132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Stofnun hlutafélags um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.

734. mál
[20:22]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil upplýsa hæstv. ráðherra um að starfsmenn hafa kvartað yfir því að kjör þeirra hafi verið rýrð og það er óumdeilanlegt. Það eru ekki ásakanir, það eru staðhæfingar og það eru upplýsingar sem ég hélt að allir gerðu sér grein fyrir.

Hér hefur verið upplýst að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins eru áhugasamir um að hlutafélagavæða og markaðsvæða Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Ég hélt, hæstv. forseti, að innan beggja flokka væru uppi ólík og reyndar mismunandi sjónarmið hvað þetta snertir, og það hlægir mig þegar talað er um að það sé Alþingis síðan að ákveða. Við erum búin að fylgjast með því á undanförnum árum þegar þingmenn stjórnarmeirihlutans eru látnir ganga hér svipugöngin þvert gegn sannfæringu sinni og samvisku. Er það virkilega svo að ríkisstjórnin ætli núna í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna að efna til umræðu um (Forseti hringir.) þetta grundvallaratriði? (Forseti hringir.) Verði ríkisstjórninni að góðu. Verði henni að góðu.