hlutans.

Þetta blæs ekki mjög byrlega, virðulegur forseti, og ég held að forseti gerði réttast í því að athuga sinn gang og leita eftir einhverju samkomulagi um hlutina.