132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Stofnun hlutafélags um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.

734. mál
[20:27]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var út af fyrir sig skilmerkileg greinargerð á muninum á ÁTVR og Ríkisútvarpinu. Hins vegar er það nú svo að nánast öll verslun innheimtir tekjur fyrir ríkissjóð eins og skilgreiningin var á ÁTVR.

Hins vegar varðandi þá spurningu hv. þingmanns um aðferðafræðina við að stilla upp efnahagsreikningnum þá er það ljóst að hægt er að fara mismunandi leiðir í því efni. Það má kannski segja að það sé í þessum efnum frekar en flestum öðrum ekkert sem er fullkomið og óumbreytanlegt. Frumvörpin eru ekki samin á sama tíma og það var talið rétt í þessu tilfelli að sjá hvort þessi aðferð mundi ekki duga vel og falla hv. Alþingi vel í geð, en það má segja að þetta sé tiltölulega gegnsæ og opin aðferð til þess að gera að komast að þessari niðurstöðu. Það hafa verið talsverðar umræður um hvernig að þessu eigi að standa samkvæmt frumvarpinu um RÚV og það hefur verið gagnrýnt hér í þinginu. Það hefur komið til kasta fjármálaráðuneytisins líka að fara yfir þá hluti og þeir hlutir munu auðvitað eiga eftir að verða endanlega gerðir upp hér í þinginu.

Það er ekki rétt sem mér heyrðist á hv. þingmanni að hún teldi að þessu felist gagnrýni á einhverja. Hins vegar er það oft þannig að það eru fleiri en ein leið að sama markinu og í þessu tilfelli var talið rétt að fara þessa leið.