132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Stofnun hlutafélags um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.

734. mál
[20:20]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin leggur fram frumvarp sem hún telur að rétt sé að samþykkt verði á Alþingi. Þegar hún hefur lagt fram frumvörp er það auðvitað í höndum Alþingis hvernig með þau er farið, hversu hratt er unnið og þá hvort og hvenær frumvörp eru samþykkt. Það er ekki ríkisstjórnarinnar að ákveða slíkt og ég tel að það þurfi ekkert að fara neinum frekari orðum um áherslur ríkisstjórnarinnar í þeim efnum hvað þau frumvörp varðar sem fram eru lögð.

Varðandi efnisatriði frumvarpsins þá er það, eins og fram kom í framsöguræðunni, rekstrarformið sem skiptir mestu máli um að ég tel skynsamlegt að breyta Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins í ÁTVR hf. Ég tel að það rekstrarform henti betur þjónustu- og verslunarstarfsemi eins og þar er um að ræða. Viðskipti ÁTVR eru við einstaklinga og fyrirtæki, flest í eigu einkaaðila, þannig að það má segja að starfsemi fyrirtækisins sé á markaði og því sé eðlilegasta rekstrarformið að um hlutafélag sé að ræða. Um það eru skýr lög og reglur, skýrar línur um hvernig að slíkum rekstri á að standa og ég tel að það sé besta formið í þessu efni.

Ásakanir um að það sé verið að reyna að rýra kjör starfsmanna á einhvern hátt eru algjörlega úr lausu lofti gripnar. Ég tel að starfsmenn þeirra fyrirtækja sem hafa verið einkavædd hafi ekki þurft að kvarta yfir því að þeirra viðurværi hafi verið eitthvað verra eftir að fyrirtækin voru orðin að hlutafélögum.