132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Framhald þingfundar.

[20:05]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég skildi ekki alveg orð forseta þegar hann sagði að hann ætlaði að taka á dagskrá eða ræða mál nr. 3 og 4. En hann gat þess ekki hvort hann stefndi að því að ljúka umræðum um bæði málin í kvöld. Það er nú töluverður skilsmunur þar á þannig að ég vildi biðja hann að orða hugmyndir sínar skýrar því að allt það skiptir máli.

Hins vegar vekur það okkur hér í stjórnarandstöðunni furðu að brýnasta mál þessarar ríkisstjórnar í dag skuli vera einkavæðing ÁTVR, að það sé brýnasta málið þegar við horfum upp á að það þarf að taka á málefnum starfsfólks á elli- og hjúkrunarheimilum, í umönnunargeiranum, það þarf að taka á málum láglaunafólks, en þá er það þetta mál, einkavæðing ÁTVR, sem er mesta kappsmál þessarar hægri einkavæðingarríkisstjórnar. (Gripið fram í.) Ef hv. þm. Pétur Blöndal veit ekki hvað felst í einkavæðingu, það felst í því að þá er breytt um aðila sem fer með það mál sem lýtur lögum um einkarekstur og þýðir uppsagnir hjá öllu því starfsfólki sem þar starfar, þýðir uppsagnir hjá þeim og þá væntanlega kjaraskerðingu sem er markmið þessarar ríkisstjórnar, ein af þessum árásum á opinbera starfsmenn, gegndarlausum árásum á opinbera starfsmenn, að ná af þeim kjörum og ná af þeim réttindum. Er þetta, herra forseti, brýnasta mál ríkisstjórnarinnar í dag, að keyra þetta áfram?

Ég vil inna forseta eftir því hvort það sé í rauninni svo að þetta sé brýnasta mál ríkisstjórnarinnar sem honum sem forseta hafi verið falið að koma í gegn að hafa forgang umfram öll önnur mál hér á þinginu. (Gripið fram í.) Ég vildi heyra líka hjá framsóknarmönnum, hvort þeim sé mjög annt um það að einkavæða ÁTVR. Það væri fróðlegt að heyra þeirra sjónarmið. Hæstv. forsætisráðherra ætti að vera hér viðstaddur, einkavæðingarráðherrann sjálfur, þegar þetta mál kemst á dagskrá. En ég ítreka og spyr forseta: Er það ætlunin að stefna að því að ljúka umræðum um þessi tvö mál eða vill hann bara reifa og kynna okkur stefnu ríkisstjórnarinnar — sem ég held að hún sé tiltölulega ein um — og láta svo þar við sitja í kvöld ef út í það er farið?