132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Stofnun hlutafélags um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.

734. mál
[20:19]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra um það hvort stjórnarflokkarnir báðir, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, leggi áherslu á að hlutafélagavæðing Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins verði að lögum nú fyrir vorið. Er það ríkisstjórninni kappsmál að svo verði? Þá er ég að spyrja sérstaklega um stjórnarflokkana báða, oddvita þeirra, formann Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Geir H. Haarde, og formann Framsóknarflokksins, Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra. Leggja þeir áherslu á að hlutafélagavæðing ÁTVR verði að lögum fyrir vorið? Er það forgangsatriði fyrir ríkisstjórnina að hlutafélagavæða Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins?

Síðan vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvað er það sem hann telur mikilvægasta framfaramálið sem næst með þessu frumvarpi? Er það að skerða réttindi starfsmanna, skerða lífeyrisréttindi þeirra, draga úr atvinnuöryggi þeirra? Hvað er það sem hæstv. fjármálaráðherra telur mikilvægast við þetta mikla framfara- og hugsjónamál sem ríkisstjórnin stendur að? Ég óska eftir skýrum svörum við báðum þessum spurningum.