132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Stofnun hlutafélags um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.

734. mál
[20:31]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þau orð í ræðu hæstv. ráðherra og reyndar rökstuðningur í greinargerð um að veigamikil rök liggi til grundvallar því að gera Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins að hlutafélagi séu einhver aumkunarverðustu öfugmæli sem ég hef lengi heyrt. Því grynnri röksemdafærslu hef ég lengi ekki heyrt í annan tíma.

Helst er það það að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sé fyrirtæki. En er ÁTVR fyrirtæki? Er einkaleyfið, formskipulag og hlutverk ÁTVR eins og það er af því það sé eins og hvert annað fyrirtæki? Nei. Einkaleyfin á áfengisverslunum Norðurlandanna eru grundvöllur í aðhaldssamri áfengisstefnu. Þetta er hluti af heilbrigðisstefnu Norðurlandanna. Að minnsta kosti fjögurra þeirra. Þegar Norðurlöndin samþykktu EES-samninginn 1992, var settur sérstakur fyrirvari, sérstök undanþága af hálfu ríkisstjórna fjögurra Norðurlandanna inn í EES-samninginn þar sem sagði að einkaleyfin væru vegna þess að þetta væri hluti af heilbrigðisstefnu Norðurlanda. Það er ekki minnst einu einasta orði á það að það eru allt önnur sjónarmið, allt annar sögulegur bakgrunnur sem liggur til grundvallar formi og rekstri þessara fyrirtækja á Norðurlöndunum.

Að heyra svo hæstv. fjármálaráðherra koma hér upp, að viðstöddum áðan hæstv. heilbrigðisráðherra, og tala um þetta eins og hvern annan sjoppurekstur, er með miklum endemum. Rökin falla fyrir einkaleyfinu, fyrir fyrirkomulaginu ef menn nálgast þetta ekki frá þeim sjónarhóli að þetta er hluti af meðvitaðri og farsælli stefnu sem m.a. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hvetur til vítt um heimsbyggðina að menn fari eftir. Fylgi fordæmi Norðurlandanna.

Ég lýsi (Forseti hringir.) fullkominni skömm minni á ábyrgðarlausum málflutningi (Forseti hringir.) af þessu tagi.