132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Stofnun hlutafélags um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.

734. mál
[20:29]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta voru ansi rýr svör hjá hæstv. fjármálaráðherra og mér heyrðist hann vera eitthvað að reyna að klóra í bakkann með þetta mál, sagði að þarna hefðu menn dottið niður á einhverja leið sem þeir héldu að væri þinginu að skapi. Ég get út af fyrir sig tekið undir það að það er okkur held ég nokkuð að skapi að það sé staðið svona að þessu, þ.e. ef á annað borð á að fara í það að breyta þessu í hlutafélag þá séu eignirnar, skuldirnar, réttindin og viðskiptavildin og allt saman metið af óvilhöllum aðilum. Það er ekki nóg að reyna að þóknast stjórnarandstöðunni eða þinginu þegar kemur að ÁTVR, það er auðvitað miklu meira í húfi hvað varðar Ríkisútvarpið og þar af leiðandi finnst mér að það þurfi að fást við því viðunandi svör hérna í þinginu núna á næstu dögum hvers vegna mismunandi leiðir eru valdar til þess að meta það sem lagt verður inn í þessi tvö hlutafélög þegar þau eru bæði til umfjöllunar hér á sama tíma. Mér finnst að eftir því hljótum við að kalla, að fá einhverjar útskýringar á þessum mun.